Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta í gærkvöldi og er nokkur fjöldi mála sem tengist flugeldum á einn eða annan hátt í málaskrá lögreglu.
Klukkan 22:50 hafði lögregla á lögreglustöð 2, sem sinnir Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi, afskipti af manni sem gerði það að leik sínum að setja skoteld í ruslatunnu og skemma. Maðurinn var kærður fyrir eignaspjöll.
Þá segir lögregla í skeyti sínu að lögreglumenn í öllum hverfum hafi alls þurft að sinna 11 tilfellum þar sem unglingar voru að valda ónæði með því að nota flugelda skotelda á óleyfilegum tíma samkvæmt reglugerð um skotelda, en bannað er að skjóta upp flugeldum frá klukkan 22 að kvöldi til 10 daginn eftir.
Þá handtók lögregla mann um níu leytið í gærkvöldi í miðborginni vegna ölvunarástands og að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu. Vegfarendur höfðu tilkynnt manninn til lögreglu þar sem hann var að angra og valda hræðslu meðal gangandi vegfarenda í miðborginni. Hann var færður á lögreglustöð til vistunar vegna málsins sökum ölvunarástands.
Um tveimur tímum síðar, eða um 11 leytið, var maður handtekinn af lögreglumönnum í miðborginni vegna gruns um líkamsárás. Hann var færður til vistunar á lögreglustöð í þágu rannsóknar málsins.