Átján ára íslenskur karlmaður búsettur í Reykjavík hefur verið ákærður af Héraðssaksóknara fyrir að hafa hótað lögreglumönnum ítrekað og oft í nóvember í fyrra. Ákæran er í fjórum liðum, en öll atvikin áttu sér stað sama kvöldið.
Í ákærunni er maðurinn sagður hafa brotið gegn valdstjórninni þrisvar, fyrst með því að hafa hótað tveimur lögregluþjónum í Kópavogi með orðunum: „Ég sver ég mun slást við ykkur báða.“
Þá er maðurinn jafnframt ákærður fyrir að hafa hótað sömu tveim lögregluþjónum auk níu samstarfsmanna þeirra til viðbótar lífláti með því að segja: „Við skjótum allar þessar fokking löggur.“
Þriðja hótunin sem maðurinn er ákærður fyrir snéri aðeins að einum lögregluþjóni, en maðurinn er þá sagður hafa hótað kynferðislegu ofbeldi: „Ég fokking ríð þér extra fast þangað til þú munt öskra, ógeðið þitt.“ Að lokum er hann ákærður fyrir tilraun til brots gegn valdstjórninni með því að hrækja í átt að lögregluþjóni sem sat inni í lögreglubifreið, en hrákinn hafnaði á hálfopinni rúðu.
Saksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til þess að greiða allan sakarkostnað.
Málið var þingfest í lok júní og verður rekstri málsins fyrir dómstólum haldið áfram að loknu sumarfríi dómstólanna.