fbpx
Sunnudagur 14.september 2025
Fréttir

Sigrún er að springa úr reiði og sorg – „En hvað verður nú um mömmu?“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 31. júlí 2019 10:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigrún Jónsdóttir, fyrrverandi söngkona, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu að það það sé Íslandi til skammar hvernig farið sé með eldri borgara hér á landi. Hún segir það einfaldlega skammarlegt hvernig farið sé með gamla fólkið.

„„Búum öldruðum hyggjulaust ævikvöld.“ Hljómar fallega og ég sé fyrir mér vel búið dvalar- og/eða hjúkrunarheimili, þar sem aldraðir geta notið sín eftir mætti og haldið reisn sinni síðustu árin. Það er flestum ljóst sem upplifa að eiga háaldraða foreldra sem eru slitin, veikburða, komin í hjólastól, því fæturnir bera þau ekki lengur, komin með heilabilun og ófær um að hugsa um sig sjálf, að það sem bíður þeirra er ekki eftirsóknarvert. Það er, ef djúpt er hugsað, hörmulegt og svo skammarlegt að ég hreinlega á ekki til aukatekið orð. Eftir að hafa fylgst með umræðu um stöðu öldrunarþjónustu og þá kosti sem í boði eru fyrir aldraða þegar halla fer undan fæti heilsufarslega fær maður kalda gusu í andlitið,“ segir Sigrún.

Þyngra en tárum taki

Hún segir að farið sé illa með kynslóðina sem fæddist upp úr aldamótum 1900. „Það að upplifa á eigin skinni eða á foreldrum sínum er þyngra en tárum taki. Að sjá og heyra að það sem verið hefur til umræðu um þessi mál er dagsatt, það fékk ég að upplifa í dag. Fólkið sem byggði upp landið okkar Ísland, fólkið sem fæddist upp úr aldamótunum 1900 og fram eftir öldinni og þau sem fæddust fyrir seinna stríð. Þau sem enn lifa af kynslóðinni sem fæddist upp úr 1930, og eiga við heilsubrest að stríða, þeim er ekki gert hátt undir höfði þegar kemur að því að þau þurfa að komast á hjúkrunarheimili. Nei aldeilis ekki! Mamma vill komast á hjúkrunarheimili því hún treystir sér ekki til að vera heima lengur,“ segir Sigrún.

Hún segir hafa verið við það að springa úr reiði þegar hún lauk fjölskyldufundi með öldrunarteymi. „Hún getur ekki séð um sig sjálf og er komin með heilabilun. Til að komast inn á áðurnefnt heimili þarf að vera helst alveg ósjálfbjarga líkamlega og andlega, þ.e. heilabilaður eða annað hvort. Ég var að springa úr reiði og sorg þegar fjölskyldufundinum með foreldrum mínum og öldrunarteymi því sem sér um mál mömmu lauk. Allar upplýsingar um stöðu mála voru greinargóðar og faglegar en alveg skýrt að hún ætti nánast enga von um að komast inn á hjúkrunarheimili á næstunni. Það væri hægt að sækja um færni- og heilsumat en hún fengi örugglega neitun um vist á þar til gerðri stofnun,“ lýsir Sigrún.

Með heilasjúkdóm

Hún segir að sér hafi verið sagt að faðir hennar gæti enn séð um móður hennar. „Ástæðan meðal annars: Jú, pabbi, sem er að verða níræður, hann keyrir enn þá, sækir björg í bú og hefur séð um mömmu síðustu tvö árin, af veikum mætti en eljusemi. Hann er sjálfur orðinn slitinn, máttfarinn, dettinn, farinn að gleyma og ekki í stakk búinn líkamlega til að sinna svo mikilli umönnun og hvað þá að vera rígbundinn, því hún mamma getur ekki verið ein. Hún fær böðun einu sinni í viku, sendan mat heim daglega, sjúkraþjálfun heim vikulega og þrif tvisvar í mánuði að ógleymdum öryggishnappinum. Pabbi er sem sé of sjálfbjarga og á bara að redda þessu!,“ segir Sigrún.

Sigrún bendir á að móðir hennar sé haldin langvinnum heilasjúkdómi. „Þar sem mamma kemst ekki lengur hjálparlaust á salernið og þarf þangað tvisvar til þrisvar á nóttu, þá má leysa það vandamál með því að skella á hana bleyju yfir nóttina. Það er ekki ofsögum sagt að tvisvar verður gamall maður barn. Ég, sem haldin er langvinnum heilasjúkdómi, PD, kem til þeirra daglega og þá þarf ekki að splæsa á þau innliti kvölds og morgna. Málið leyst, eða?,“ spyr Sigrún.

Hún segir að stjórnvöld hafi brugðist. „Nefnd sem velur úr þá sem fá inni á hjúkrunarheimilum reiknar út hvernig sá einstaklingur, sem um vistunina sækir, skorar á færni- og heilsumatinu. Það er því að mínum skilningi reikningsdæmi sem sker úr um hversu hjálparþurfi hún er. Það hefur verið vitað mál síðasta áratuginn hið minnsta að það hefur fjölgað mikið í hópi aldraðra. Við lifum lengur, sem þakka má læknavísindunum, og á meðan fækkar í hópi þeirra yngri því barneignum hefur fækkað. Hvers vegna hefur stjórnvöldum láðst að bregðast við þessum breytingum í tíma?,“ segir Sigrún.

Hvað verður um hana?

Hún spyr hvað verði nú eiginlega um móður hennar. „Að undirbúa það sem koma skal með forsjálni þannig að næg pláss séu fyrir hendi þegar á þarf að halda. Mönnuð starfsfólki sem væri launað á mannsæmandi hátt svo eftirsókn væri eftir þeim störfum sem til falla á stofnunum fyrir aldraða. En hvað verður nú um mömmu? Verður hún útskrifuð og send heim þar sem ástandið verður alltof erfitt fyrir hana og ekki síður pabba sem reynir að gera sitt besta þar til hann getur ekki meira?,“ spyr Sigrún.

Hún segir að þetta skerði verulega lífgæði föður hennar. „Hans lífsgæði verða verulega skert og hann gæti þurft á þjónustu að halda eins og mamma, ekki er það ódýr lausn. Verður mamma sett í biðvistun á einhverri þeirra þriggja stofnana sem eru í boði, á Vífilsstöðum, Akranesi eða Borgarnesi? Fær hún inni á hjúkrunarheimili í sinni heimabyggð og á möguleika á ævikvöldi með þokkalegri reisn? Ég held að svarið verði nei. Sú lausn er ekki í boði, því mamma er ekki nægilega ósjálfbjarga, hún hefur pabba sem er að verða níræður og hann reddar þessu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Forstjóri Play boðaði til starfsmannafundar

Forstjóri Play boðaði til starfsmannafundar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nígeríska brúðurin greinir frá því hvers vegna hjónin völdu Ísland – „Ísland við elskum þig svo mikið“

Nígeríska brúðurin greinir frá því hvers vegna hjónin völdu Ísland – „Ísland við elskum þig svo mikið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Norðurlandamót unglinga í kraftlyftingum haldið hér á landi um helgina

Norðurlandamót unglinga í kraftlyftingum haldið hér á landi um helgina
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kemur Quang Le til varnar – Útskúfun úr samfélaginu að hafa ekki aðgang að bankareikningi

Kemur Quang Le til varnar – Útskúfun úr samfélaginu að hafa ekki aðgang að bankareikningi