Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir á Facebook-síðu sinni að hún hafi orðið fyrir öllu því helsta sem konur geta orðið fyrir, líkt og hún orðar það, þegar hún var skattstjóri og síðar sýslumaðurinn á Vestfjörðum. Sigríður Björk greinir frá þessu undir formerkjum myllumerkisins #metoo.
Vísir sagði fyrst frá færslu Sigríðar. Í færslu sinni segir Sigríður Björk að konur geti hvergi verið öruggar fyrir því að fá óviðeigandi athugasemdir eða jafnvel snertingu. Hún segir lögregluna vera enga undantekningu frá þessu. „Lengst af voru stjórnendur í lögreglunni nær allir karlar og konur voru fáar í hópi lögregluþjóna. Ég get vel ímyndað mér að það hafi ekki alltaf verið auðvelt að vera lögreglukona á þessum tíma. Við höfum heyrt slíkan vitnisburð, bæði nýverið í tengslum við #metoo umræðuna hér á landi, og í frásögnum lögreglukvenna í rannsóknum sem gerðar hafa verið á kynferðislegri áreitni innan lögreglunnar,“ segir Sigríður.
Sigríður Björk segir áreitið sem hún varð fyrir á Vestfjörðum hafi gefið henni þykka skráp: „Þó að sýslumenn teljist nokkuð valdamiklir þá hafði undirrituð þó ekki meiri völd en svo að henni mætti sem ungum skattstjóra, og síðar sýslumanni á Vestfjörðum, allt það helsta sem konur geta átt á hættu að verða fyrir þegar þær feta sig inn í heim karlanna. Kannski átti það þátt í að skapa mér skráp og nokkurn vott af harðfylgni en ég hefði þó gjarnan viljað vera laus við þessa reynslu.“