fbpx
Laugardagur 02.júlí 2022
Fréttir

300 starfsmenn IKEA sviknir um bónusgreiðslur: „Mikill urgur og óánægja í starfsmönnum“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 5. júlí 2019 10:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjá mörgum fyrirtækjum þekkist það að greiða starfsfólki bónusa af ýmsu tagi, til dæmis fyrir mætingu, fyrir góðan árangur í starfi, þegar fyrirtækið nær ákveðnum markmiðum og annað slíkt.

IKEA hefur í nokkur ár greitt starfsmönnum sínum bónus fyrir mætingu, svokallaðan viðverubónus. Greiðslan er ekki skyldugreiðsla samkvæmt kjara- og/eða ráðningarsamningum heldur einfaldlega úrræði sem yfirmenn IKEA gripu til á sínum tíma til að hvetja starfsfólk sitt til að mæta oftar í vinnu og koma í veg fyrir miklar fjarvistir starfsmanna vegna veikinda.

Heimildarmaður DV sem er starfsmaður hjá IKEA segir að bónusinn hafi fyrst í stað verið greiddur út einu sinni á ári, en seinna hafi því verið breytt og hann greiddur út tvisvar á ári, um mánaðamót júní/júlí með launum fyrir júnímánuð og um mánaðamót desember/janúar með launum fyrir desember. Heimildarmaður DV vill ekki koma fram undir fullu nafni þar sem hann óttast um starfsöryggi sitt hjá IKEA og segir orðrétt „þeir sem hafa verið með eitthvað múður, hafa yfirleitt verið látnir fara“, við skulum því kalla hann Jón hér eftir.

„Síðustu áramót var bónusinn greiddur og því gerðu starfsmenn ráð fyrir að fá hann einnig greiddan núna,“ segir Jón, en þegar launin fyrir júnímánuð voru greidd föstudaginn 28. júní kom í ljós að bónusinn fylgdi ekki með.

„Ég spurði yfirmann minn hvort hann vissi eitthvað um þetta og hann vissi ekkert meira en ég,“ segir Jón, sem unnið hefur hjá IKEA í nokkur ár og segir hann mikinn urg og óánægju vera hjá starfsmönnum vegna málsins. „Þetta var eina málið sem var rætt hér í kaffi- og matartímum á mánudaginn.“

Allir starfsmenn IKEA hafa fengið bónusinn greiddan, hvort sem þeir eru í fullu starfi eða hlutastarfi, en Jón segir um 300 manns vinna í heild hjá fyrirtækinu. „Þeir sem eru hér í hlutastarfi, hafa fengið hann greiddan í samræmi við starfshlutfall,“ segir Jón. Jón bætir við að yfirmenn IKEA hafi verið mjög stoltir af því þegar viðverubónusinn byrjaði og framtakið hafi einnig vakið athygli hjá VR.

Flestir starfsmenn IKEA eru í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, en nokkrir í Eflingu. Í samtali blaðamanns við VR hefur ekkert svona mál komið inn á þeirra borð. „Það er svolítið erfitt að svara fyrir svona mál, við höfum fengið mál inn á okkar borð sem snúa að mætingabónusum, en það þarf bara að skoða hvert mál fyrir sig, ráðningarsamninga og slíkt,“ segir Stefán Sveinbjörnsson.

„Almennt séð er svigrúm þegar um mætingabónus er að ræða og sérstaklega þegar hann á að ná til langs tíma,“ segir Stefán og ítrekar að skoða þurfi hvert mál fyrir sig.

Starfsmenn mæta veikir til að ná viðverubónus

Bónusinn er um 100.000 kr. tvisvar á ári og er tekinn af fjárhæðinni skattur og önnur gjöld, engu að síður er um að ræða upphæð sem starfsmenn hafa lagt allt kapp á að fá greidda. „Fólk er farið að gera ráð fyrir að fá þennan bónus greiddan, eðlilega, og hefur gert allt til að svo verði. Hafa þeir til dæmis mætt í vinnu slappir, komið veikum börnum sínum fyrir hjá ættingjum eða vinum og nýtt fremur sumarfrísdaga sína til þess að rýra ekki bónusinn. Komi hins vegar til veikinda hjá starfsmanni eða barni hans og hann hefur þurft að nýta veikindadaga fer bónusinn stiglækkandi, og hverfur alveg ef starfsmaðurinn er frá í fimm daga. Þetta var enn erfiðara þegar bónusinn var greiddur bara einu sinni á ári, þá mátti maður ekki vera frá í einn dag veikur, þá byrjaði hann strax að lækka,“ segir Jón.

Rétt er að minna hér á að samkvæmt kjarasamningi VR á starfsmaður eftir sex mánaða starf rétt á 12 dögum vegna veikinda barna undir 13 ára aldri, og heldur starfsmaður launum auk vakta- og yfirvinnuálags. En starfsmenn hjá IKEA hafa ekki haldið viðverubónusnum ef þeir eru frá vegna eigin veikinda og/eða veikinda barna sinna.

„Alltaf ljóst að bónusinn væri endurskoðaður árlega“

„Bónusinn var endurskoðaður um áramótin og ákveðið að hætta að greiða hann út,“ segir Guðný Camilla Aradóttir fjölmiðlafulltrúi IKEA.

„Eftir á að hyggja hefði kannski verið betra að hafa þetta skýrara, það vissu allir deildarstjórar af þessu, en kannski komst það ekki til skila til allra starfsmanna, en það fylgdi alltaf sögunni að bónusinn yrði endurskoðaður árlega. Framkvæmdastjóri var með fund í janúar þar sem hann útskýrði hvernig þetta yrði næst.“

Var þetta þá bara útskýrt fyrir deildarstjórunum? „Já væntanlega, en ef það er eitthvað í þessu sem hefði mátt gera betur þá hefði það verið að tryggja það betur að allir fengju að vita þetta. Það hefði kannski verið hægt að vinna það betur.

Bónusinn byrjaði árið 2012 vegna þess að veikindi höfðu aukist mjög og voru óútskýranlega mikil eins og gerist og gengur hjá fyrirtækjum og í þessum bransa. Þetta var leið til að prófa hvort þetta myndi koma í veg fyrir þessar óútskýrðu fjarvistir. Að sjálfsögðu er fólk þegar það er veikt, en þetta var meira en það. Þetta virkaði vel í svona 3 ár, svo fór þetta að verða aftur eins og var og svo var þetta bara alveg hætt að virka, sem er ástæðan fyrir að það var ákveðið að hætta þessu.

Bónusinn er hinsvegar endurskoðaður árlega og ekkert búið að ræða framhaldið. Hann kom sér mjög vel fyrir þá sem gátu nýtt sér þetta.“

Fórnir í hálft ár til einskis

Jón segir að mesta reiðin hjá starfsmönnum liggi ekki í því að bónusinn hafi ekki verið greiddur heldur hvernig yfirmenn IKEA stóðu að málinu. „Þeir hefðu alveg getað greitt hann síðustu áramót og tilkynnt þá að þetta væri í síðasta sinn sem hann væri greiddur,“ segir Jón, sem sjálfur hefur starfað hjá fyrirtækinu í nokkurn tíma og því fengið bónusinn greiddan nokkrum sinnum. „Allir þeir starfsmenn sem hafa mætt slappir til vinnu, nýtt sumarfrísdaga sína og komið veikum börnum sínum fyrir hjá ættingjum eða vinum til þess að geta mætt í vinnu síðastliðna sex mánuði færðu því fórnir til einskis.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lögmaður föður drengsins sem var fjarlægður af Barnaspítalanum – „Þeir feðgar glaðir að fá að verja loks tíma saman“

Lögmaður föður drengsins sem var fjarlægður af Barnaspítalanum – „Þeir feðgar glaðir að fá að verja loks tíma saman“
Fréttir
Í gær

Húsfélagsformaður óttast um milljónir eftir pöntun hjá Gluggasmiðjunni – Sölumanni sagt að mæta ekki í vinnuna

Húsfélagsformaður óttast um milljónir eftir pöntun hjá Gluggasmiðjunni – Sölumanni sagt að mæta ekki í vinnuna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skóflustunga tekin að nýjum leikskóla í Vogabyggð – Einar Þorsteins settist í gröfuna

Skóflustunga tekin að nýjum leikskóla í Vogabyggð – Einar Þorsteins settist í gröfuna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Heimkaup hefur sölu á áfengi

Heimkaup hefur sölu á áfengi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Aðalheiður vekur athygli á djammvanda sem blasir við Íslendingum

Aðalheiður vekur athygli á djammvanda sem blasir við Íslendingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Telur að íbúðir hljóti að lækka í raunverði á næstu árum

Telur að íbúðir hljóti að lækka í raunverði á næstu árum