fbpx
Föstudagur 27.júní 2025
Fréttir

Athafnamennirnir Árni Þór Árnason og Karl J. Steingrímsson fóru í mál

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 6. febrúar 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athafnamennirnir Árni Þór Árnason og Karl J. Steingrímsson, iðulega kenndur við Pelsinn, fóru í mál við Junior Chambers International-hreyfinguna (JCI) á Íslandi. Þeir kröfðust þess að JCI endurgreiddi þeim framlög þeirra vegna kaupa á húsnæði félagasamtakanna árið 1986, sem tvímenningarnir höfðu frumkvæðið að ásamt Ásgeiri Gunnarssyni heitnum.

Árni Þór gerði kröfu um að fá greiddar um 1,7 milljónir en kröfur Karls hljóðuðu upp á 4,9 milljónir króna auk dráttarvaxta. Forsvarsmenn JCI á Íslandi höfnuðu kröfum félaganna og því fór málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Þar var JCI-hreyfingin sýknuð af kröfum Árna Þórs og Karls og var þeim gert að greiða 1,2 milljónir málskostnað.. Var niðurstaða dómstólsins sú að tvímenningarnir hafi frá upphafi lofað að afhenda JCI umrædda fasteign án áhvílandi skulda. Að auki kemur það fram í dómnum að skuldirnar hafi verið fyrndar.

Umdeild fjárfesting

Forsaga málsins er sú að JCI-hreyfingin fjárfesti í húsnæði að Hellusundi 3 árið 1986. Félagasamtökin höfðu lengi verið hrakhólum fram að því og það þótti velunnurum félagsins, þeim Árna, Karli og Ásgeiri með öllu ótækt. Þeir höfðu frumkvæði að því að húsið yrði keypt þann 25. september 1986 og var kaupverðið 5,5 milljónir króna. Þremenningarnir tóku að sér að fjármagna útborgunina á húsinu sem var ein milljón sem og að leita til fyrirtækja og einstaklinga um stuðning. Tekið var lán hjá banka til þess að greiða afganginn og var ætlunin að leigja stóran hluta hússins út til þess að greiða lánið upp.

Í dómskjölum kemur fram að Karl hafi greitt 501.386 krónur en Árni Þór 200.000 krónur. Þessar tölur koma fram í ársreikningum húsnefndar en einnig kemur fram að engar millifærslukvittanir séu til eða skuldaskjöl. Það voru ein helstu rök tvímenninganna að skuldin hefði ætíð verið tilgreind í ársreikningum. Alls komu inn styrkir að upphæð 857.000 krónur.

Lofuðu skuldleysi

Fyrirhuguð fjárfesting var umdeild enda óttuðust margir félagsmenn að fjárhagsskuldbindingarnar yrðu hreyfingunni um megn. Þremenningarnir sendu hins vegar bréf til landsstjórnar JCI-hreyfingarinnar þann 5. desember 1986 þar sem stóð: „Í ljósi alls þessa, og til að koma í veg fyrir ágreining innan JCI-hreyfingarinnar, höfum við ákveðið að axla byrðina sjálfir, fram til ársins 1990, og munum við þá afhenda hreyfingunni húsið formlega og þá í góðu ástandi og skuldlaust.“

Þrekvirkis þremenninganna er minnst með fallegum virðingarvotti fyrir framan húsið.
Viðurkenning Þrekvirkis þremenninganna er minnst með fallegum virðingarvotti fyrir framan húsið.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ósáttir við breytingar

Allar götur síðan hafa Árni Þór og Karl setið í húsnefnd Hellusunds 3 og ráðið því sem þeir vildu ráða. Meðal annars ákvað nefndin að gera upp skuld vegna húsnæðiskaupanna við ekkju Ásgeirs Gunnarssonar árið 1991 sem og að greiða inn á meintar skuldir JCI-hreyfingarinnar við þá sjálfa, síðast árið 2003.

Í lok árs 2012 boðaði þáverandi landsforseti, Viktor Ómarsson, til landsfundar þar sem tilkynnt var um fyrirhugaðar breytingar á reglugerðinni um húsnefndina þannig að fjölgað yrði í stjórn hússins auk þess sem formannskjöri nefndarinnar yrði breytt. Ástæðu þess má rekja til þess að ófremdarástand ríkti í húsinu. Leigutekjur dugðu ekki fyrir álögðum fasteignagjöldum og hústökufólk hafði tekið sér bólfestu í kjallara hússins. Kalla þurfti til lögreglu til að rýma húsið.

Árni Þór og Karl voru afar ósáttir við fyrirhugaðar breytingar og mættu því ekki á fundinn. Var það túlkað á þá veru að þeir gæfu ekki kost á sér til frekari hússtjórnarsetu. Tvímenningarnir tóku þessum vendingum illa og nokkrum mánuðum síðar, í apríl 2013, lögðu þeir fram kröfur sínar um skuldauppgjör. Síðan þá hafa þeir freistað þess að fá kröfurnar greiddar án þess að hafa árangur sem erfiði. Þeir töldu sig því eiga engra annars úrkosti en að fara í mál gegn JCI-hreyfingunni. Málið var þingfest árið 2016 en þá voru um 13 ár síðan greitt var inn á skuldina við tvímenningana.

Sem fyrr segir var niðurstaða dómstólsins sú að skuldirnar hafi verið fyrndar, enda fyrningarfrestur krafna 10 ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Trump brjálaður yfir fréttaflutningi um að árásin hafi misheppnast

Trump brjálaður yfir fréttaflutningi um að árásin hafi misheppnast
Fréttir
Í gær

Ríkisstjórnin sendir þjóðinni skilaboð: „Það er engin ástæða til ótta – en það er rík ástæða til að vera vel undirbúin”

Ríkisstjórnin sendir þjóðinni skilaboð: „Það er engin ástæða til ótta – en það er rík ástæða til að vera vel undirbúin”
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Auka myndavélavöktun á grenndarstöðvum SORPU

Auka myndavélavöktun á grenndarstöðvum SORPU
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Útlendingar fengu tæpa 13 milljarða í fjárstyrki: „Þetta eru svakalega háar fjárhæðir“

Útlendingar fengu tæpa 13 milljarða í fjárstyrki: „Þetta eru svakalega háar fjárhæðir“