Því er haldið fram að tveir palistínskir hælisleitendur hafi verið boðaðir í húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag á fölskum forsendum, til að fá afhent bólusetningarskírteini en þeir höfðu nýlega verið bólusettir. Á staðnum beið þeirra hins vegar lögreglulið og voru þeir handteknir og verður þeim vísað úr landi. Handtakan er sögð hafa verið mjög harkaleg, í tilkynningu á Facebook-síðu samtakanna Refugess of Iceland. Er því einnig haldið fram að lögreglumenn hafi hrifsað síma af sjónarvotti á staðnum og eytt myndskeiði sem hann hafði tekið upp á síma sinn af aðgerðinni.
Baráttufólk fyrir réttindum hælisleitenda hefur fordæmt þessa aðgerð lögreglu í dag. Meðal þeirra er Sema Erla Serdar sem segir meðal annars á Twitter:
„Sérstaklega smart þessir fulltrúar íslenskra yfirvalda sem standa með hendur í vösum og horfa rólegir á lögreglu beita hörku og offorsi á hælisleitendur sem voru lokkaðir til útl á fölskum forsendum svo hægt væri að handtaka þá og brottvísa til Grikklands.“
„Kæri hælisleitandi, bólusetningarskírteinið þitt er tilbúið til afhendingar. Hægt er að nálgast það hjá Útlendingastofnun í Hfj.“
Hælisleitandi mætir til að sækja skírteinið sitt: pic.twitter.com/wGer82VrmE— Sema Erla (@semaerla) July 6, 2021
DV hafði samband við Þorsteinn Gunnarsson, staðgengil forstjóra hjá Útlendingastofnun. Hann kannaðist ekki við málið þar sem hann er í sumarfríi. Vísaði Þorsteinn á Þórhildi Hagalín, upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar. Þórhildur segir að stoðdeild Ríkislögreglustjóra beri ábyrgð á þessari aðgerð og þurfi að svara fyrir hana, en ekki Útlendingastofnun. Karl Steinar Valsson er yfirmaður stoðdeildarinnar en ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.
Meðfylgjandi myndir birtu Refugees of Iceland á Facebook-síðu sinni.