fbpx
Mánudagur 17.júní 2024
Fréttir

Ísland með hörðustu aðgerðirnar og lengstu einangrunina – Sjáðu samanburðinn við hin Norðurlöndin

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 25. ágúst 2021 19:00

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýjar reglur er varða sóttvarnartakmarkanir verða tilkynntar á morgun, en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur þegar afhent ráðherra minnisblað. Eiga reglurnar að taka við af núgildandi reglugerð heilbrigðisráðherra sem fellur úr gildi á föstudag.

Óhætt er að segja að takmarkanir á daglegt líf Íslendinga í nafni sóttvarna verði umdeildari með hverri viku sem líður, ekki síst í ljósi þess að alvarleg veikindi virðast nú óalgeng og daglegt líf í nágrannalöndum okkar virðist vera að færast í samt horf eftir áföllin undanfarið eitt og hálft ár.

Í frétt Vísis í gær var Svandís Svavarsdóttir spurð að því hvort hún hafi orðið vör við aukna þreytu og minni þolinmæði fyrir takmörkunum á meðal almennings hér á landi. Svaraði hún því til að Íslendingar gætu vel við unað, enda takmarkanir hér mun minni en í nágrannaríkjunum okkar.

Einhverjir netverjar brugðust ókvæða við og sögðu Svandísi fara með fleipur. Hvort sem netverjarnir eða ráðherrann höfðu rétt fyrir sér, er ljóst að ákvarðanir heilbrigðisyfirvalda eru óneitanlega umdeildari í dag en þær voru áður.

Þá kom fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup að traust til yfirvalda vegna viðbragða þeirra við Covid-19 faraldrinum hefur aldrei mælst minna, hvort sem litið er til heilbrigðisyfirvalda, almannavarna eða getu ríkisins til þess að takast á við efnahagsleg áhrif faraldursins.

Í ljósi orða Svandísar, og viðbragða við þeim, tók DV saman helstu sóttvarnartakmarkanir sem í gildi eru hér og svo á hinum Norðurlöndunum. Tekið skal fram að Svandís notaði orðið „nágrannaríki,“ en ekki Norðurlönd, en erfitt er að ímynda sér hvaða ríki ættu að falla þar undir ef ekki Norðurlöndin enda staðan á Íslandi hvað oftast borin saman við þau í þessum málaflokki, sem öðrum.

Ísland

Landamæri

Bólusettir ferðamenn þurfa ekki að sæta sóttkví við komuna hér til lands, en framvísa þarf neikvæðu prófi við innritun í flug til landsins. Hafi ferðamaður náin tengsl við landið, þ.e. er Íslendingur eða starfar á Íslandi, þarf hann að undirgangast aðra skimun innan 48 klst frá komu.

Þannig þurfa ferðamenn með engin sérstök tengsl við landið aðeins að framvísa neikvæðu PCR eða hraðprófi við innritun í flugið til Íslands, og eru svo lausir allra mála.

Í lok ágúst taka gildi reglur sem heimila þeim sem hafa vottorð um nýlegt smit að sleppa við PCR próf á heimleið, enda getur veiran mælst í slíkum prófum í allt að 90 daga eftir virkt smit.

Innanlands

Núgildandi reglugerð, sem fyrr segir, rennur út á föstudag og hefur verið í gildi frá því rétt fyrir verslunarmannahelgi.

Hámarksfjöldi í sama rými er 200 með ákveðnum takmörkunum, líkt og segir á covid.is. Grímuskylda er þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra nálægðarmörk og á ákveðnum viðburðum þar sem gestir sitja í bókuðum sætum, svo sem á íþróttaviðburðum, innan- sem utandyra.

Þá eru takmarkanir á opnunartíma skemmtistaða- og kráa hér á landi, en hafa má opið til 23:00 og mega gestir sem voru inni þá sitja til 00:00.

Sundlaugar mega hafa opið fyrir allt að 75% af leyfilegum hámarksfjölda, sem og líkamsræktarstöðvar.

Einangrun vegna smits

Greinist einstaklingur með Covid smit á Íslandi skal hann sæta 14 daga einangrun, en hafi hann verið einkennalaus í sjö daga í röð þegar tíu dagar eru liðnir af einangruninni nægja 10 dagar.

Tekið skal fram að á Íslandi eru dagarnir tíu taldir frá því að niðurstaðan úr jákvæðu PCR prófi lá fyrir, og er Ísland eina landið sem styðst við þá reglu. Önnur telja dagana frá því að einkenni komu fram. Frá því að próf er bókað og þar til það er tekið getur liðið einn dagur og gefur heilsugæslan sér 36 klst til þess að skila niðurstöðu. Þrír dagar geta því liðið frá því að einstaklingur pantar sér próf og þar til niðurstaðan liggur fyrir, sem bætast við dagana tíu í einangrun.

Danmörk

Landamæri

Danir styðjast við sitt eigið flokkunarkerfi, og nota til þess fjóra liti: Grænan, gulan, appelsínugulan og rauðan. Mismunandi reglur eiga við um hvern flokk. Ísland er á gulum lista nú, samkvæmt heimasíðu danskra stjórnvalda, en fyrir bólusetta eiga svo til engar reglur við. Þá þarf aðeins að sýna fram á bólusetningarvottorð við komu til landsins.

Engin krafa um sóttkví.

Innanlands

Á heimasíðu danskra stjórnvalda er sagt að þörf sé á neikvæðu prófi til þess að komast inn á flesta veitingastaði og menningarviðburði, en fyrir fullbólusetta dugar bólusetningarvottorð. Samkvæmt samtölum DV við íbúa í Danmörku er þessu þó lítið fylgt eftir.

Grímuskylda er aðeins á Covid-19 prófunarstöðvum og á flugvöllum. Ekki þarf grímu í almenningssamgöngum.

Veitingastaðir og krár þurfa að loka ekki seinna en 02:00. Skemmtistaðir eru ekki opnir.

Engin fjöldatakmörk eru á samkomum í Danmörku, en til þess að komast inn á viðburði innandyra þar sem fleiri en 500 verða í sætum er þörf á bólusetningarvottorði eða neikvæðu Covid-19 prófi. Sama á við um samkomur utandyra ef fleiri en 2.000 verða í sætum.

Einangrun vegna smits

Þess er krafist í Danmörku að fólk með staðfest smit haldi sig heima og einangri sig frá öðrum en þeim sem þeir búa með. Einangrunin skal standa í minnst tvo sólarhringa eftir að einkenni eru farin.

Ef einkenni eru enn til staðar eftir 10 daga má rjúfa einangrun.

Ef engin einkenni eru til staðar þarf einangrunin að standa í 7 daga.

Svíþjóð

Landamæri

Fyrir Íslendinga eru engar takmarkanir á komum til Svíþjóðar. Ekki þarf að framvísa neinum vottorðum eða prófum. Sama hvort einstaklingur sé bólusettur eða ekki. Sama á við um íbúa annarra Norðurlanda. Krafist er bólusetningavottorðs eða prófs ef komið er til Svíþjóðar frá löndum utan Norðurlanda.

Engin krafa um sóttkví er gerð.

Innanlands

Mjög fáar takmarkanir eru á daglegu lífi í Svíþjóð. Grímur sjást sjaldan, en þeirra er nánast hvergi krafist. Gerð er krafa um að ekki sitji fleiri en átta við sama borð á veitingastöðum, og hámarksfjöldi á samkomur innandyra er lækkaður frá því sem venjulegt er, þó mis mikið eftir eðli samkomunnar og húsnæðisins, að því er segir á heimasíðu sænskra stjórnvalda.

Einangrun vegna smits

Greinist maður með Covid-19 í Svíþjóð er þess krafist að hann haldi sig heima í eina viku. Þó er mælst fyrir að þeir smituðu og þeir sem deila með þeim heimili haldi sig eins mikið frá öðru fólki og það kemst upp með í 14 daga, án þess þó að það sé í formlegri einangrun eða sóttkví.

Noregur

Landamæri

Þrátt fyrir að Ísland sé á rauðum lista hjá frændum okkar Norðmönnum nægir bólusetningavottorð eða vottorð um fyrra smit til þess að komast hjá ferðabanni sem annars gildir. Ýmsar undanþágur eru jafnframt í boði fyrir fólk með tengsl við landið.

Óbólusettir þurfa að forskrá sig fyrir komu til landsins, en ekki bólusettir.

Þá þurfa bólusettir ekki að sæta neinskonar sóttkví, né prófun við komuna til landsins.

Innanlands

Mælt er með því að ekki fleiri en 20 séu samtímis á sama stað innandyra, og teljast fullbólusettir ekki með í þeirri tölu.

Eins metra regla er í gildi í verslunum og opnum rýmum.

Gestum er ekki hleypt inn á veitingastaði eftir miðnætti og mælt er með því að veitingar séu bornar á borð auk þess sem hámarksfjöldi á veitingastöðum er lækkaður, en miðað er við hlutfall af hámarksfjölda samkvæmt rekstrarleyfi, svipað og gert er á Íslandi með sundlaugar og líkamsræktarstöðvar.

100 manna regla er í gildi fyrir einkasamkvæmi, en sækja þarf um leyfi fyrir opinberum samkomum og eru leyfi veitt samkvæmt mati hverju sinni. Veltur það mat meðal annars á hvort að gestir séu prófaðir á staðnum fyrir Covid-19, hvort að selt sé í númeruð sæti og hvort samkoman sé innan- eða utandyra.

Einangrun vegna smits

Í tilfelli staðfests Covid-19 smits þarf smitaður einstaklingur að einangra sig í 10 daga frá því að fyrst var vart við einkenni. Þó þarf sólarhringur að líða frá því að einstaklingurinn mældist með hita áður en rjúfa má einangrun.

Finnland

Landamæri

Fullbólusettir og þeir sem koma frá grænu svæði mega heimsækja Finnland og þurfa ekki að sæta neinskonar sóttkví, prófun eða öðrum takmörkunum. Sama á við um þá sem eru með vottorð um fyrra smit.

Óbólusettir þurfa að framvísa neikvæðu PCR prófi, en þurfa þá að gangast undir aðra skimun 3-5 dögum eftir komuna til Finnlands.

Innanlands

Í Finnlandi var sú leið farin að veita heilbrigðisyfirvöldum á sveitarstjórnarstigi býsna mikið svigrúm í að semja sínar eigin reglur og eru reglurnar því mismunandi eftir því hvar stigið er niður fæti í landinu. Þannig eru takmarkanir á einkasamkvæmum, fjöldatakmarkanir á samkvæmi og samkomur, takmarkanir á opnunartímum veitingastaða og skóla á forræði sveitastjórna.

Þar sem flest smit greinast er veitingastöðum gert að loka klukkan 23:00, en annars staðar mega þeir vera opnir til 01:00. Nyrst í Finnlandi eru engar takmarkanir á opnunartímum.

Engar takmarkanir eru á annars konar starfsemi í landinu.

Einangrun vegna smits

Covid-19 smitaðir í Finnlandi þurfa að sæta einangrun í 10 daga, en hægt er að stytta einangrunina á sumum svæðum í Finnlandi að því gefnu að engin einkenni séu til staðar. Þó þurfa minnst 6 dagar að líða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum
Leiðrétting um Carbfix
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar