Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) vilja árétta að aðgengi að þjónustu samkvæmt samningum SÍ við SÁÁ er með sama hætti og verið hefur síðustu sumur. Engar lokanir eru á legudeildum á Vogi eða í lyfjameðferð við ópíóíðafíkn. Hefðbundnar sumarlokanir í 6 vikur eru á eftirmeðferðarstöðinni Vík og í göngudeildum, þó verður ákveðinni þjónustu haldið áfram óslitinni t.d. fyrir ungmennahópa. Þetta kemur fram í tilkynningu sem forstjóri SÍ sendir á fjölmiðla.
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, deilir þessari tilkynningu frá SÍ á Facebooksíðu sinni og merkir Einar Hermannson, frambjóðanda til formanns SÁÁ, í færslunni þar sem hún segir:
„Til að leiðrétta rangfærslur um SÁÁ skal tekið skýrt fram að engar lokanir eru á áætlun á sjúkrahúsinu Vogi. Sömuleiðis tel ég nú sem fyrr, að heilbrigðisstarfseminni sé áfram best borgið hjá SÁÁ, með samningum við ríkið. Mikilvægast er að tryggja faglega stjórn, framþróun og endurnýjun svo meðferðarstarf SÁÁ haldi velli, og því trausti sem til þarf.“
Mikill styr hefur staðið um starfsemi SÁÁ að undanförnu og kosið verður um nýjan formann á aðalfundi samtakanna sem fara fram á þriðjudag, 30. júní. Einar er þar í framboði gegn Þórarni Tyrfingssyni, fyrrverandi forstjóri sjúkrahússins Vogs, en einnig verður kosin ný 48 manna stjórn á fundinum.
Bæði tilkynning Sjúkratrygginga Íslands og yfirlýsing Valgerðar er í andstöðu við það sem tvær stjórnarkonur SÁÁ sögðu við mbl.is í síðustu viku, að hagræðingatillögur sem komið hefðu frá Valgerði og fælu meðal annars í sér sumarlokanir á legudeildum og deildum vegna meðferðar við ópíóðafíkn, og að þessar tillögur hennar hefðu komið illa við stjórnina.
Valgerður sagði upp störfum á Vogi í mars og bar meðal annars við langvarandi ágreiningi við sitjandi formann, Arnþór Jónsson, sem er stuðningsmaður Þórarins.
Eftir að Valgerður sagði upp steig fjöldi fólks fram og lýsti yfir stuðningi við hana og það starf sem hafði verið byggt upp. Starfsfólki misbauð og lýsti yfir vantrausti á formann og framkvæmdastjórn. Nokkru síðar ákvað Valgerður að draga uppsögnina til baka í von um að ró kæmist á spítalann.
Á dögunum sendi mikill meirihluti starfsfólks meðferðarsviðs, 57 manns, frá sér yfirlýsingu þar sem endurkomu Þórarins var mótmælt. En vegna „ótta við viðbrögð Þórarins Tyrfingssonar, sem sýnir kannski í einföldustu myndinni þá ógnarstjórn sem var við lýði þegar hann var við stjórn,“ koma einhverjir starfsmenn fram undir nafnleynd, segir í yfirlýsingunni.