Nú standa yfir framkvæmdir í Skógarhlíð þar sem verið er að setja niður smáhýsi fyrir heimilslausa. Borgarráð samþykkti í maí í fyrra að heimilt yrði að setja niður tvö smáhýsi á nýrri lóð á mörkum Hringbrautar og Skógarhlíðar og byggist úrræðið á þeirri hugmyndafræði að til þess að fólk geti náð bata sé lykilatriði að það hafi skjól yfir höfuðið.
Þrátt fyrir að tilgangurinn sé göfugur þá var ákvörðunin umdeild meðal íbúa í hverfinu. Ekki síst vegna þess að þegar eru önnur tvö félagsleg úrræði fyrir á litlu svæði og telja margir íbúar að hið þriðja sé um of.
Harpa Sigfúsdóttir býr í nágrenni við húsin, í neðri enda Eskihlíðar, og í Facebook-pistli segist hún vona að þessi ákvörðun borgaryfirvalda verði öllum til góðs og að málið hafi verið hugsað til enda því að ástandið er ekki beysið eins og er. Að hennar sögn ríkir nú þegar hálfgerð skálmöld á svæðinu og að hún sé búin að fá nóg af óaldarlýð.
„Hér er Konukot sem hefur því miður dregið að sér karlmenn af misjöfnu sauðahúsi á undanförnum mánuðum sem enginn virðist mega né vilja stugga við og svo eru nú sumar þeirra engir englar heldur,“ segir Harpa.
Það sem fyllti mælinn hjá henni var að hennar sögn snarbrjálaður maður sem var búinn að vera að sniglast í kring um Konukot með öskur og læti, gangandi á milli bíla, hringjadi dyrabjöllum. Fór hann meðal annars inn í garð Hörpu og hafði á brott með sér eitthvað lauslegt. „Þegar ég opna dyrnar til að tékka á hvað hann sé að gera verður hann brjálaður, hrópar að mér hótanir um ofbeldi og og ég skuli sko ekki hringja í lögregluna. Sem ég geri auðvitað eftir að mér tókst að skella á hann hurðinni. Hann grýtir glerkrukku og fleiru að húsinu en hitti sem betur fer ekki rúður. Við áttum myndir af honum þannig að lögreglan gat handtekið hann við Konukot,“ segir hún.
Handan við hornið sé síðan heimili fyrir geðsjúka karlmenn í neyslu. „Fyrir framan gluggan hjá mér hafa farið fram dagleg viðskipti með lyf árum saman, það vita allir sem að þessum málum koma,“ segir Harpa og undrast því staðsetningarval borgarinnar. Ákvörðunin hafi þó verið tekin og ekkert annað í stöðunni fyrir íbúa en að vona hið besta.
„Ég vona bara að Guð og menn og allar góðar vættir, eftir smekk hvers og eins, haldi verndandi hendi yfir þessari starfsemi, ég held við þurfum á kraftaverki að halda til að þetta gangi upp. Ég veit að allir þurfa að eiga kost á skjóli og tækifæri, en velti fyrir mér hvort þessi samþjöppun sé af hinu góða. Sérstaklega eftir að hafa horft upp á algjört úrræðaleysi rekstraraðila þeirra úrræða sem þegar eru fyrir hendi hér undanfarna mánuði til að stjórna því sem fram fer hér og mitt mat er að hér hefur þegar skapast stórhætta og ekki á bætandi. Og sporin hræða,“ segir Harpa.