Röð hafði myndast í morgun fyrir utan Hagkaup í Kringlunni og Smáralind eftir að verslunin auglýsti á samfélagsmiðlum að von væri á heitum pottum. „Í upphafi Covid fundum við fyrir miklum áhuga á margskonar afþreyingu yfir heimilin, “ segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa.
Hann nefnir þá helst mikla söluaukningu á púsluspilum, sala á garni tók mikinn kipp og reiðhjól seldust upp mun fyrr en áætlað var.“ Þegar leið á faraldurinn fór sala á heitum pottum að aukast til muna. Fór svo á endanum að þeir seldust allir upp í byrjun apríl, magn sem við höfðum gert ráð fyrir að myndi endast út sumarið.“
Það var því ákveðið að panta meira og kom fyrsta sendingin í verslanir í morgun. „Við létum vita á samfélagsmiðlum að von væri á sendingunni í búðir og þegar menn mættu til vinnu í morgun voru raðir fyrir utan verslanirnar sem fengu magnið í þessari sendingu, Hagkaup Kringlunni og Hagkaup Smáralind. Allir pottarnir seldust upp á 20 mínútum, eitthvað sem við höfum aldrei áður upplifað.“
Það eru tvær aðrar stærri sendingar sem eru á leiðinni og munum við því reyna allt sem við getum til að bregðast við þessari miklu þörf landans fyrir heita potta. Það eru breyttir tímar í kjölfar Covid,“ segir Sigurður en 30 pottar voru í fyrri sendingunni og von er á 200 í viðbót.