Pistill Sigríðar Elínar Ásmundsdóttur í síðustu viku vakti landsathygli og fjallað var um hann í öllum helstu fjölmiðlum. Sonur Sigríðar, Ólíver, hefur mátt þola langavarandi einelti í Sjálandsskóla í Garðabæ og eineltið hefur teygt sig inn í starf Stjörnunnar þar sem drengurinn, 11 ára gamall, stundaði knattspyrnu.
Sigríður hefur nú birt nýjan pistil þar sem hún biður fólk um að slaka á dómhörku. Hún segir að hana svíði í hjartað þegar hún les sumar athugasemdir í kommentakerfum um málið. Hún segist engan ásaka og ítrekar að skólastjóri Sjálandsskóla hafi lagt sig fram við að leysa málið. Hún biður fólk um að úthrópa ekki skólastjórnendur, foreldra gerenda í eineltismálum né gerendur:
„Elsku vinir við eigum að hjálpast að í baráttunni gegn einelti og standa saman.Ekki úthrópa skólastjórnendum, foreldrum gerenda í eineltismálum eða gerendum sjálfum sem eru börn.Einblínum á að uppræta einelti í samfélaginu okkar og á að finna leiðir til þess sem virka. Leiðir til að reyna að koma í veg fyrir að einelti eigi sér stað og lausnir sem virka til þess að uppræta eineltismál. Gerum þetta saman og hjálpum öllum sem koma að þessum málum. Þolendum að sjálfsögðu en líka gerendum því það vill ekkert barn meiða eða særa annað barn, hjálpum börnum að læra að gera það ekki. Þegar ég var lítil hékk alltaf innrammað plakat uppi á vegg í eldhúsinu heima þar sem stóð: Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Þessi setning er greipt í huga mér og þess vegna svíður mig í hjartað þegar ég les sumar athugasemdir í kommentakerfinu. Ég vandaði mig þegar ég skrifaði stöðuuppfærsluna á fimmtudagskvöldið því ég vildi ekki ásaka neinn enda er skólastýran góð kona og skólinn reyndi þó svo hann hafi ekki tekið nógu fast á málinu miðað við hversu alvarlegt eineltið var orðið, mitt barn var komið að þolmörkum. Auðvitað var sárt að staðan hafi verið orðin það slæm að hann hafi ekki getað hugsað sér að vera áfram í skólanum. Ég var í einlægni að segja frá birtingamynd eineltis með þá von í brjósti að það gæti, meðal annars, hjálpað einhverjum í sömu sporum, látum það vera afleiðingarnar; að knýja fram breytingar til hins betra svo við öll getum tekið betur á eineltismálum fyrir börnin okkar.Ég ætla að leyfa Marteini skógarmús að eiga lokaorðin í kvöld: ,,Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.” Þetta er ekki flókið.Ást og friðurog #fokkeinelti
„Mér er mikið hjartans mál að umræðan fari ekki á neikvætt plan,“ segir Sigríður í spjalli við DV, og ennfremur: „Kröftum okkar er miklu betur varið í að standa saman í þessu verkefni en að leita að sökudólgum.“
Fréttablaðið greinir frá því í dag að samstarf við foreldra þeirra nemenda sem hlut áttu að máli í einelti gegn Ólíver hafi verið eflt. Skólinn hafi einnig kallað til ráðgjafar sérfræðinga í eineltismálum til að styðja við nemendur og starfsfólk skólans. Fjallað var um málið á bæjarráðsfundi í Garðabæ í gær.
https://www.facebook.com/sigggae/posts/10223936413496216