Laust fyrir klukkan 13 í dag barst Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um óvelkominn einstakling í sumarbústað. Eigendur höfðu komið að honum og lét hann sig þá hverfa. Einstaklingurinn fannst skammt frá vettvangi þar sem hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa í framhaldi af því.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að snemma í morgun var tilkynnt um hugsanlegt þýfi í íbúðarhúsi í hverfi 104. Lögregla fór á vettvang og lagði hald á nokkurt magn af munum vegna gruns um að þeir væru þýfi.
Á ellefta tímanum í morgun var tilkynnt um slys í Kópavogi þar sem maður datt af rafmagnshlaupahjóli. Var hann fluttur með sjúkrabíl á sjúkradeild til aðhlynningar.