Á ellefta tímanum í gærkvöldi var akstur 17 ára ökumanns stöðvaður í miðborginni en skráningarnúmer vantaði framan á bifreiðina sem hann ók. Hann var heldur ekki með ökuskírteini meðferðis né skilríki.
Á sjöunda tímanum í gær var ökumaður kærður í Mosfellsbæ fyrir að aka númerslausri bifreið sem var auk þess ótryggð. Ökumaðurinn reyndi að villa um fyrir lögreglunni með því að segjast hafa verið að reynsluaka bifreiðinni sem hann hefði í hyggju að kaupa. Í ljós kom að hann er skráður eigandi bifreiðarinnar.
Í miðborginni var maður, sem var í annarlegu ástandi, handtekinn um klukkan 2 í nótt þegar hann var að reyna að brjótast inn í hús. Hann var vistaður í fangageymslu.
Maður var handtekinn í Hlíðahverfi á þriðja tímanum í nótt en hann er grunaður um líkamsárás. Hann var vistaður í fangageymslu.
Þrír ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna. Tveir þeirra reyndust vera sviptir ökuréttindum. Sá þriðji reyndi að komast undan lögreglunni en það tókst ekki og var hann handtekinn.