fbpx
Þriðjudagur 21.mars 2023
Fréttir

Helgarviðtal við Katrínu Jakobsdóttur: „Þú getur ekkert farið á nammibarinn í gúmmístígvélum og náttbuxum ef þú ert forseti“

Tobba Marinósdóttir
Sunnudaginn 14. mars 2021 08:30

Katrín Jakobsdóttir. Mynd: Anton Brink.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra býr í blokk og segist kunna því vel að búa ekki of rúmt því hún eigi það til að sanka að sér dóti svo sem bollastellum sem aðrir ætla að henda. Hún fer í Krambúðina á náttfötunum og segir það ekki vera neitt sérstakt markmið að láta öllum líka við sig, sem er líklega ástæðan fyrir því að hún er einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins.

Myndir: Anton Brink
Sérstakar þakkir: Listasafn Íslands og Steina Vasulka fyrir afnot af verkinu Of the north

Katrín Jakobsdóttir hefði getað valið ótal leiðir í lífinu og farnast vel. Hún hefði orðið og hefur verið fyrirtaks kennari, bókmenntir eiga stóran sess í hjarta hennar, svo skrif og ritstýring liggur beint við og hún er fær í mannlegum samskiptum svo að jafnvel hefði sálfræðistarf getað átt vel við hana líkt og móður hennar. En nei, þrátt fyrir að ætla sér það ekki sérstaklega fann krafturinn sér farveg og Katrín Jakobsdóttir fór á þing.

Katrín er fædd 1. febrúar 1976 og er dóttir Jakobs Ármannssonar, bankamanns og kennara, og Signýjar Thoroddsen sálfræðings. JakOb lést árið 1996, 57 ára að aldri, og Signý 2011, 71 árs. Fjölskylda Katrínar var og er afar samheldin, en hún er yngst fjögurra systkina. Elst er Bergljót Njóla, kennari, og því næst tvíburabræðurnir Sverrir sagnfræðiprófessor og Ármann sem er prófessor í íslensku og rithöfundur. Katrín er gift Gunnari Sigvaldasyni heimspekingi og saman eiga þau þrjá syni, þá Jakob, Illuga og Ármann Áka.

Stressið í hliðinu

Vinir og kunningjar Katrínar segja hana yfirleitt spyrja fólk hvernig því líði þegar það rekst á hana. „Þó að það sé örugglega miklu meira í gangi hjá henni en mér, þá spyr hún að því,“ sagði fyrrverandi skólasystir Katrínar, aðspurð hvernig týpa forsætisráðherra væri. Að því sögðu er það fyrsta spurningin. Hvernig líður þér?

„Ég vissi ekki einu sinni að ég spyrði að þessu en ég hef auðvitað áhuga á fólki. Það er líklega ástæðan fyrir því að ég spyr. En hvernig líður mér? Ég er með smá sjóriðu eftir þessa jarðskjálfta en að öðru leyti líður mér bara vel,“ segir Katrín og það er er ekki annað að sjá en svo sé. Hún brosir.

Það segir sig sjálft að starf hennar er óhefðbundið og álagið mikið. Kulnun er hugtak sem sífellt oftar er rætt um og eftir að Íslendingar hættu að vinna sig líkamlega í þrot í sveitum landsins tók hið andlega þrot við. Fjöldi einstaklinga í ábyrgðarstöðum forðast umræðuefnið og hugmyndin um að eitthvað sé „of mikið“ er sett til hliðar. Íslendingar vilja vera afreksfólk og því er kappkostað að hlaða á sig verkefnum. Forætisráðherra segist þekkja tilfinninguna.

Hlátur gegn vonleysi

„Mér hefur fundist ég vera við það að drukkna, upplifa ekki margir það? Að það þyrmi yfir mann og maður sjái ekki fram úr verkefnunum. Ég hef gengið í gegnum svoleiðis skeið. Maður lærir af reynslunni og ég hef fundið að fyrir mig skiptir miklu máli að vera úti undir berum himni. Mér finnst ekki gaman að vera inni í leikfimi – ég bara tengi ekki við það. Ég verð bara stressuð strax í hliðinu. Allir virðast vita hvað þeir eru að gera en ég er bara föst í hliðinu eða get ekki opnað tæknistýrðan skáp,“ segir Katrín og hlær.

Útihlaup og ganga gera henni gott að eigin sögn og þar hreinsar hún hugann og fær hugmyndir. „Hreint loft og birta. Ég finn núna þegar dagurinn er að lengjast að orkan mín eykst með birtunni. Svo er annað sem mér finnst virka vel þegar ég finn fyrir vonleysi. Það er að hlæja. Það er sálfræðimeðferðin sem er boðið upp á heima hjá mér. Þá horfum við á asnalegt grín eins og Naked Gun. Þar sem fólk er að detta í tjörn og svona, ég er með mjög „banal“ húmor. Það kenndi mér eldri kona að það má ekki missa húmorinn. Alveg sama hvað verkefnin og lífið geta verið krefjandi.“ Katrín hefur oft talað um það að hún hafi ítrekað verið skömmuð fyrir að brosa og hlæja of mikið með þeim varnaðarorðum að það muni enginn taka mark á henni ef hún hlæi svona mikið.

„Mér hefur líka verið sagt að það sé ekki við hæfi að hlæja þegar það eru alltaf einhver óleyst vandmál úti í heimi. Það er rétt en það er hægt að taka vandamálin alvarlega þó að maður hafi húmor fyrir lífinu.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Mynd: Anton Brink

Eiginmaðurinn stíliserar

Katrín segist hafa ákveðið að ef hún ætlaði að halda áfram í stjórnmálum yrði hún að fá að vera hún sjálf. Með hlátrinum og öllu sem henni fylgir. Að því sögðu þá hefur hún þó í gegnum tíðina þegið ráð varðandi fataval frá eiginmanni sínum.

„Ég játa að maðurinn minn hefur haft mikil áhrif á klæðaburð minn. Hann segir að ég hafi verið eins og trúður í stórum buxum og miklum litum og Converse-skóm. Hann er minn stílisti,“ segir Katrín og hlær, en hún hefur oftar en einu sinni ratað á lista yfir best klæddu konur lands-ins svo samstarf þeirra hjóna gengur vel.

Katrín segist vera veik fyrir góðum afslætti og gera helst mistök í innkaupum á útsölum. „Ég held að verstu kaupin séu líklega litskrúðugt strokk-pils sem ég keypti á 70% afslætti í fínni búð í bænum. Þegar ég kem heim spyr Gunnar: „Hvað er þetta?“ og horfir á mig eins og ég sé að koma með framandi lífveru inn á heimilið. Ég sagði honum hvað þetta væri ljómandi fínt og dásamlegt. Ég ætlaði ekki að gefa þetta eftir og klæddi mig í pilsið daginn eftir og mætti á einhvern viðburð. Svo sé ég mynd af mér í blaðinu og þetta var alveg hræðilegt. Þetta fór mér eins illa og hugsast gat. Ég er alltaf eitthvað að reyna að vera sniðug en þarna var ég eins og litskrúðugur sívalningur. Ég á það líka til að kaupa fatnað sem er ætlaður mjög hávöxnum konum.“Af gleðinni í andliti hennar að dæma virðast þessi stöku innkaup hennar hafa mikið skemmtanagildi fyrir fjöl-skylduna áður en þau enda svo í Rauða krossinum eða í fataskiptiklúbbnum sem hún er í.

Kleinur í dós

Drengir Gunnars og Katrínar eru 15, 13 og 9 ára. Það þýðir þrjú barnaafmæli á ári og samkvæmt samfélagsmiðlum þarf helst að ákveða þema tveimur mánuðum fyrir afmælið svo hægt sé að panta skraut frá AliExpress og tryggja að allt sé sem „mynd-arlegast“. Hvernig skyldi forsætisráðherra tækla slíka tilbúna streitu?

„Er fólk að gera það? Ég er alin upp af móður sem var sko ekki að stressa sig á þessum hlutum. Ef maður átti að mæta með heimabakstur á bekkjarkvöld þá skellti hún Ömmubaksturskleinum í Mackintosh-dós. Mér finnst mikilvægt að ala mín börn upp í því að vera ekki með of miklar væntingar. Það er ekki allt frábært. Afmælin sem ég held eru stundum bara Domino’s og Svali. Ég hef reynt að baka einhverja rosalega köku sem átti að vera geimskip en varð geimskip sem hafði lent í árekstri. Þeim fannst það bara fínt. Börn eru ekki að gera svona miklar kröfur, það erum við sem erum að gera þessar kröfur.“

Synir Katrínar eru vanir starfsumhverfi móður sinnar og eru þeir eldri jafnvel farnir að fylgja stjórnmálamönnum á samfélagsmiðlum. „Þeir eru mjög vanir þessu stjórnmálavafstri og vita mikið um stjórnmál. Ég veit ekki hvernig ég yrði ef ég kæmi heim og ætti alveg að kúpla mig út og mætti ekkert ræða stjórnmál. Ég tek svolítið vinnuna heim en það er meira þannig að ég segi þeim frá hvað var rætt í þinginu eins og þeir segja mér frá sínum degi. Maðurinn minn hefur mikinn áhuga á stjórnmálum og mér finnst að það eigi að tala við börn eins og fullorðið fólk. Það og ekki ala þau upp í of miklum vænt-ingum. Og auðvitað að ala upp sjálfstæða einstaklinga.“

 

Merkel og rýmisgreindin

Katrín hefur ósjaldan gert grín að sjálfri sér fyrir takmarkaða rýmisgreind og að vera ómannglögg og er óspör á hrakfallasögur til að létta lund samferðamanna sinna. Það er eiginmaðurinn sem oft verður vitni að slíkum gjörningum – og tilfallandi þjóðarleiðtogar.

„Öll rifrildi okkar hjóna virðast hefjast í verslunum.“ Þar mætast þessir tveir hlutir, rými og ómannglöggvi af fullum krafti. „Það byrjar yfirleitt þannig að mér er bent á að það sé einhver búinn að reyna að komast fram hjá okkur í grænmetiskælinum í þrígang. Svo þekki ég ekki þann sem heilsar mér þó hann vinni með mér og þetta endar svo á kassanum þar sem Gunnar vill fara á sjálfsafgreiðslukassa en ég vil hitta manneskju og ég vel alltaf kassann þar sem röðin stoppar. Ég held að það sé alger pína að vera með mér í opinberu rými. Það sást þegar ég heimsótti Angelu Merkel og ég fékk einföld fyrirmæli um hvar ég ætti að standa og ganga, en samt varð hún að vippa mér yfir sig því ég stóð röngum megin þegar við stoppuðum fyrir framan mjög hátíðlegan þýskan heiðursvörð.“

Málamiðlanir

Katrín hefur verið gagnrýnd fyrir að gefa of mikið eftir í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á kostnað stefnumála Vinstri grænna. „Það sem ég er stundum skömmuð fyrir af stuðningsmönnum mínum er að ég sé ekki mikið að leysa málin í fjölmiðlum heldur við ríkisstjórnarborðið. Ég segi að þetta sé karma, ef við hugsum til lengri tíma þá leysum við málin með samtölum og málamiðlunum en þá er maður gjarnan gagnrýndur af því að fólk sér ekki hvernig málamiðlanirnar verða til.

Mitt fólk í flokknum er opinskátt í gagnrýni sinni á mig ef því finnst ég gefa of mikið eftir, en þá finnst mér gott að setjast niður og hugsa: „Hvað erum við að fá út úr þessu? Hvað skiptir máli fyrir Ísland?“ Það er ekki hægt að vera á sjálfstýringu, maður verður að geta svarað sjálfum sér því að þetta sé þess virði.“

Hefur þú áhyggjur af VG? Að stóru baráttumálin séu að verða almenn baráttumál og það sé að kvarnast úr f lokknum?„Við auðvitað erum búin að missa tvo þingmenn en um leið hafa aldrei verið fleiri félagar í flokknum. Mér finnst við á góðum stað. Og með baráttumálin, þá er það enginn stjórnmálaflokkur sem á eitthvert mál. Það er auðvitað frábært að aðrir flokkar séu að tala um umhverfismál og að fólk sé að tala um jafnréttismál. Stjórnmálaflokkur er ekki til fyrir sjálfan sig. Hann er til fyrir málin og gildin annars vegar og hins vegar fyrir fólkið sem vill taka þátt og ég hef ekki áhyggjur af því. Það er mikill áhugi á að taka þátt og það er frábært fyrir málin að fleiri séu að verða grænir og fleiri séu að verða femínistar.“

Persónukjör og gott fólk

Hvað með persónukjör? Það kemur reglulega upp sú hugmynd að koma á persónukjöri og þá oft í samhengi við þitt nafn og þitt persónufylgi?

„Ég er svo mikill sósíalisti að ég segi að fólk eigi að kjósa gildi og hugmyndir en ekki einstaklinga svo þetta verði ekki bara vinsældakosning. Það er mín afstaða en það er ekkert óeðlilegt við að fólk geti kosið fólk og flokk eins og hefur verið rætt. Sá vilji hefur ítrekað komið fram og þó að ég sé svona gamaldags þá skil ég alveg þessa kröfu, að fólk vilji hafa meiri áhrif á hvaða fólk velst á þing. Ég hefði áhuga á að ræða þessi mál á næsta kjörtímabili ef við höldum áfram vinnu við stjórnarskrárbreytingar og að auka vægi persónukjörs.“

Í umræðuþætti á Stöð 2 með öllum formönnum f lokkanna sagðir þú að allt fólkið sem þar stæði væri gott fólk. Þarna var mjög ólíkt fólk sem þú hefur unnið með og ýmislegt hefur gengið á í samstarfinu og án efa oft verið erfitt. Það er dáldið óvenjulegt að segja svona. Þér finnst það?

„Já, en svo spyr maður sig. Hefur maður hitt vont fólk? Kannski einhvern tímann en ég er alin upp í því að það sé gott í öllum. En reynsla mín af þessu fólki sem ég er að vinna með í þinginu hefur verið sú að þó að mér geti fundist það hundleiðinlegt á köflum og jafnvel ekki alltaf málefnalegt þá eiga þau öll sínar ofboðslegu góðu hliðar sem manni þykir mjög vænt um. Þetta er kannski kostur minn og löstur; ég á erfitt með að dæma fólk og afskrifa það.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Mynd: Anton Brink

Hvar er forsætisráðherra?

Spurð um jafnréttismál í íslenskum stjórnmálum og hvar við stöndum svarar Katrín: „Við erum ennþá að berjast á svo mörgum sviðum og þrátt fyrir að við séum efst á einhverjum listum þá erum við með sögur af kynbundnu ofbeldi og áreitni í stjórnmálum alveg eins og annars staðar. Einnig varð ákveðið bakslag í jafnrétti á þinginu í kosn-ingunum 2017 þegar hlutfall kvenna á Alþingi fór niður fyrir 40% en það hafði verið mun hærra í kosningunum 2016. Við erum því enn að berjast fyrir jafnrétti í stjórn-málum eins og annars staðar.“

Hefur þú upplifað að erlendir kollegar þínir taki ekki mark á þér því þú ert kona – og oft þeim yngri?
„Ekki kollegarnir en ég lendi iðulega í því að vera spurð hvar forsætisráðherra sé. Ég hef lent í alls konar slíku og það eru þá jafnt konur og menn sem spyrja mig hvar ég sé og fara svo alveg í kjallarann þegar ég segi þeim að ég sé forsætisráðherrann. Það hafa komið mörg furðuleg augnablik. Ég fór einu sinni í viðtal við indverska sjónvarpið. Ég heilsa spyrlinum og hann skilur mig eitthvað illa. Svo spyr ég: „Á ég að setjast hérna?“ Og sest og hann stekkur upp: „Nei, nei, stattu upp, stattu upp. Forsætisráðherra á að sitja þarna.“

Í kjölfarið kom svo langur misskilningur eins og í gamanmynd og hann var í svo ægilegum mínus, aumingjans maðurinn.“ Katrín segir kynbundnar athugasemdir einnig gera reglulega vart við sig. „Ég ákvað það í hlaupatúr að ég ætlaði aldrei að vera meðvirk með kynbundnum kommentum. Þegar mér er sagt til dæmis: „Það væri nú gaman ef þú gætir mætt með þitt fallega bros,“ þá segi ég eitthvað sem dregur athygli að því eins og: „Já, þá sendi ég manninn minn.“ Ég nenni þessum athugasemdum ekki lengur, og þó að þetta sé ekki það skemmtilegasta, að vera að þusa yfir einhverju svona, er ágætt að ég geri það.“

Hvað gerðist í þessum hlaupa túr?
„Þetta var snemma árs 2017, eftir kosningar haustið 2016 og strembnar stjórnarmyndunarviðræður og ég var hætt að borða og sofa og var einhvern veginn alveg með heim-inn á herðum mér. Ég er þá 41 árs og finn að ég þarf að gera eitthvað til að losa streitu og fer að hlaupa og fæ þá góðan tíma til að hugsa. Ég er þarna búin að vera lengi á þingi og það voru alltaf að koma einhver komment og ég hugsa bara þarna: „Ég er hætt. Nú bendi ég fólki á þetta.“ Karlremban er svo víða, líka hjá mjög almennilegum mönnum. Ég á þrjá drengi og það skiptir máli að skila þessu áfram.“

Frelsið í æðruleysinu

Katrín segir óvæntar kosningar árið 2016 og stjórnarmyndunarviðræður í kjölfarið hafa verið þær erfiðustu sem hún hefur upplifað. „Ég var á þingi í hruninu, ráðherra í vinstristjórninni þar sem gekk á ýmsu og við misstum fimm þingmenn og svo er ég búin að vera í þessari ríkisstjórn með stöðugar hamfarir, en það var þarna sem ég var alveg búin. Það gekk á með svo mikilli dramatík. Þarna ákvað ég líka að hætta að reyna að láta öllum líka við mig. Það er ókleifur hamar. Það er hluti af æðruleysinu að átta sig á því að það er ekki hægt og að það er ekkert sérstakt markmið. Þá upplifir maður frelsi. Það er eins og að kasta af sér brynju. Það er svo ríkt í manni að maður vilji að fólki líki við sig. Ég tók það lengi vel nærri mér, sérstaklega eftir hrunið, þegar fólk tók mann fyrir og öskraði á mann úti á götu og í búðinni. Ég varð algerlega miður mín, en fólk var í uppnámi og ég skil það.“

Katrín segist hafa lært með árunum hvaða bjargráð virki til að halda andanum sterkum. „Mamma mín var sálfræðingur sem vann með börnum og ég hef leitað til sálfræðings fyrir þó nokkru síðan og það var mjög gagnlegt. Það þarf að ganga í gegnum þetta ferli að sætta sig við að stundum er eitthvað sem maður ræður ekki við. Svo á ég vini úr ólíkum flokkum sem hafa veitt mér mikinn stuðning og bara sagt: „Hættu þessari vitleysu, Katrín Jakobsdóttir.“ Og síðast en ekki síst þá fékk ég gott ráð frá vinkonu minni sem var í pólitík. Hún sagði: „Mundu eftir að halda í vini þína sem eru ekki í pólitík. Því annars geturðu orðið alveg ein þegar þú hættir.““

Tekur mestu orkuna

Katrín líkt og aðrir stjórnmálamenn fær gagnrýni á sitt borð í ýmsum myndum. Í síðustu viku fékk hún bréf frá hópi grunnskólabarna sem kallaði eftir svörum um hvers vegna verið sé að vísa erlendum börnum úr landi sem sóst hafa eftir hæli hérlendis. Lastu bréfið?

„Já, það er ótrúlega mikil-vægt að heyra frá fólki, bæði ungu og gömlu, í samfélaginu og ég er að íhuga hvort ég svari þessum ungmennum eða bjóði þeim á fund til mín og ræði þessi mál. Mér finnst jákvætt að fólk tjái sig við stjórnmálamenn. Mér finnst gott að fólk hafi samband og sendi manni bréf. Það þýðir ekki að maður sé sammála öllu sem maður fær héðan og þaðan, en það skiptir máli að missa ekki mennskuna í þessu starfi og hætti að hlusta. Ég reyni að miða við það að á meðan ég er með kveikt á hlustuninni og brenn fyrir því að mæta í vinnuna þá ætla ég að halda áfram í þessu. Stundum les ég bréf frá einstaklingum og hugsa: „Ég verð að gera eitthvað í þessu.“ Auðvitað þarf að sortera, stundum er fólk að tala í reiði en það þarf að hlusta á þá sem hafa eitthvað að segja. Það er lílega þetta sem tekur mestu orkuna. Að gera greinarmun þarna á og hlusta.“

Síminn er sími

Sífellt áreiti í gegnum samfélagsmiðla, síma og tölvupóst kallar á gífurlegt álag og hafa hinar ýmsu þjóðir leitast við að breyta vinnulagi til að reyna að auka lífsgæði fólks. Í því samhengi samþykkti Frakkland ný verkalýðslög árið 2017 sem kveða á um að starfsfólk þurfi ekki að svara tölvupóstum utan vinnutíma. Fjöldi fyrirtækja þar í landi hefur einnig tekið upp á því að slökkva á póstþjóninum utan vinnutíma svo tölvupóstar safnast upp en sendast ekki nema á vinnutíma. Holland, Lúxemborg, Belgía, Spánn og jafnvel New York eru að skoða útfærslur á því sem kallað hefur verið „rétturinn til að aftengjast“.

Aðspurð hvort til standi að skoða slíkt hérlendis svarar Katrín: „Nei, það hefur ekki verið rætt en við ættum kannski bara að gera það, ég sjálf er allavega þeirrar skoðunar að það verði að draga einhver mörk og þetta fer illa með marga – og það sama á við um samfélagsmiðla.“

Katrín segir að samfara styttingu vinnuvikunnar þurfi að skoða þessi mál og hvers sé ætlast til af fólki. „Með sveigjanlegri vinnutíma er oft verið að biðja fólk um að vera sveigjanlegt í svörum og það þarf að ræða. Til hvers er ætlast af fólki? Það þarf að vera skýrt. Ég get unnið á öllum tímum dags og þó ég sé að senda tölvupósta á kvöldin ætlast ég ekki til þess að starfsfólkið hér til dæmis sé að svara mér á kvöldin. Mér finnst ágætt að geta sent en ætlast ekki til að mér sé svarað strax. Sjálf er ég ekki með samfélagsmiðla eða tölvupóst í símanum. Ég tók þá ákvörðun að lesa tölvupóst í tölvu. Ef það er eitthvað sem má ekki bíða þá hringir fólk. Ég get alltaf kíkt í tölvuna ef það er eitthvað sérstakt.“

Kíkja í tölvuna til að lesa tölvupóst hljómar eins og þú ætlir að kveikja á túbusjónvarpi.
„Já. En ég verð að hafa þetta svona, annars yrði ég alveg rugluð. Ég er líka með reglu um að síminn er ekki inni í svefnherbergi. Ég er að reyna að miðla þessu til sona minna og sá yngsti er 9 ára. Hann er með síma en ekki snjallsíma.“

Forsetaframboð og náttbuxur

Hugrekkið sem einkennir Katrínu nær í allar áttir. Inn í fataskáp og inn á ríkisstjórnarfundi. Hún er líka þekkt fyrir að taka oftast símann og er jafnvel skráð í símaskrána sem er óvenjulegt fyrir þjóðarleiðtoga. Það er því ekki að undra, þegar Katrín var orðuð við forsetaembættið 2016, að hún hafi tekið símann þegar fjölmiðlar hringdu á víxl.

„Það hringir fullt af frábæru fólki sem ég ber mikla virðingu fyrir og segir mér að láta vaða. Svo hringir einhver fjölmiðill og ég segist ætla að leggjast undir feld,“ hún skellir upp úr. „Ég hefði ekki átt að segja þetta því fólk tók þessu af mikilli alvöru og taldi fram-boð handan við hornið, þegar staðreyndin var sú að ég var bara að hugsa málið. Stundum er það hins vegar þannig að maginn er rétta tólið og mag-inn í mér sagði mér að þetta væri ekki fyrir mig. Þú getur ekkert farið á nammibarinn í gúmmístígvélum og náttbuxum ef þú ert forseti. Þetta er myndin sem ég sá fyrir mér. Ég í Krambúðinni á náttbuxunum. Það var augljóst að ég gat ekki verið forseti. Ég sagði náttúrlega ekki við fjölmiðla að ástæðan væri sú að ég vildi geta farið á náttbuxunum út í búð.“

Er ekki hægt að henda í nammibar á Bessastöðum? Eða ertu alveg búin að afskrifa þetta?

„Aldrei að segja aldrei. Ég ætlaði aldrei að vera svona lengi á þingi heldur. Ég elska pólitík en ég elska bókmenntir líka og það er svo margt sem ég ætla að gera og ég fæ svo margar hugmyndir. Þegar ég hætti er svo margt í boði. Gallinn er að maður ákveður oft ekki sjálfur hvenær maður hættir en það lærist visst æðruleysi í stjórnmálum. Ég veit heldur aldrei hvenær ég er búin á þingfundi. Maðurinn minn segir reyndar að það tengist ekki þessu starfi, ég sé alltaf of sein hvort sem ég er bókagagnrýnandi eða forsætisráðherra. Ef ég sendi honum skilaboð og segist koma klukkan hálf sjö sendir hann á móti: „Nei, þú kemur ekki klukkan hálf sjö,““ segir forsætisráðherra Íslands og lítur á klukkuna.

Hún á að vera mætt á fund eftir 13 mínútur.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Mynd: Anton Brink
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Stal bifreið og ók á tvær aðrar – Ógnaði fólki með hnífi

Stal bifreið og ók á tvær aðrar – Ógnaði fólki með hnífi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Pútín segist hafa heimsótt Maríupól – „Ég er ekki sannfærður um að hann hafi verið þar“

Pútín segist hafa heimsótt Maríupól – „Ég er ekki sannfærður um að hann hafi verið þar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Það sem mestu máli skiptir er það sem er innan þessarar höfuðskeljar“

„Það sem mestu máli skiptir er það sem er innan þessarar höfuðskeljar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Erik Valur mætir í lyfjagjöf á þriggja vikna fresti allt árið – „Þetta er daglegt líf þessara barna“

Erik Valur mætir í lyfjagjöf á þriggja vikna fresti allt árið – „Þetta er daglegt líf þessara barna“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Jón ósáttur við fréttastofu RÚV – Birtu aðeins 10 sekúndur af 3 mínútna málsvörn hans varðandi rafbyssumálið

Jón ósáttur við fréttastofu RÚV – Birtu aðeins 10 sekúndur af 3 mínútna málsvörn hans varðandi rafbyssumálið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gæsluvarðhald yfir skotmanninum á Dubliners framlengt

Gæsluvarðhald yfir skotmanninum á Dubliners framlengt