Karen Eva Helgudóttir lenti í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að sýni úr legháls hennar var hent frekar en að vera sent í rannsókn. Karen hefur áður greinst með frumubreytingar og er með einkenni sem bent geta til krabbameins. Því taldi kvensjúkdómalæknir hennar öruggast að taka leghálssýni til rannsóknar þrátt fyrir að ekki væri kominn tími á reglubundna sýnatöku. Hún deildi sögu sinni í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Ég er sem sagt komin fjóra mánuði á leið í dag og ég er náttúrulega búin að vera með stanslausar, þú veist, blæðingar inn á milli, einkenni krabbameins. Ég fer þá til kvensjúkdómalæknis míns sem segir að ég eigi að koma fyrr í frumurannsókn og svo hringir hann í mig og lætur mig vita að sýninu mínu hafi verið hent,“ sagði Karen.
Hún segir að kvensjúkdómalæknir hennar hafi fengið þær upplýsingar frá Kristjáni Oddsson, fagstjóra lækninga hjá heilsugæslunni í Hamraborg, að þar sem ekki væri tímabært að greina sýni frá Karen þá hefði sýni hennar verið hent.
Karen gengur nú með annað barn sitt og verður komin rúmlega þrjátíu vikur á leið í október þegar hún hefði undir venjulegum kringumstæðum átt að fara í leghálsskimun. Hins vegar eru niðurstöður slíkrar skimana ekki nákvæmar á meðan á meðgöngu stendur og þar Karen því að bíða fram á næsta ár til að fá úr því skorið hvort hún sé með krabbamein eða ekki.
„Mér er ekki búið að líða rosalega vel með þetta. Maður er náttúrulega reiður og sár yfir því aðg geta ekki farið í sýnatöku og í rauninni er ég að fara að bíða fram í janúar eða febrúar eftir að ég er búin að eiga barnið mitt, til að geta fengið rétt úr frumubreytingastrokinu.“
Konur hafa í dag þurft að bíða allt að fimm mánuði eftir niðurstöðu úr skimun og óttast Karen því að ef hún fari í sýnatöku eftir áramót verði það ekki fyrr en næsta vor sem hún fái svör.
Karen telur þetta athæfi vera mannréttindabrot. Hún sé ekki að falast eftir tilgangslausri sýnatöku. Hún sé með einkenni og hafi áður greinst með frumubreytingar. Því furðar hún sig á því að Kristján Oddsson taki fram fyrir hendur kvensjúkdóma læknis hennar og hendi sýninu.
Karen er ekki eina konan sem greint hefur frá því að heilsugæslan hafi neitað að rannsaka sýni frá, þrátt að kvensjúkdómalæknir hafi farið fram á slíkt. Nýtt fyrirkomulag leghálsskimana hefur verið harðlega gagnrýnt það sem af er ári og telja margir að um sé að ræða aðför að heilsu kvenna.