Eins og DV greindi frá í gær hefur ákæra verið birt í Rauðagerðismálinu og málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hugsanlegt er að þá verði ákveðin dagsetning fyrir aðalmeðferð málsins en áður en til hennar kemur er fyrirtaka þar sem ákæruvaldið og verjendur leggja fram sín gögn í málinu. Réttarhlé hefst 1. júlí en þó er ekkert sem varnar því að réttað sé í júlímánuði. En málsaðilar þurfa tíma til að kynna sér gögn sem eru viðamikil í þessu máli. Samkvæmt heimildum DV er líklegast að aðalmeðferð í málinu verði í ágúst eða september.
Ákæran í málinu vekur stóra spurningu sem ekki hefur verið svarað nema að mjög takmörkuðu leyti: Hver var ástæðan fyrir þessu morði? – Flest bendir til að helsta orsökin hafi verið persónuleg óvild og hatur milli aðalsakborningsins, Angjelin Sterkhaj, og hins myrta, Armando Bequiri. Ákæran birtir hins vegar glæp sem hefur verið þaulskipulagður af fjórum manneskjum og sú spurning vaknar hvers vegna fjórar manneskjur þaulskipulögðu morð sem sprottið var af óvild eins fjórmenninganna í garð hins myrta.
Framan af rannsókn gaf lögregla út að málið gæti tengst uppgjöri í undirheimum Reykjavíkur. Meðal grunaðra sem voru látnir sitja í gæsluvarðhaldi er Anton Kristinn Þórarinsson sem lengi hefur verið orðaður við undirheima, hvað sem kann að vera satt í því, því Anton hefur ekki hlotið dóm síðan um aldamótin síðustu.
Það var mat héraðssaksóknara eftir að lögregla hafði skilað sínum rannsóknarniðurstöðum að ekki væri ástæða til að ákæra Anton í málinu. Málið lítur út eins og uppgjör á milli fimm útlendinga þar sem fjórir taka sig saman um að myrða einn. Hafi fólkið ætlað að fremja hinn fullkomna glæp var það hins vegar langt því frá að takast. Einn sakborninganna var handtekinn þegar á laugardagsnóttina í Garðabæ. DV er ókunnugt um hvað leiddi lögreglu á slóð hans.
Angjelin Sterkhaj, skotmaðurinn sjálfur, var handtekinn í Reykajvík 16. febrúar, þremur til fjórum dögum eftir morðið.
Ferðir Angjelins í kringum morðtímann eru áhugaverðar. Fimmtudaginn 11. febrúar fór hann í snjósleðaferð í Skagafirði og hélt til þar þangað til á morðdaginn þegar hann ók til Reykjavíkur. Um laugardagsnóttina, strax eftir morðið, ók hann aftur til Skagafjarðar og hélt til í sumarhúsi í Varmahlíð yfir helgina. Á leiðinni stöðvaði hann bíl sinn í Kollafirði og henti morðvopninu, 22 kalibera skammbyssu af gerðinni Sig Sauer, í sjóinn. Með Angjelin í för var einn af fjórmenningunum sem eru ákærðir, fertugur maður að nafni Shpetim Querimi.
Áhugavert er að Anton Kristinn Þórarinsson var einnig staddur í sumarhúsi í Skagafirði þessa helgi. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV voru Anton og Angjelin ekki í sama sumarhúsinu. DV hefur ekki staðfest að tengsl séu á milli þessara tveggja manna, þó að það verði að teljast líklegt í ljósi þessarar sumarhúsavistar, né hver þau eru ef svo er.
Rétt er að ítreka að héraðsaksóknari taldi ekki ástæðu til að ákæra Anton í málinu og þar mun meðal annars liggja til grundvallar framburður sakborninganna sjálfra. Angjelin hefur jafnframt lýst því yfir í fjölmiðlum að Anton hafi ekki komið nálægt morðinu.
Lögmaður Antons, Steinbergur Finnbogason, fullyrðir raunar að lögregla hafi vitað löngu áður en Anton var hreinsaður af grun um hlutdeild í málinu að hann væri saklaus, og líklegt sé að Anton muni leita réttar síns vegna gæsluvarðhalds og farbanns sem hann var beittur. Sjá viðtal DV við Steinberg