32 nafnlausar sögur um Ingó Veðurguð sem birtust á TikTok-síðunni Öfgar verða kærðar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta staðfestur Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Ingós, í samtali við RÚV.
Fimm munu fá send kröfubréf vegna ummæla sem þeir létu falla á netinu og segir RÚV þar vera meðal annars blaðamenn, áhrifavaldur og fólk sem lét gamminn geysa í kommentakerfi fjölmiðla.
Ingó átti að stjórna brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sem fer fram um verslunarmannahelgina en var afbókaður eftir að 130 konur kröfðust þess að þjóðhátíðarnefnd myndi afbóka hann. Þá fór í gang undirskriftalisti sem skoraði á þjóðhátíðarnefnd að endurskoða þá ákvörðun og stuttu seinna fór í gang annar listi sem skoraði á þjóðhátíðarnefnd að endurskoða ákvörðunina ekki.
Kæran beinist ekki að forsvarsmönnum TikTok-síðunnar Öfgar heldur að þeim sem eru á bakvið nafnlausu sögunnar. Vilhjálmur segist treysta lögreglunni fullkomlega til að finna út úr því hverjir eru á bak við þær.
Þjóðhátíðarnefnd sendi í framhaldinu frá sér yfirlýsingu um að Ingó myndi ekki stýra brekkusöngnum eins og hann hafði gert frá árinu 2013. Í dag var tilkynnt að Magnús Kjartan Eyjólfsson hefði verið ráðinn í hans stað.
Ingó var ekki nafngreindur í ásökununum sem birtust á TikTok en auðvelt var að átta sig á því um hvern væri að ræða þar sem einn meðlima Öfga hafði birt færslu á Twitter þar sem hún bað fólk um að senda sér reynslusögur um „ákveðinn veðurguð“.