Ástríðufullur fornbílasafnari varð fyrir því óhappi í gær að rústa bíl sem hann fjárfesti í nokkrum mínútum eftir að hafa brunað alsæll útaf bílasölunni. Um er að ræða bíl af gerðinni Mercury Grand Marquis Palm Beach Edition frá árinu 2002 en um afar fágætt eintak er að ræða hérlendis.
Þrátt fyrir að bíllinn sé frá þessari öld er hann samkvæmt þeim sem til þekkja afar eftirsóttur meðal fornbílasafnara, sérstaklega á sölusíðum erlendis. Samkvæmt heimildum DV keyrði nýi eigandinn bílinn útaf bílasölu í Höfðahverfi í gær en nokkrum mínútum síðar hafði hann keyrt aftan á Toyota Rav4-bifreið í nágrenni við Mjóddina með hörmulegum afleiðingum eins og myndin hér að neðan ber vitni um. Engin alvarleg meiðsli urðu á fólki en bíllinn er talinn ónýtur.