Á níunda tímanum í gærkvöldi varð umferðaróhapp í Laugardalshverfi. Tjónvaldur hljóp á brott frá vettvangi. Lögreglan telur sig vita hver hann er. Báðar bifreiðarnar voru óökufærar og voru fluttar á brott með kranabifreið.
Klukkan 18 var tilkynnt um slys þar sem kona hafði dottið við fjallstopp Helgafells. Sjúkraflutningamenn aðstoðuðu hana niður og fluttu á Bráðadeild en hún var köld og með verki.
Í Kópavogi komu menn akandi að húsi einu upp úr miðnætti og köstuðu grjóti í gegnum rúðu. Upptaka af þessu náðist á öryggismyndavél.
Brotist var inn í geymslu fjölbýlishúss í Árbæ seinnipartinn í gær og reiðhjólum og fleiru stolið.
Í Bústaðahverfi var maður handtekinn um klukkan 20 en hann hafði brotið rúðu í húsi og farið inn. Hann var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslu.
Þrír ökumenn voru handteknir grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.