fbpx
Þriðjudagur 31.mars 2020
Fréttir

Ingu Sæland brugðið: Fjölskyldu Pjeturs sundrað – „Vekur með manni hálfgerðan óhug“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 21. maí 2019 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Er það ekki í okkar höndum að reyna að koma í veg fyrir og girða fyrir að svona lagað geti átt sér stað,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólks, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær.

Inga ræddi þar forsíðumfjöllun DV um mál Pjeturs og Mayeth Guðmundsson sem hafa verið gift í ellefu ár og eiga saman tíu ára dóttur. Pjetur er íslenskur ríkisborgari en Mayeth frá Filippseyjum.

Ekki hægt að sýna fram á nægar tekjur

Fjölskyldan hefur búið saman í Kópavoginum síðan í fyrra en þann 6. maí ákváðu starfsmenn Útlendingastofnunar að synja Mayeth um dvalarleyfi og vísa úr landi vegna þess að ekki var hægt að sýna fram á nægar tekjur heimilisins. Ekki er hægt að vísa Pjetri og dótturinni úr landi en Mayeth var gert að yfirgefa landið innan 15 daga, ellegar verði það gert með valdi.

Hjónin bjuggu saman erlendis en í fyrrasumar ákváðu þau að flytja öll til Íslands. Þann 27. ágúst lagði Mayeth inn umsókn um dvalarleyfi til Útlendingastofnunar, sem maki Íslendings. Pjetur sagði í viðtali við DV að öllum nauðsynlegum pappírum hafi verið skilað inn, þar á meðal staðgreiðsluyfirliti yfir tekjur ársins. Um haustið hóf dóttirin skólagöngu í Kópavogi.

„Hún vildi auðvitað geta fengið sér vinnu og að við gætum lifað eðlilegu heimilishaldi eins og flestir aðrir. En hún fær ekki kennitölu nema hún sé komin með dvalarleyfi. Við erum hamingjusamlega gift. Við byggðum heimili á Filippseyjum en við viljum búa hérna og að dóttir okkar fái tækifæri til að læra íslensku og kynnast rótum sínum hérna. Ég þekki fólk sem hefur gengið í hentugleikahjónaband. En við erum ekki að því. Núna er henni gert að yfirgefa landið, annars verður hún þvinguð burt. Þá má hún ekki koma aftur í minnst tvö ár.“

Fékk heilahimnubólgu

Pjetur starfaði í yfir þrjá áratugi á sjónum en fyrir fjórum árum varð hann öryrki, um það leyti sem hann sjálfur flutti til Íslands. Hann fékk heilahimnubólgu og síðan sýkingu sem krafðist þess að skera varð upp í heila og fjarlægja æðagúlp. Hefur hann reglulega fengið mikil höfuðverkjaköst síðan. Hann fær þó aðeins hálfar bætur frá Tryggingastofnun, rúmlega 157 þúsund krónur á mánuði. Mayeth og dóttirin hafa allan hjónabandstímann búið á Filippseyjum og Pjetur reglulega flogið þangað.

„Þeir segja að þetta sé ekki nóg fyrir okkur til að framfleyta okkur, en ég hef nú geta lifað af þessu. Við erum í ódýru húsnæði og við græjum okkur. Það er líka nýfallinn dómur erlendis sem mun hafa áhrif hér um bætur fólks á milli landa og ég á að fá 100 prósent bætur á næsta ári, segja þeir hjá Tryggingastofnun. Verður þá öllum greitt samtímis og afturvirkt. Konan mín vill líka vinna og vill hafa möguleikann til að ferðast á milli Íslands og Filippseyja. Við eigum gott heimili þar líka.“

Pjetur segir að formsframkvæmd Útlendingastofnunar hafi verið með nokkrum ólíkindum. Fyrir það fyrsta þá hafi úrskurðurinn tekið átta mánuði og fjölskyldan lifað í óvissu allan þann tíma. Þá hafi Mayeth sent inn umsóknina á ensku, þar sem hún talar ekki íslensku, en ákvörðunin var send til hennar á íslensku. Þar sem Pjetur hafi ekki formlega verið skráður sem umboðsmaður þá hafi hann ekki mátt sjá neina pappíra, en vitaskuld lásu þau bréfið saman.

„Þær voru báðar grátandi þegar komið var með bréfið í ábyrgðarpósti klukkan tíu í gærkvöldi, og gátu ekkert sofið um nóttina. Ég og dóttir okkar erum náin en hún er meira háð móður sinni. Þessi úrskurður þýðir að hún mun í reynd þurfa að hætta í skólanum hérna og fara með.“

Forsíða DV síðastliðinn föstudag.

Hreinn og klár ómöguleiki í boði

Inga Sæland bendi fyrirspurn sinni á þingi í gær til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem hún spurði hvort það væri ekki hlutverk Alþingis að koma í veg fyrir að atvik eins og þetta geti átt sér stað.

„Staðan er sú samkvæmt þessari frétt að Pétur er sjúklingur. Hann getur ekki unnið fyrir heimilinu. Konan sækir um dvalarleyfi á Íslandi — hugsið ykkur, eiginkona hans til 11 ára. Dóttirin fer í skóla í haust, en mæðgunum er synjað um dvalarleyfi á þeim forsendum að fjölskyldan geti ekki sýnt fram á að hún geti séð fyrir sér. Þau sýni ekki nógu mikla innkomu til að geta séð fyrir fjölskyldunni þannig að konan er send úr landi,“ sagði Inga og bætti við:

„Fram kemur að konan getur ekki unnið fyrir fjölskyldunni vegna þess að hún kemst ekki út á vinnumarkaðinn af því að það eru svo háir þröskuldar. Hún fær ekki leyfi til þess að reyna að sýna fram á að hún geti framfleytt fjölskyldunni. Síðan er henni meinað að vera hér og hún er send úr landi á þeim forsendum að hún geti ekki unnið fyrir fjölskyldunni. Er ekki eitthvað að kerfi sem gerir það ómögulegt? Það er bara hreinn og klár ómöguleiki í boði, þannig að þau geta ekki einu sinni unnið fyrir sér þótt þau vildu. Konan getur ekki unnið fyrir fjölskyldunni þótt hún vilji. Þarna erum við stödd.“

Við höfum líka mannúð og í þessu tilviki, þegar við erum að tala um svona mál að við erum að fara að sundra fjölskyldu og við erum að senda móðurina úr landi. Ég spyr: Er ekki eitthvað að svona kerfi, hæstv. forsætisráðherra? Og er það ekki í okkar höndum að reyna að koma í veg fyrir og girða fyrir að svona lagað geti átt sér stað?

Tímabært að farið sé yfir þessi mál

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist ekki þekkja til þessa tiltekna máls en sagði að ætlunin hafi verið að nefnd þingmanna allra flokka fari yfir framkvæmd útlendingalaga sem samþykkt voru á Alþingi á sínum tíma.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Mynd: DV/Hanna

„Mér er ekki nákvæmlega kunnugt um störf þessarar þingmannanefndar. En ég tel fyllstu ástæðu til þess og raunar tímabært að hún fari yfir þessi mál sem hafa verið að koma upp, ýmist farið í fjölmiðla eða ekki, þar sem við teljum að það þurfi að skoða málsatvik betur. Það er auðvitað mikilvægt að framkvæmd laganna sé með þeim hætti sem þingið ætlaði sér og vissulega er það svo, eins og hv. þm. Inga Sæland nefnir, að mannúðarsjónarmið eiga þar að vera leiðarljós. Ég get ekki tjáð mig um þetta einstaka mál en það er mikilvægt að þingið skoði hvernig það telur til hafa tekist með framkvæmd laganna.“

Tekur þetta nærri sér

Inga steig aftur í pontu og sagðist ekki þekkja málið að öðru leyti en því sem kemur fram í fjölmiðlum.

„Ég veit ekkert meira en það sem maður þarf að lesa og það vekur með manni hálfgerðan óhug. Maður tekur það nærri sér að við skulum búa við það kerfi að þrátt fyrir að einstaklingar séu virkilega tilbúnir að leggja sig fram gangi hlutirnir ekki upp. Heimilisfaðirinn getur ekki unnið af því að hann er sjúklingur, konan vill vinna en í raun á að senda hana úr landi vegna þess að við — og okkur er í lófa lagið að breyta þessum reglum — komum í veg fyrir það með regluverkinu.

Það er það sem ég er að spyrja um. Ókei, frábær nefndin og allt það. Við vonum að hún skili sem bestum niðurstöðum en á meðan koma upp svona jaðartilvik sem okkur er í lófa lagið að girða fyrir. Það er það sem mig langaði til að fá fram hjá hæstv. forsætisráðherra, hvort það sé ekki í okkar valdi hér og nú, eitthvað sem við getum virkilega gert, að koma í veg fyrir að við þurfum að lesa svona sorglegar fréttir eins og mér þótti þessi frétt vera.“

Mál Pjeturs og Mayeth er ekki það fyrsta sinnar tegundar sem kemur upp á Íslandi. Árið 2010 var fjallað um sambærilegt mál í DV. Átti þá að sundra fjölskyldu á Bolungarvík í sundur vegna ónógra launa en eiginkonan í því tilviki, Thais de Freitas, var frá Brasilíu. Eiginmaðurinn, Valur Magnússon, gat ekki sýnt fram á nægar tekjur en hann vann í fiski og lítill afli hafði veiðst á miðunum þetta árið. Áttu þau saman tvö ung börn á þeim tíma. Eftir umfjöllunina fór svo að fjölskyldan mátti búa saman hér á landi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Börnin tekin af föðurnum – Drykkjuskapur og sóðalegt húsnæði meðal ástæðna

Börnin tekin af föðurnum – Drykkjuskapur og sóðalegt húsnæði meðal ástæðna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Faraldurinn mun koma verst niður á Afríku

Faraldurinn mun koma verst niður á Afríku
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mun faraldrinum ljúka fyrr en við héldum?

Mun faraldrinum ljúka fyrr en við héldum?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslensk áróðurssíða fær á baukinn fyrir innlegg um COVID-veiruna – „Setja allt á hausinn sem þeir koma nálægt“

Íslensk áróðurssíða fær á baukinn fyrir innlegg um COVID-veiruna – „Setja allt á hausinn sem þeir koma nálægt“