fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

„Vona að ég sé ennþá villingur“

Engin tabú í Viðreisn – Vill sjá meira frjálslyndi í íslenskum stjórnmálum – Væri ekki slæmt að vera formaður Framsóknarflokksins – Fimm flokka viðræðurnar áhugaverð tilraun

Ritstjórn DV
Föstudaginn 16. desember 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er snúin aftur á svið íslenskra stjórnmála og það með miklum gusti. Þorgerður yfirgaf sviðið árið 2013 en hafði fyrir þann tíma verið ein helsta vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins, ráðherra og varaformaður hans. Hrunið og eftirmálar þess ollu því að Þorgerður leit svo á að tíma sínum í stjórnmálum væri lokið en heillaðist af stefnu nýs framboðs, Viðreisnar, og ákvað að taka slaginn. Viðreisn náði miklum árangri í kosningunum, ekki síst Þorgerður sem kjörin var 4. þingmaður Suðvesturkjördæmis. Hún boðar ný stjórnmál, aukið frjálslyndi og samvinnu og segir að við lifum ótrúlega áhugaverða tíma í íslenskri pólitík.

Þorgerður er fædd árið 1965, dóttir hjónanna Gunnars Eyjólfssonar leikara og Katrínar Arason deildarstjóra. Hún ólst upp fyrstu æviárin í Vesturbænum en flutti sjö ára gömul með foreldrum sínum og eldri systur í Breiðholtið. „Ég er Breiðhyltingur að upplagi og naut þess frelsis sem börn í Breiðholti nutu á þeim tíma, sem voru ómalbikaðar götur, frelsið niðri í Elliðaárdal, fullt af leikfélögum í hverfi í uppbyggingu. Margar af mínum bestu vinkonum enn í dag eru stelpur sem ég kynntist sem barn í Breiðholtinu. Það voru bara átta hús í götunni og í næsta húsi við mig bjó Hanna Kata sem nú er þingflokksformaður Viðreisnar. Við urðum góðar vinkonur, vorum saman í handboltanum í ÍR eins og fleiri góðar stelpur. Það einkenndi Breiðholtið á þessum tíma að það voru sterkar stelpur þarna, í minni götu sem víðar.“

Hefði verið óbærilegt að verða KR-ingur

Þurfti að vera töggur í stelpunum, vegna umhverfisins?
„Ég veit það svo sem ekki, en umhverfið mótar mann. Þetta var dálítið hrátt allt saman og það voru mikil umskipti að flytja úr tiltölulega vernduðu umhverfi úr leikarablokkinni í Vesturbænum. Ég var til dæmis á góðri leið með að verða KR-ingur, sem hefðu auðvitað verið alveg óbærileg örlög, þótt það hafi alltaf verið sætir strákar í KR. Þetta ómótaða frelsi sem við nutum þarna uppi í Breiðholtinu á frumbýlisárum þess var nýtt og skilaði sér í skapandi hugsun og þroska.“

Það að þið flytjið upp í Breiðholtið, úr því sem kallað hefur verið menningarsinnað hverfi, Vesturbænum, þóttu það tíðindi?
„Mér fannst það æðislegt og mikið ævintýri. Sumum þótti það hins vegar ekkert rosalega fínt þá, að flytja í Breiðholtið, og fannst frekar að mamma og pabbi ættu bara að búa niðri í bæ. En það var þeirra stíll, að og gera það sem stendur hjartanu næst. Ég hef alltaf verið þakklát fyrir að alast upp í Breiðholtinu. Stundum þegar ég segi að ég sé Breiðhyltingur þá horfir fólk á mig og segir: Já, nú skil ég margt – ertu sem sagt Breiðholtsvillingur? Ég er reyndar bara stolt af því og vona að ég sé ennþá villingur og ekki sé búið að afeitra mig hvað það varðar.“

Flutti beint úr föðurhúsum til Þýskalands

Þorgerður Katrín stundaði menntaskólanám í Menntaskólanum við Sund. Eftir útskrift flutti hún út til Þýskalands ásamt manni sínum, Kristjáni Arasyni, sem þá hélt í atvinnumennsku í handbolta.
„Fyrst fluttum við til Hameln sem var alveg yndisleg borg að búa í. Síðan fórum við til Gummersbach og enn síðar til Spánar. Tíminn í útlöndum var frábær tími og hafði mikil áhrif á mig. Það var lærdómsríkt að flytja út aðeins tvítug. Ég held að ég hafi ekki skynjað það að fullu þá hversu mikilvægt það er að flytja út og kynnast annarri menningu. Ég var auðvitað að fara í fyrsta skipti úr föðurhúsum, ég flutti beint út til Þýskalands. Eftir á sér maður hvað þetta var ómetanlegt. Ég held að það sé sannarlega engin bábilja að með því að flytja út og ferðast, verði maður víðsýnni.“

Ætlaði að verða dýralæknir

Þorgerður stundaði handboltann úti í Þýskalandi í neðri deildum og dæmdi einnig töluvert. Hún hélt áfram að dæma þegar hún var komin heim til Íslands og varð fyrsta konan til að dæma leiki í efstu deild bæði kvenna og karla. Úti lagði hún stund á lögfræði í fjarnámi frá Háskóla Íslands og útskrifaðist með lögfræðigráðu árið 1993. „Ég ætlaði nú samt alltaf að verða dýralæknir, vegna sveitarinnar og dýranna.“

Þú værir þá kannski formaður Framsóknarflokksins núna?
„Það væri nú ekki slæmt,“ segir Þorgerður glottandi og bætir við að hún hafi lengi sagt að hún myndi þá bara hefja dýralæknanámið þegar hún yrði fimmtug. Hún er reyndar orðin aðeins eftir á með það og sér ekki alveg fram úr því að komast í slíkt nám á næstunni en maður skyldi aldrei segja aldrei.

Minna rúm fyrir fjölbreyttar skoðanir í Sjálfstæðisflokknum

Þorgerður og Kristján fluttust alkomin til Íslands árið 1997 og hóf hún þá störf sem yfirmaður samfélags- og dægurmáladeildar Ríkisútvarpsins. Þorgerður tók svo þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í nóvember 1998 og var í framboði fyrir flokkinn í kosningunum vorið 1999 þar sem hún var kjörin á þing. Þorgerður hafði starfað með ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði upp úr 1990 og segir að hún hafi alltaf haft áhuga á pólitík. „Pólitík var mikið rædd á heimilinu. Ég er alin upp á krata-, kvennalista- og kvenréttindaheimili. Ég var alltaf að reyna að sannfæra pabba um að Sjálfstæðisflokkurinn væri stærsti jafnaðarmannaflokkur Íslands, til að reyna að fá hann til að kjósa flokkinn. Þá var rúm fyrir mjög fjölbreyttar skoðanir í Sjálfstæðisflokknum.“

En ekki í dag?
„Nei, minna.“

Þorgerður Katrín var sem fyrr segir kjörin á þing árið 1999 og var gerð að ráðherra menntamála í lok árs 2003. Hún varð síðan varaformaður Sjálfstæðisflokksins árið 2005.

Þetta er nokkuð skjótur framgangur, þú nærð mjög langt innan flokksins. Ertu sátt við tíma þinn þar þegar þú lítur til baka?
„Já, mér leið vel þar, þetta var góður tími og ég kynntist mörgu góðu fólki. Í dag sé ég hvað var raunverulegt í því, hverjir eru vinir manns og hverjir ekki. Að mínu mati velur maður ekki vini eftir stjórnmálaskoðunum og ég á marga góða vini sem eru með aðrar hugsjónir en ég.“

Þú verður vör við það núna, eftir að þú gengur til liðs við Viðreisn, að það eru ekki allir sáttir?
„Já, ég verð það.“

Vill aukna samvinnu

Þorgerður segist sátt við sín störf á Alþingi og í menntamálaráðuneytinu, þótt auðvitað sé það svo að margt hefði mátt gera á annan hátt. „Ég lærði að hlutirnir gengu betur þegar maður hafði meira samráð. Dæmi um það er skólalöggjöfin sem ég vann að því að koma á. Það hikstaði til að byrja með, árin 2004 til 2005. Þá fórum við í víðtækari samvinnu við kennarasamböndin og sveitarfélög og það gekk strax betur. Málin kláruðust ekki fyrir kosningar 2007 og þá var til umræðu að ég myndi skipta um ráðuneyti. Ég vildi það hins vegar ekki, ég vildi ljúka þessari vinnu. Með því að auka samráð náðist mikilvæg sátt í skólamálum. Niðurstaðan varð sú að allir flokkar voru með við afgreiðsluna, þótt menn hefðu auðvitað sína fyrirvara,“ segir Þorgerður sem auðsjáanlega er talsvert niðri fyrir þegar kemur að umræðu um aukið samráð og samvinnu í stjórnmálum. Hún segir að á þessum árum hafi henni þótt vanta meira upp á samræðukúltúr í íslenskum stjórnmálum þannig að fólk ynni saman þvert á flokka og næði sáttum um mál. „Þannig var það þá og við skulum virða það. Nú erum við að upplifa aðra tíma og mér finnst það ótrúlega spennandi. Líkt og þessar viðræður flokkanna fimm.“

Ríkisreksturinn risastórt velferðarmál

Þorgerður sat sem ráðherra þegar bankahrunið reið yfir árið 2008. „Það voru skrýtnir tímar, ákaflega skrýtnir. Og erfiðir.“

Vissirðu eitthvað hvað var að gerast?
„Nei, ég get ekki sagt það. Ekki frekar en margir aðrir. Þetta tímabil var ákaflega erfitt en lærdómsríkt og ég hugsa um það í dag hvernig best er að draga lærdóm af því sem þarna gerðist. Ríkisreksturinn til lengri tíma skiptir ótrúlega miklu máli og ég hugsa um þessa tíma núna í fjárlagaumræðunni. Það er risastórt velferðarmál að ríkisreksturinn sé í lagi. Tónninn úr kosningunum er sá að við þurfum að sinna betur grundvallarmálaflokkum eins og um heilbrigðismálum, menntamálum og velferðarmálum. Það eru skýr skilaboð um það. En á sama tíma verðum við að fara varlega í ríkisfjármálunum. Menn lækkuðu til að mynda skatta á miklu þensluskeiði fyrir hrun. Var það skynsamlegt? Í ljósi sögunnar þá var það ekki. Eigum við ekki að reyna að læra svolítið af sögunni?“

Þorgerður segir að það hafi verið á hennar ábyrgð að verja menntamál og menningarmál eins og hægt væri eftir hrun og hún sé í meginatriðum þokkalega ánægð með hvernig það hafi tekist, þrátt fyrir að auðvitað hafi verið hægt að gera betur. Lögð var áhersla á að opna háskólana til að mæta stöðunni á vinnumarkaði og auka fullorðinsfræðslu. Þorgerður hrósar Katrínu Jakobsdóttur sem tók við sem menntamálaráðherra á eftir henni fyrir það hvernig hún hélt áfram með þá stefnu, að tryggja menntakerfið eftir föngum.

Sumt bíður ævisögunnar

En bankahrunið hafði líka persónuleg áhrif á Þorgerði, í meira mæli en margan annan. Þorgerður sagði af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og sagði sig tímabundið frá þingmennsku í apríl 2010. Hún gaf síðan ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu við kosningarnar árið 2013. Ástæðan var umfjöllun um skuldamál Kristjáns, eiginmanns hennar, en hann var einn stjórnenda Kaupþings á árunum fyrir hrun.

Skuldamálin ollu hins vegar mikilli úlfúð og meðal annars var mótmælt ítrekað fyrir utan heimili Þorgerðar þar sem mótmælendur kröfðust þess að hún segði af sér þingmennsku. Þorgerður sagði að endingu af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og vék af þingi með þeim orðum að hún teldi að það væri best fyrir flokkinn að hún viki á meðan að málin yrðu skýrð. Þegar Þorgerður er spurð hvort henni hafi þótt hún fá nægilegan stuðning frá Sjálfstæðisflokknum þegar þessi mál voru í hámæli vill hún lítið fara út í þá sálma. „Mér finnst bara í dag, þegar ég er að koma aftur inn í pólitíkina, þá fæ ég ekkert út úr því að vera að tala um Sjálfstæðisflokkinn. Mínir tímar þar voru almennt góðir, auðvitað urðu einhver sárindi eins og gengur, en ég held að ég muni frekar tíunda þetta þegar og ef ævisaga mín kemur út.“

Forréttindi að fá að búa til frjálslynt afl

En hafði þetta áhrif á það að þú ákvaðst nú, fyrir þessar kosningar, að ganga til liðs við Viðreisn og fara fram í kosningum fyrir þann flokk? Af hverju tókst þú þá ákvörðun?
„Mér fannst rétt á sínum tíma að stíga til hliðar eftir þetta mikla rót og tel mig hafa lært af því. Ég hélt í raun að ég væri alfarið hætt í pólitík. Svo gerist það að þegar maður er farin út úr pólitíkinni og er óháður öllu, þá leitar maður kannski svolítið í ræturnar. Leitar í það sem maður var alinn upp við og hjá mér var grundvallartónninn, þetta frjálslyndi. Sjálfstæðisflokkurinn var kannski áður með breiðari skírskotun málefnalega en nú er. Þetta segi ég af fullri vinsemd og virðingu við þá sem nú starfa í flokknum. En ég held að það sé engin tilviljun að flokkurinn er í dag undir 30 prósentum á meðan að hann var alltaf nær 40 prósentum í fylgi á árum áður. Það sem dró mig inn í Viðreisn var þessi grundvallarhugmyndafræði um frjálslyndi og svo kannski ákveðinn svona sprotahugsunarháttur. Í Viðreisn eru engin tabú, menn ræða sig í gegnum allt með frjálslyndi að leiðarljósi og það er dásamlegt og algjör forréttindi að vera með í að búa til svona frjálslynt afl eins og Viðreisn er.“

Ekki auðvelt að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn

Þorgerður segir þó að það hafi ekki verið auðvelt að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn og ganga til liðs við Viðreisn. Í Sjálfstæðisflokknum hafi hún átt vini og stuðningsmenn og hún hafi ekki getað gert þá kröfu til sinna stuðningsmanna að þeir fylgdu henni. „En fyrst ég var að koma aftur varð ég að vera 100 prósent sátt við það sem ég var að gera. Þá skipti hugmyndafræðin og málefnin mig öllu máli. Ég fann mig í stefnu Viðreisnar.“

Þorgerður segir að henni þyki sem margt hafi breyst frá því að hún, tímabundið eins og nú er orðið ljóst, kvaddi stjórnmálin „Mér finnst dýnamíkin í íslenskri pólitík vera orðin mun meiri núna en hún var fyrir fjórum árum þegar ég hætti, skoðanaskiptin eru hreinskiptnari og sett fram af meiri virðingu, og það er hlustað. Enn sem komið er í það minnsta. Mér finnst forréttindi að fá að taka þátt í þessu, mér finnst þessi pólitík sjúklega skemmtileg.“

Er ekki mikil Pollýanna

Erum við þá að lifa nýja pólitíska tíma sem þú heldur að endist, með nýjum vinnubrögðum og betri samskiptum milli fólks og milli flokka?
„Já, ég er ekki gjörn á að vera eins og Pollýanna. Stundum er ég raunar óþarflega leiðinlega raunsæ. Ég bind hins vegar vonir við þessar stjórnarmyndunarviðræður sem núna hafa staðið í sjö vikur. Viðræðurnar hafa leitt til þess að það eru að hrynja fordóma- og fyrirvaramúrar sem stundum hafa verið milli flokka áður. Ég vona að þetta skili sér í því að sú stjórn sem verður mynduð, ég veit ekki hver hún verður, tileinki sér önnur vinnubrögð en hafa tíðkast. Að hún reyni eftir megni að teygja sig til þeirrar stjórnarandstöðu sem mun sitja á Alþingi. Að menn reyni að nýta þá möguleika sem mér finnast vera til til að taka upp ný vinnubrögð, nýja hugsun og vinna saman í miklu meira mæli en verið hefur.“

Ómaklega vegið að flokksleiðtogum

Þorgerður færist öll í aukana við þetta umræðuefni. „Í sjö vikur höfum við rætt málefni. Það er flokkunum öllum til hróss. Það er ekki verið að tala um hver fær hvaða stóla heldur hvernig menn geta nálgast hver annan. Það er búið að hrauna yfir Óttar, það er búið að hrauna yfir Benedikt og núna síðast Kötu og mér finnst það satt best að segja ómaklegt. Öll hafa þau lagt sitt fram í hugmyndafræðilega umræðu, menn hafa lagt sitt fram og nálgast miklu meira en umræðan í dag gefur til kynna. Það sama gildir um Pírata sem eru dýrmæt viðbót við flóruna á Alþingi. Mér hefur fundist sárt að sjá hvernig lamið er á þessu fólki í umræðunni því það hefur staðið í þessu af heilindum. Menn þurfa ekki að fara í einhverja pissukeppni um hver sé bestur í hverju, það er bara verið að ræða um og takast á um málefni. Við erum öll að tala fyrir heilbrigðis- og menntamálum. Það voru allir á sama máli þar, í þessum fimm flokka viðræðum, og þó að einhver vilji setja meiri útgjöld í eitthvað gerir það ekki aðra að verra fólki. Það þarf ekki alltaf að fara í manninn.“

Þorgerður segir að þingmenn Viðreisnar hafi verið tilbúnir til að skoða álagningu hátekjuskatts í fimm flokka viðræðunum. Þau hafi hins vegar ekki getað fallist á hugmyndir Vinstri grænna um auðlegðarskatt.
Voru tilbúin að skoða hátekjuskatt Þorgerður segir að þingmenn Viðreisnar hafi verið tilbúnir til að skoða álagningu hátekjuskatts í fimm flokka viðræðunum. Þau hafi hins vegar ekki getað fallist á hugmyndir Vinstri grænna um auðlegðarskatt.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Voru tilbúin að skoða hátekjuskatt

En kemur nokkuð á óvart að það reyndist erfitt að brúa bilið milli t.d. Vinstri grænna og Viðreisnar í ríkisfjármálum? Þetta eru flokkar hvor sínum megin á pólitíska litrófinu, þar sem annar flokkurinn vill beita skattkerfinu sem jöfnunartæki en hinn flokkurinn vill minni afskipti ríkisins og meðal annars í skattheimtu?
„Ég held nú samt að þessir flokkar geti alveg nálgast hvor annan í skattamálum til að mynda. Við í Viðreisn ætlum ekki að lækka skatta bara til þess eins að geta sagt að við höfum gert það. Í kosningabaráttunni og eftir kosningar höfum við verið skýr með að við teljum ekki rétt að lækka skatta núna þegar blasir við að það þarf að forgangsraða í þágu heilbrigðismála og menntamála og á meðan verið er að greiða niður skuldir ríkisins. Þetta á ekki síst við núna þegar við erum að detta inn í þenslutímabil, þá er ekki skynsamlegt að lækka skatta og erum við alveg ófeimin við að segja það. Við viljum hins vegar ekki hækka skatta á almenning, við viljum þess í stað setja ákveðin gjöld á atvinnugreinar eins og sjávarútveginn og ferðaþjónustuna og við viljum leggja á græna skatta. Þetta er eitthvað sem á alveg að vera hægt að brúa. Við vorum tilbúin til að skoða álagningu hátekjuskatts en gegn því að við fengjum einhverjar breytingar í landbúnaði og sjávarútvegi. Okkur hugnaðist hins vegar ekki hugmyndir um auðlegðarskatt eða eignaskatt.“

Vantaði meira frjálslyndi

Voru vonbrigði að ekki skyldi nást samkomulag um fimm flokka stjórn?
„Það var mjög áhugavert og lærdómsríkt að taka þátt í þeirri tilraun og mér fannst það Pírötum til hróss hvernig þau stýrðu þessum viðræðum. Það má líka segja að þetta hefði verið áhugaverð lýðræðisleg tilraun, ef saman hefði gengið. Á endanum var það bara svo að við vorum búin að tala okkur niður á það að við náðum ekki saman, að þessu sinni.“

Hefði þér hugnast betur að ná saman þessari fimm flokka stjórn en stjórn með Sjálfstæðisflokknum, eins og einnig hefur verið reynt?
„Það sem ég vil sjá er frjálslyndi. Mér fannst á endanum ekki ríkja nógu mikið frjálslyndi í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum í viðræðunum. Með þessu er ég ekki að segja að það eigi að kollvarpa þessum atvinnugreinum. Við viljum leggja okkur fram um að ná meiri sátt en útvegurinn verður að greiða hærra gjald til þjóðarinnar en nú er. Við sjáum það fyrir okkur gert í gegnum markaðinn. Það hefði verið margt frjálslynt í þessari fimm flokka stjórn en það er líka hægt að ná því fram öðru vísi. Það var margt mjög álitlegt farið af stað í viðræðum milli Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og okkar en Sjálfstæðisflokkurinn sleit því á endanum og þá er það bara þannig.“

Hvað gerist núna?
„Það á ekki að vanmeta að þær viðræður sem hafa farið fram hafa skipt máli. Nú þekkist fólk betur persónulega og það er jákvætt. Línur ættu að vera orðnar skýrari um hvaða möguleikar standa nú til boða. Er það einhver meirihlutastjórn eða minnihlutastjórn sem ýmsir tala um? Það er erfitt að segja hvað verður. Ég er allavega búin að komast að því að ég get unnið með öllum hér á þingi. Framsóknarflokkurinn hefur ekkert verið með í þessum viðræðum og að hluta til finnst mér það synd því þar eru margir góðir einstaklingar innanborðs sem vel er hægt að vinna með.“

Jólin koma samt

Jólin nálgast og Þorgerður segir að hún sé mikið jólabarn. Verkefni síðustu vikna hafi hins vegar tekið mikinn tíma og nú sé hún með seinni skipunum í undirbúningi jólanna. „Ég ákvað að senda ekki jólakort í fyrsta sinn í þrjátíu og eitthvað ár og einbeita mér frekar að því að byrja að kaupa jólagjafir. Það er smá hnútur í maganum á kvöldin, það á eftir að gera ísinn, rauðkálið, hamfletta rjúpurnar og ég veit ekki hvað. En jólin koma nú samt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki