Sindri Þór Hilmars-Sigríðarson er einn þeirra sem fengu sent kröfubréf vegna ummæla sem hann lét falla í kommentakerfi um Ingólf Þórarinsson eða Ingó Veðurguð. Sindri svarar Ingó fullum hálsi með færslu á Facebook.
„Eins og margir hafa lesið nú þegar hefur Ingólfur Þórarinsson tekið þá viðbúnu ákvörðun að krefjast bóta, ellegar hóta kæru, frá þeim sem höfðu hátt upp á síðkastið og tjáðu sig um ásakanir á hendur honum. Ég er þar á meðal, enda fór ég mikinn í þeirri umræðu á samfélagsmiðlum. Mér ofbauð algjörlega sú eitraða gerendameðvirkni sem þar logaði og sú staðreynd að gítarglamur poppara virtist mörgum meira virði en skelfilegar sögur tuga þolenda. Kannski ekki nema von þar sem þolendurnir eru, eftir því sem við best vitum, konur og samfélagið hefur lengi sett tilfinningar og ásýnd karla skör hærra en líf og heilsu kvenna,“ segir Sindri.
Hann ætlar ekki að borga Ingó krónu en tekur ekki fram hvaða upphæð hann var krafinn um. Kristlín Dís Ingilínardóttir, blaðamaður Fréttablaðsins, var krafin um þrjár milljónir króna.
Hann segir að ummæli sín hafi vissulega stuðað marga og finnst Sindra það vera gott því „það sem um ræðir er hið ljótasta mál“.
„Ég veit að ég get verið bölvaður ruddi. Gamall kraftlyftingagaur, boxari og þungarokkari sem lærði að rífa kjaft áður en ég lærði almennilega að tala. Það gleður mig því ómælanlega að nú þegar ég verð loksins látinn standa í dómssal vegna einhvers sem ég sagði þá er það eitthvað sem ég stend heilshugar við, í baráttu sem ég verð ævinlega stoltur af að hafa ljáð krafta mína og er hvergi nærri hættur. Já, ég segi dómssal, því ég er hræddur um að Ingólfur verði að bæta sér upp auraleysið annarsstaðar en í mínum vösum. Hjá mér fær hann ekki krónu með gati. Komi það sem koma kann, ég mæti spenntur!“ segir Sindri.
Hann segir þessa leið Ingó að senda kröfubréf vera ómerkileg og að hún lykti af örþrifaráðum. Hann segist skilja að Ingó hafi þó rétt til þess að senda þessi bréf.
„En að kæra til lögreglu í þeirri von að afhjúpa konur sem hræddar tjáðu sig um gróft ofbeldi undir nafnleynd. Rifu upp sár sín, misgróin, í von um að það kæmi öðrum til varnar. Konum sem gengur gott eitt til. Það þykir mér óþokkabragð og nýjar lægðir í þessum annars ósmekklega málaflokki. Ég vona innilega að Ingólfur beri einhvern tímann gæfu til að skammast sín rækilega fyrir það,“ segir hann að lokum.
Færsluna hans Sindra má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.