Einkaþjálfarinn, fjölmiðlamaðurinn og rithöfundurinn Egill „Gillz“ Einarsson á umtalsverða eign í tveimur skráðum hlutafélögum í Kauphöll Íslands, Marel og Kviku banka. Þetta kemur fram í ársreikningum félaganna þar sem hluthafar félagsins, stórir sem smáir, eru listaðir upp.
Alls átti Egill 18.460 hluti í Marel og 1.369.111 hluti í Kviku banka í lok árs 2020 samkvæmt hluthafalistum fyrirtækjanna. Verðmæti hlutarins í Marel er tæplega 17 milljónir í dag en hluturinn í Kviku banka er að verðmæti um 32 milljóna króna. Að því gefnu að Egill hafi ekki þegar selt hluti sína þá á hann því um 49 milljónir í fyrirtækjunum tveimur.
Egill er séður í fjárfestingum og hefur gert það afar gott undanfarin ár í rekstri fyrirtækis síns, Fjarþjálfun.is, þar sem færri komast að en vilja til þess að æfa undir handleiðslu kappans. Þá nýtur hann mikilla vinsælda sem fjölmiðlamaður og skemmtikraftur auk þess sem að ritverk hans í gegnum tíðina hafa selst eins og heitar lummur.
Sjá einnig: Fasteignaveldi Gillz tútnar út – Kaupir íbúðir í gríð og erg á Ásbrú og Þorlákshöfn.
DV fjallaði á dögunum um fasteignaveldi Egils en í gegnum einkahlutafélag sitt hefur hann fjárfest í átta íbúðum á undanförnum árum sem hann leigir út. Alls voru sjö íbúðir staðsettar á Ásbrú auk þess sem Egill keypti nýlega eina íbúð í Þorlákshöfn.