fbpx
Mánudagur 07.júlí 2025
Fréttir

Önnur kona stígur fram eftir símtal frá Kristjáni – „Ég veit að hann vildi þagga niður í mér“ – Nötraði og skalf í bílnum

Erla Hlynsdóttir
Miðvikudaginn 30. júní 2021 12:30

Kristján Oddsson og Jóna Dóra Karlsdóttir. Samsett mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóna Dóra Karlsdóttir fékk óvænt símtal frá Kristjáni Oddssyni, yfirmanni Samhæfingamiðstöðvar krabbameinsskimana, þar sem hann bauð henni að koma til sín frítt í leghálssýnatöku. Jóna Dóra hafði áður verið afar gagnrýnin á samskiptamiðlum á fyrirkomulag leghálsskimana eftir flutninginn frá Krabbameinsfélagi Íslands. 

DV greindi frá því í gær að önnur kona, Karen Eva Helgudóttir, ætli að tilkynna Kristján til embættis landslæknis eftir símtal frá honum sem henni fannst mjög óviðeigandi. Áður hafði Kristján tekið ákvörðun um að farga ætti leghálssýni sem kvensjúkdómalæknir Karenar tók, án þess að skoða sýnið, þrátt fyrir að Karen væri með dæmigerð einkenni leghálskrabbameins og væri með sögu um frumubreytingar í leghálsi. Þá sagði Karen að hún hefði upplifað að Kristján hefði hringt í hana til að „reyna að halda henni góðri.“

Þurfti að bíða lengi

Jóna Dóra hafði farið í leghálssýnatöku í byrjun nóvember og þurfti að bíða nokkuð lengi eftir niðurstöðu, en þá var þegar farið í gang ferli við að færa skimanir frá Krabbameinsfélaginu og til heilsugæslunnar sem rekur Samhæfingamiðstöð krabbameinsskimana. „Þegar svarið loks kom var ljóst að sýnið var óeðlilegt og að ég þyrfti að fara sem fyrst í aðra sýnatöku. Það var hins vegar fjögurra vikna bið eftir sýnatöku á heilsugæslunni þannig að ég hafði upp á mínum kvensjúkdómalækni sem var tilbúinn til að taka sýni.“

Hún segist á þessum tíma hafa verið mjög virk í Facebookhópnum „Aðför að heilsu kvenna“ sem var stofnaður til höfuðs breytinga á fyrirkomulagi legháls- og brjóstaskimana. Forsvarskonur hópsins afhentu til að mynda Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, undirskriftarlista í marsmánuði þar sem þess var krafist „að greining leghálssýna verði framkvæmd á Íslandi og að öryggi og heilsa kvenna verði tryggð með ábyrgum hætti.“

„Leið skelfilega undarlega“

Jóna Dóra segist hafa verið á leiðinni að hitta sinn kvensjúkdómalækni í bókaðan tíma þegar hún fékk símtalið frá Kristjáni. „Ég var að ganga út úr dyrunum þegar síminn hringir og á línunni er maður sem kynnir sig sem Kristján Oddsson, yfirmann krabbameinsskimana, og býður mér að koma síðar þennan sama dag í sýnatöku hjá sér. Ég afþakkaði, vildi bara alls ekki fara til hans. Þá segir hann að ég skuli átta mig á því að þetta kosti 14 þúsund krónur hjá mínum lækni en hann geti gert þetta frítt fyrir mig. Ég sagðist vel ráða við að borga sjálf en hann endurtók þá þetta boð. Ég sagði honum að ég treysti ekki þessu kerfi hjá honum, þakkaði fyrir og lagði á.“

Henni var afar brugðið eftir símtalið sem henni fannst bæði óþægilegt og óviðeigandi. „Ég veit að hann vildi þagga niður í mér. Mér leið skelfilega undarlega eftir þetta símtal og eiginlega nötraði og skalf í bílnum á leiðinni til míns læknis.“

„Undarlegasta símtal sem ég hef fengið“

Jóna Dóra segir óþægilegt að hafa fengið óvænt símtal með þessum hætti frá manni sem hafði aðgang að heilsufarsupplýsingum hennar og vissi því að hún þyrfti að fara í leghálsskimun sem fyrst. Með vísan til þess að Karen Eva ætlar að tilkynna Kristján til landlæknis segist Jóna Dóra ekki hafa hugsað út í það á sínum tíma. „En ég hefði átt að tilkynna hann. Þetta er undarlegasta símtal sem ég hef fengið og mér leið illa eftir það. Ég fann að hann var að reyna að með öllum ráðum að fá mig á sitt band. Ég upplifði yfirgang af hans hálfu og þrýsting á mig að gera eitthvað sem ég kærði mig ekki um,“ segir hún.

Þá segist Jóna Dóra hafa heyrt frá mun fleiri konum sem hafi fengið viðlíka símtöl frá Kristjáni. „Þetta eru konur sem hafa verið gagnrýnar á þær breytingar sem gerðar hafa verið á skimunum og þær hafa upplifað símtölin sem svar við þeirri gagnrýni,“ segir hún.

Kristján Oddsson vildi ekkert láta hafa eftir sér um málið þegar DV leitaði eftir því í dag.

Ætlar að tilkynna Kristján til landlæknis – Hringdi og bauð henni leghálsspeglun – „Þetta var mjög óviðeigandi“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ymur Art sakfelldur fyrir morð á móður sinni en honum ekki gerð refsing

Ymur Art sakfelldur fyrir morð á móður sinni en honum ekki gerð refsing
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ísraelar fagna eftir lokaðan fund Eurovision – Íslendingum og Slóvenum tókst ekki að reka þá úr keppninni

Ísraelar fagna eftir lokaðan fund Eurovision – Íslendingum og Slóvenum tókst ekki að reka þá úr keppninni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum