Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri fyllti í skarð Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns á upplýsingafundinum sem fór fram í dag. Víðir fékk langþráð frí eftir að hafa stýrt 54 upplýsingafundum í röð. Hann mun þó mæta aftur á morgun.
Sigríður var spurð út í heimilisofbeldi á tímum COVID-19 og hvort að það hefði aukist. Hún sagði að seinustu tölur sem hún hefði séð hefði bent til 10% aukningar.
„Seinustu tölur sem ég sá um heimilisofbeldi voru frá sautjánda apríl og þar var tíu prósenta fjölgun á þeim.“
„Síðan er okkur sagt að það sé aukin harka í fíkniefnaheiminum,“
Þá sagði Sigríður að aukin harka virtist vera að færast í undirheimana. Skortur á efnum væri minni en í nágrannalöndunum, en aukin framleiðsla væri án efa hafin hér á landi.
„Við erum ekki sátt með að verð á fíkniefnum hefur verið að hækka mikið í nágrannalöndunum, á meðan það stendur nokkurn veginn í stað hjá okkur. Það bendir til þess að framboðið sé nægilegt þrátt fyrir öll þessi stóru mál sem hafa komið upp. Það er áhyggjuefni og við höfum mikið velt því fyrir okkur.“
Sigríður sagði að vegna aðstæðna væri líklega erfiðara að brjótast inn í hús og fremja rán til að fjármagna neyslu og það gæti orsakað harðari innheimtuaðgerðir.
„Auðvitað er erfiðara að brjótast inn og fjármagna neysluna núna, þannig að það getur verið þess vegna innheimtur verði harkalegri.“