Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Segir blaðið að Hreggviði sé gefið að sök að hafa eyðilegt girðingarstaura og ídráttarrör fyrir raflagnir í eigu nágranna sinna. Honum er einnig gefið að sök að hafa ítrekað hamlað för nágranna sinna, hjóna, um vegslóða með því að strengja vír yfir veginn. Auk þess er hann sakaður um að hafa hunsað fyrirmæli lögreglu um að stöðva akstur bifreiðar.
Málið tengist harðvítugum nágrannaerjum Hreggviðs annars vegar og Ragnars Vals Björgvinssonar og Fríðar Sólveigar Hannesdóttur hins vegar. Deilurnar hafa nú staðið yfir í tæplega fimmtán ár.
Héraðsdómur telur að tengsl tveggja starfsmanna embættis Lögreglustjórans á Suðurlandi valdi því að draga megi óhlutdrægni í efa. Tveimur af þremur starfsmönnum á ákærusviði embættisins eru tengdir hjónunum. Dóttir Fríðar er löglærður fulltrúi á sviðinu og vinnufélagi hennar tók að sér verkefni tengdu deilunum fyrir Ragnar er hann starfaði sjálfstætt.
Embætti Lögreglustjórans á Suðurlandi hefur áfrýjað málinu til Landsréttar en héraðsdómur vísaði því frá.
Fréttablaðið segir að Einar Gautur Steingrímsson, verjandi Hreggviðs, beri embætti Lögreglustjórans á Suðurlandi þungum sökum í greinargerð til Landsréttar. Hann segi að Hreggviður hafi verið lagður í einelti af lögreglunni vegna fyrrgreindra tengsla árum saman. Hann segi einnig að áhugi embættisins á Hreggviði jaðri við þráhyggju. Hann óskaði eftir yfirliti yfir öll atviki tengd Hreggviði hjá lögreglustjóraembættinu en fékk engin gögn. Fyrir héraðsdómi kom fram að skýringin á því væri að þessar skráningar fylltu mörg þúsund blaðsíður.
Einar Gautur segir lögregluna einnig hafa beitt Hreggvið ónauðsynlegu valdi. Hann hafi til dæmis verið handjárnaður á heimili sínu eftir að nágrannar hans kvörtuðu undan honum. Einar segir að Hreggviður sé að bugast vegna eineltis lögreglu og nágranna.