

Tuttugu starfsmönnum Íslandsbanka hefur verið sagt upp störfum og dreifast uppsagnirnar jafnt á milli deilda bankans. Þetta staðfestir Edda Hermannsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, við vef Morgunblaðsins.
Alls hætta tuttugu og sex starfsmenn hjá bankanum í þessum mánuði, en sex þeirra sem hætta eru á leið á eftirlaun. Edda segir að flestir þeirra sem hætta starfi í höfuðstöðvum bankans.
„Þetta eru almennar hagræðingaraðgerðir til þess að draga úr kostnaði,“ segir Edda við Morgunblaðið og bætir við að bankinn sé alltaf að leita leiða til að draga úr kostnaði og hagræða.
Eins og DV greindi frá í morgun missa hundrað manns vinnuna hjá Arion banka. 80 prósent þeirra starfa í höfuðstöðvum bankans og um 20 prósent í útibúum hans. Stjórn Arion banka samþykkti á fundi sínum í morgun nýtt skipulag bankans sem tekur gildi í dag. Samkvæmt tilkynningu frá bankanum mun starfsfólki bankans fækka um 12 prósent, eða um 100 manns eins og að framan greinir.