Heróín er farið að ryðja sér til rúms á Íslandi í kjölfar þess að minna framboð er af lyfseðilsskyldum lyfjum, svokölluðum ópíóðum, vegna stórminnkandi flugs í kórónuveirufaraldrinum.
Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 og rætt við Elísabetu Brynjarsdóttur, verkefnastýru hjá Frú Ragnheiði, sem er skaðaminnkunarverkefni á vegum Rauða krossins.
Elísabet sagðist hafa orðið vör við aukna félagslega einangrun hjá skjólstræðingum Frú Ragnheiðar undanfarið og það gæti leitt til aukinna bakslaga hjá fólki á batavegi. Bakslög gætu leitt til ofskömmtunar sem geti valdið dauðsföllum.
Elísabet sagði að það væri mikið áhyggjuefni ef heróín sé farið að ná fótfestu hér á landi. Frú Ragnheiður hafi einblínt á ópíóðana þar sem yfirleitt sé um að ræða fastar skammtastærðir og hafi beitt skaðaminnkandi viðhaldsmeðferðum. Í heróínneyslu séu skammtastærðir óræðar sem bjóði heim hættu á dauðsföllum vegna ofskömmtunar.