Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Blaðið hefur eftir háttsettum lögreglumanni, sem vann að rannsókn þjófnaðanna úr gagnaverunum síðasta vetur, að ekki sé hægt að útiloka að þjófarnir hafi beðið eftir að lögreglumaðurinn lyki vakt sinni áður en þeir létu til skara skríða. Innbrotin hafi verið vel skipulögð og umfangsmikil. Þetta innbrot tengist öðrum innbrotum í hinu stóra gagnaversmáli þar sem um 600 tölvum, sem eru notaðar til að grafa eftir Bitcoin rafmynt, var stolið en verðmæti þýfisins hleypur á hundruðum milljóna króna.
Ekki er hægt að segja til um hvort það hefði breytt einhverju ef lögreglumaður hefði verið á vakt þessa nótt en málið sýnir í hnotskurn þann vanda sem lögreglumenn hafa lengi bent á, fjársvelti lögreglunnar. Það gerir að þeirra sögn það að verkum að ekki er hægt að manna stöður og halda úti löggæslu eins og vera ber.
Fréttablaðið hefur eftir Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra á Vesturlandi, að hann hafi ekki fjármagn til að halda úti sólarhringsvakt í Borgarnesi og því sé bakvaktarfyrirkomulag þar á nóttinni. Á Akranesi er sólarhringsvakt. Í þessu stóra umdæmi sem mikil umferð er um allt árið er aðeins einn lögreglumaður á vakt í Borgarnesi frá klukkan 7 til 14 og tveir eru á vakt á Akranesi á sama tíma. Það þarf því ekki mikið út af að bera til að lögreglan geti ekki sinnt útköllum.
Úlfar sagði að ekkert bruðl væri innan lögreglunnar en reksturinn sé dýr og ófyrirsjáanlegur.
„Það kostar að hafa hlutina í lagi.“
Hefur Fréttablaðið eftir honum.