„Ég skil reiðina. Ég skil að fólk hafi verið reitt út í okkur líka. Ég hef sagt að þetta sé tímabil sem mikilvægt er að læra af. Þjóðin þurfti að fara í gegnum uppgjör. Rannsóknarskýrslan var hluti af því. Auðvitað fór maður sjálfur í persónulegt uppgjör. Ég hef skilið þennan kafla í mínu lífi eftir í fortíðinni. Ég hef reynt að líta á þessa reynslu sem þroskandi fyrir okkur öll.”
Sjá einnig: Þarf ekki alltaf að fara í manninn
Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður er í viðtali við Fréttablaðið og tjáir sig þar um hrunið og rifjar upp þegar mótmælt var fyrir utan hús hennar og hvernig það tók verulega á fjölskylduna að mótmælendur skyldu taka sér stöðu fyrir utan heimili þeirra hjóna. Kristján Arason eiginmaður Þorgerðar starfaði á þeim tíma sem framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Kaupþings. Í frétt DV frá árinu 2011 var greint frá því að Kristján og Þorgerður myndu sleppa við að greiða rúmlega 1.900 milljóna skuld við bankann. Ástæðan fyrir því var að Kristján færði hlutabréfin í Kaupþingi og skuldir vegna þeirra inn í einkahlutafélagið 7. hægri ehf í febrúar 2008 um átta mánuðum fyrir fall Kaupþings. Í frétt DV sagði að félag Kristjáns hefði verið úrskurðað gjaldþrota og skilið eftir sig rúmlega 2 milljarða skuld.
Mikill hiti var í samfélaginu á þessum tíma. Þá komu hjónin fyrir í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þorgerður tjáði sig við Ríkisútvarpið og sagði meðal annars:
„Ég undirstrika það að þetta eru ekki mínar skuldir og menn verða að láta menn bera ábyrgð á því sem þeir bera ábyrgð á. Ég var í ríkisstjórn á þessum tíma og ber ákveðna ábyrgð líka. […] Ég skal axla ábyrgð á því sem heyrði undir mig. Maður biður um sanngjarna og raunsæja kröfu um ábyrgð en hún verður að vera sanngjörn og raunsæ.“
Þorgerður ákvað síðar að stíga tímabundið til hliðar vegna málsins. Þorgerður sagði á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins.
„Ég hef því eftir mikla umhugsun komist að þeirri niðurstöðu að það sé því best fyrir Sjálfstæðisflokkinn eins og sakir standa að ég láti af embætti varaformanns og að ég fari tímabundið í leyfi sem þingmaður,“
Þorgerður sagði þá að hennar helstu mistök hefðu verið meðvirkni í samfélagi sem einkenndist af hraða og græðgi. Þá sagði hún um ummæli hennar um að skuldir Kristjáns væru ekki hennar skuldir hefðu verið óheppileg og bætti við að henni þætti miður að þingkonur væru ávallt dregnar með í umræðu um skuldastöðu eiginmanna þeirra. En hún sagði þó málið ekki snúast um sanngirni heldur siðferði.
Þorgerður tjáir sig eins og áður segir við Fréttablaðið um þennan ólgutíma og segir það hafa valdið vonbrigðum hvað fáir úr flokknum hafi veitt henni stuðning þegar mótmælt var fyrir utan heimili hennar. Þá hrósaði hún Steinunni Valdísi fyrir að opna sig um áhrif mótmælanna á fjölskylduna.
„Mér finnst hún hugrökk að fara fram og ég virði hana. Enn finnst mér leitt að sjá að sumir þeirra sem stóðu fyrir utan heimili okkar hafi ekki séð að sér. Að það séu enn til einstaklingar, aðallega karlar, sem finnst í lagi að mótmæla fyrir framan heimili fólks. Það er þetta varnarleysi sem foreldri stendur frammi fyrir, að þú getir ekki varið börnin þín eða heimili.“
Segir Þorgerður að mótmælin hafi tekið mjög á fjölskylduna. Þegar til stóð að mótmæla fyrir utan heimili hjónanna í fyrsta sinn fengu þau að vita það með stuttum fyrirvara og því lítill tími til að koma börnunum í skjól.
„Svo er það ekki síður það, sem situr mest í mér, að vera með fatlað barn, sem þarf ákveðinn undirbúning, öryggi og skipulag og á erfitt með að upplifa eitthvað skyndilegt. Við náðum ekki að undirbúa hana og hún sturlaðist. Á meðan beið fólkið fyrir utan og ég man, að einn tiltekinn einstaklingur kom á dyrnar og afhenti manninum mínum eitthvað. Hann hélt á stelpunni okkar. Þá vildi einhver meina að við værum að nota fatlaða dóttur okkar sem skjól. Þarna hafði hún verið frávita inni stuttu áður.“
Þorgerður bætir við að eggjum hafi verið kastað í húsið og þau hjónin hafi byrjað á því á morgnanna að hreinsa húsið og taka til að reyna vernda börnin. Var upplifun hennar á þessum tíma að hún næði ekki að vernda börnin. Í viðtalinu sem má lesa í heild hér, segir Þorgerður:
„Þá fannst mér samfélagið vera komið á ofboðslega lágt plan. Þarna stóðu tilteknir einstaklingar og töldu sig vera einhverja málsvara alþýðunnar eða réttlætisins. Það var síður en svo.“