Atli Már Gylfason blaðamaður hafði betur í meiðyrðamáli Guðmundar Spartakus Ómarssonar. Guðmundur Spartakus fór fram á 10 milljónir í skaðabætur vegna umfjöllunar Atla þar sem hann tengdi Guðmund Spartakus við hvarf Friðriks Kristjánssonar í Suður-Ameríku árið 2013. Guðmundur Spartakus var dæmdur til að greiða Atla Má 600.000 krónur í málskostnað.
Í samtali við DV segist Atli Már mjög sáttur með að hafa sigrað málið. „Þetta er að sjálfsögðu mikill léttir en ég fór inn í dómsalinn í dag bæði jákvæður og bjartsýnn enda með öflugan lögmann sem hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar varið okkur fjölmiðlamenn gegn svona árásum á tjáningarfrelsið. Við skulum samt ekki gleyma tveim hlutum. Friðrik er ennþá týndur og þótt ég hafi unnið orrustuna þá vann Guðmundur Spartakus stríðið þegar hann fékk greiddar 2.5 milljónir frá RÚV. Sú upphæð hefur hann nú getað notað í áframhaldandi málarekstur gegn okkur hinum, litlu miðlunum. En ég er sáttur og ég veit að fyrrum vinnuveitandi minn, Stundin, er líka sátt. Sannleikurinn og réttlætið sigraði í dag!,“ segir Atli Már.