Í dag var greint frá því að Magnús Kjartan Eyjólfsson, forsöngvari og gítarleikari Stuðlabandsins frá Selfossi muni stýra brekkusöngnum á Þjóðhátíð í ágúst.
Starf brekkusöngvarans hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur í vegna þess að þjóðhátíðarnefnd ákvað að afbóka Ingólf Þórarinsson, betur þekktan sem Ingó Veðurguð, vegna fjölda nafnlausra ásakana um kynferðislegt ofbeldi honum á hendur.
Í kjölfarið myndaðist mikil umræða um það hver skyldi stjórna brekksöngnum. Skiptar skoðanir voru á málinu og voru ansi mörg nöfn sett í hattinn. Nú er ljóst að nafn Magnúsar var dregið úr hattinum og eflaust hafa landsmenn skoðun á því.
Í tilkynningu þjóðhátíðarnefndar segir að Magnús hafi um árabil verið einstaklega eftirsóttur trúbador samhliða því að spila með hljómsveit sinni vítt og breitt um landið við hin ýmsu tilefni. Þá hafi hann komið fram á Þjóðhátíð óslitið síðan árið 2016.