Crossfitstjarnan Sara Sigmundsdóttir er í sárum um eftir að hafa misst hundinn sinn Mola í slysi í lok júní. Hún birti í kvöld tilfinningaþrungna hinstu kveðju til vinar síns á Instgram-síðu sinni.
Að sögn Söru fór hún í þriggja tíma hjólatúr við sjávarsíðuna með Mola sem hafði yndi af því að fylgjast með fuglalífinu. Afar lítil umferð er á þessum slóðum og því leyfði Sara hundinum sínum að hlaupa frjálsum. Það hafði þær skelfilegu afleiðingar að Moli hljóp að aðvífandi vörubíl sem birtist skyndilega og því miður sá bílstjórinn hann of seint.
„Moli dó við að að gera það sem hann elskaði, að hlaupa og vernda,“ skrifar Sara. Hún segir að færslan sé tileinkuð Mola, hann hafi breytt lífi hennar og lífsviðhorfi. „Hann var mér allt.“
Sara lýsir því svo að hún og Moli hafi tengst órjúfanlegum böndum frá þeirra fyrstu stund. Allir sem þekktu þau hafi sagt að Moli væri hundaútgáfan af Söru og það hafi henni fundist hárrétt. „Þú varst meira að segja lofthræddur eins og ég.“
Hún segir að þau hafi átt margt annað sameiginlegt og að það hafi verið örlögin að grípa í taumana þegar Moli kom inn í líf hennar. „Þú hjálpaðir mér að komast í gegnum alla þá erfiðleika sem ég hef þurft að glíma við,“ skrifar Sara.
Hún segir að það muni taka hana langan tíma að vinna úr því áfalli sem fráfall Mola er. „Þú varst skugginn minn og við gerðum allt saman. Allt er erfitt án þín, því að allt minnir mig á þig. Orð geta ekki lýst því hvað ég sakna þín en ég veit að þú ert enn með mér þó að ég sjái þig ekki.“
Moli dó þann 24. júní síðastliðinn og segir Sara að hún hafi leyft sér að syrgja í nokkra daga. Hún hafi verið í erfiðleikum með að skrifa þessi kveðjuorð og stundum stoppað og hugsað með sér hvernig hún gæti upplifað allar þessar tilfinningar í garð hunds. „En þú varst svo miklu meira en hundur. Þú varst einstakur,“ skrifar Sara.
Þetta er ekki eina áfallið sem Sara hefur þurft að glíma við á árinu. Í mars sleit hún krossband í hné með þeim afleiðingum að hún missir af öllu keppnistímabilinu í ár. Hún hefur þó látið þau orð falla að hún ætli sér að vinna jákvætt úr þeirri reynslu og stefnir á að vera enn betri íþróttamaður þegar hún kemur tilbaka eftir meiðslin.
View this post on Instagram