Rafskútu Aldísar Óskar Björnsdóttur var stolið á dögunum meðan hún stökk inn í Hagkaup í Spönginni að versla. Systir hennar, Brynhildur Diego Kolbeinsdóttir, birti færslu á Facebook í gær þar sem hún óskaði eftir hjálp almennings við að finna hjólið.
Ein þeirra sem sá umrædda færslu var hlaðvarpsstjórnandinn og áhrifavaldurinn Edda Falak sem kom af stað söfnun fyrir Aldísi. Hún byrjaði söfnunina á síðunni GoGetFunding og deildi með fylgjendum sínum á Twitter og Instagram.
LETSGO! 🤝
Nýtt hlaupahjól fyrir Ásdísi | Community Crowdfunding Page with GoGetFunding https://t.co/KNOfdZ07LK via @GoGetFunding
— Edda Falak (@eddafalak) June 28, 2021
Í samtali við DV segir Edda að yfir 200.000 krónur hafi safnast frá einstaklingum sem vildu aðstoða Aldísi. Upphæðirnar sem fólk lagði til voru allt frá 1.000 krónum að 15.000 krónum.
„Elko er í samstarfi með mér í þessu og Aldís má finna sér hvaða hjól sem er. Þeir ætla einnig að gefa henni hjálm og lás,“ segir Edda en það á eftir að ákveða hvað verði gert með það sem safnaðist umfram. Annað hvort verður fólki endurgreitt eða upphæðin gefin til góðgerðamála. Þeir sem vilja fá endurgreitt geta samt beðið um það sama hvað.
Söfnunin fór í gegnum PayPal og þarf fólk sem lagði hönd á plóg að staðfesta greiðsluna í gegnum vefsíðuna svo hún fari.
„Við erum bara alveg í skýjunum. Við eigum ekki til orð yfir þessu. Þetta er ótrúlegt. Við settum inn færslu upprunalega til að fá fólk til að opna augun og líta í kringum sig í von um að finna hjólið. Við áttum ekki von á þessum viðbrögðum,“ segir Brynhildur, systir Aldísar, í samtali við DV. Hún býr í Hveragerði og var á leið til Reykjavíkur að hitta systur sína og móður hennar til að velja nýtt hjól í Elko.
Aldís fær því aftur aukið frelsi með nýrri rafskútu í dag og fallegt að sjá hvernig Edda og Elko brugðust við þegar þau sáu færsluna.