Dýrunn Elín Jósefsdóttir situr uppi með um tug þúsund króna kostnað við að breyta og kaupa flugmiða eftir að hafa verið skikkuð í sóttkví á grundvelli meldingar úr appinu Rakning C-19. Um villu var að ræða sem Landlæknisembættið baðst velvirðingar á fyrr í dag.
Dýrunn segir að hún hafi fengið skilaboðin úr appinu snemma í morgun þar sem fram kom að hún hafi mögulega verið útsett fyrir smiti síðasta þriðjudag. Henni hafi verið brugðið en að hún hafi þó farið til vinnu þar sem í skilaboðunum stóð að hún þyrfti ekki að fara í sóttkví.
„Mér fannst þetta mjög skrítið. Það stóð ekkert hvar þetta hefði átt að gerast. Ég var með sama fólki í vinnunni allan daginn og svo vinum mínum um kvöldið en enginn þeirra fékk slíka meldingu,“ segir Dýrunn. Hún hafi ekki fundið neinar leiðir til þess að hafa samband til þess að fá frekari upplýsingar annað en netspjall á Covid.is.
Nokkrum tímum síðar fékk hún síðan sms og tölvupóst frá Heilsuveru þar sem hún var skikkuð í sóttkví sem hún hlýddi umsvifalaust. Illu heilli hafi hún verið á leið í flug með Icelandair til Egilsstaða seinnipartinn og hafi hún því strax farið í að gera ráðstafanir. Hún hafi strax rekið á sig að á sveigjanleiki sem Icelandair bauð upp á með breytingu á miðum þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst gilti ekki lengur.
„Ég gat í raun bara breytt miðanum eða sleppt því að mæta í flugið. Ég borgaði því breytingagjald til þess að færa miðann fram til jóla þegar ég ætti að geta nýtt hann,“ segir Dýrunn.
Stuttu síðar hafi hún síðan séð fréttir um mistökin og afsökunarbeiðni Landlæknisembættisins. Þá hafi hún þurft að kaupa nýtt flugfaraustur með tilheyrandi kostnaði.
„Þetta er farið að slaga upp í 100 þúsund krónur og er auðvitað mjög óheppilegt,“ segir Dýrunn sem segist ekki gera ráð fyrir að fá tjónið bætt.