Skemmdarverk voru unnin við sjóböðin á Hauganesi í vikunni þegar óprúttinn aðili braut upp peningakassa á staðnum og stal þaðan peningum. Elvar Reykjalín staðarhaldari greinir frá þessu á Facebook og biðlar til skemmdarvargsins að gefa sig fram. Hann segist í samtali við DV vilja leysa málið í vinsemd og án allra eftirmála. Norðlenski fréttavefurinn Kaffið.is fjallaði fyrst um málið.
Á Hauganesi hafa verið settir upp þrír heitir pottar. Enginn starfsmaður er við staðinn en þess í stað er gestum bent á að borga 500 krónur í peningakassa sem staðsettur er við pottana. Það var sá kassi sem þjófurinn náði að opna. Í opnu bréfi sem Elvar birti á Facebook í gær biðlar hann til þjófsins að hafa samband.
„Vissir þú að það kostaði okkur mikinn pening og mikla vinnu að gera þessa aðstöðu sem svo margir hafa notið og glaðst í. Það tekur mörg ár að borga hana upp með þeim litla peningi sem safnast í heiðarlega samskota kassann sem þú braust upp. Örugglega hefur þú orðið fyrir vonbrigðum því aldrei sjást nú stórar fjárhæðir í kassanum. Það er ekki fallegt að stela og skemma og kannski ertu með smá samviskubit út af þessu því þú hefur örugglega gert þetta í einhverri fljótfærni,“ skrifar Elvar.
Í samtali við DV segist Elvar alls ekki bera neinn kala til þess aðila sem skemmdi kassann. „Mér sárnaði bara aðeins en ég bíð með opinn faðminn. Þetta er búið að ganga svo vel og það hefur ekkert komið uppá frá því að við fórum í þetta verkefni.,“ segir hann.
Elvar á og rekur veitingastaðinn Baccalá Bar á Hauganesi og vill að það komi skýrt fram að hann vill leysa málið á sem bestan hátt. „Ég býð honum í mat hjá mér á Baccalo ef hann hefur samband við mig,“ segir Elvar að lokum.