Brynja hússjóður Öryrkjabandalags Íslands hefur lokað fyrir nýjar umsóknir. Þetta kemur fram á vefsíðu þeirra.
Ástæðan er sögð gríðarleg fjölgun umsókna. 600 manns séu á biðlista og útilokað að nýjar umsóknir geti komist til afgreiðslu á næstu árum. Hússjóðurinn segist harma þessa stöðu og væntir þess að stjórnvöld bregðist við aðstæðum.
„Nú er svo komið að 600 umsækjendur eru á biðlista eftir leiguíbúðum og útilokað að nýjar umsóknir gætu komið til afgreiðslu á næstu árum. Með móttöku nýrra umsókna væri einungis verið að viðhalda óraunhæfum væntingum og beina athygli frá því neyðarástandi sem uppi er í húsnæðismálum öryrkja. Stjórn BRYNJU Hússjóðs þykir miður hvernig komið er og væntir þess að stjórnvöld bregðist við af þeirri ábyrgð sem þeim ber.“