Baldvin Tryggvason, fyrrverandi sparisjóðsstjóri SPRON, er látinn. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ þann 29. Júlí. Morgunblaðið greinir frá andláti hans.
Baldvin var fæddur þann 12. febrúar 1926 í Ólafsfirði. Á ævi sinni gegndi hann mörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var til að mynda frá 1956 til 1960 framkvæmdastjóri fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.
Hann var forstjóri Almenna bókafélagsins 1960 til 1976 þegar hann var ráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Þeim starfa gegndi hann til 1996.
Líkt og fyrr segir var Baldvin virkur innan Sjálfstæðisflokksins. Hann var formaður Garðars í Ólafsfirði 1942-1948, í stjórn SUS 1949-1951 og 1957-1959, í stjórn Heimdallar 1956-1957 og formaður 1958- 1959.
Hann var formaður skipulagsnefndar Sjálfstæðisflokksins 1970- 1977 og í miðstjórn flokksins á sama tíma. Hann var varaborgarfulltrúi flokksins í Reykjavík 1962-1966 og 1970-1974.