ÍAV og United Silicon á hitafundi í Helguvík í gær – Verktakarnir ætluðu að leggja niður störf
Stjórnendur ÍAV hótuðu í gær að hætta framkvæmdum verktakafyrirtækisins við kísilver United Silicon í Helguvík. Forsvarsmenn fyrirtækjanna hittust þá á miklum hitafundi á verksmiðjulóðinni og komust að samkomulagi um að ÍAV, sem er aðalverktaki kísilversins, klári fyrsta áfanga þess fyrir júnílok. Samkvæmt heimildum DV kröfðust stjórnendur ÍAV að United Silicon greiddi útistandandi reikninga upp á hundruð milljóna króna. Eigendur kísilversins hafi aftur á móti kennt ÍAV um tafir á verkinu og því neitað að borga.
„Þetta var leyst. Þeir klára verkið 30. júní og fengu því 30 daga í viðbót. Nú þurfa þeir virkilega að spýta í lófana og manna verkið síðasta mánuðinn. Þeir hafa nú lofað að gera það og við erum nokkuð ánægðir með niðurstöðuna. Það var dálítil harka í samræðunum en á endanum voru menn sáttir,“ segir Magnús Garðarsson, stjórnarmaður og einn eigenda United Silicon.
Samkvæmt upplýsingum DV höfðu nokkur fyrirtæki í byggingariðnaði, sem sinna undirverktöku fyrir ÍAV, keyrt mannskap sinn og tæki aftur til höfuðborgarinnar þegar fundurinn í gær hófst. Verktakafyrirtækið hafi gefið United Silicon frest til miðnættis síðasta fimmtudag til að greiða útistandandi reikninga. Á föstudagsmorgun hafi ÍAV svo hafið undirbúning að því að allir starfsmenn þess leggðu niður störf í hádeginu. Þegar blaðamann og ljósmyndara DV bar að garði, rétt fyrir hádegi, voru starfsmenn fyrirtækisins enn að störfum.
„Það er stríðsástand. Það er búið að ráða Securitas í að passa svæðið og við megum ekki fara út með neitt,“ sagði starfsmaður verktakafyrirtækis á svæðinu, sem vildi ekki láta nafns síns getið, í samtali við blaðamann.
Tveimur bílum öryggisfyrirtækisins Securitas hafði þá verið lagt við báða inngangana að verksmiðjulóðinni. Magnús segir Securitas eiga að gæta þess að enginn fari inn á lóðina sem ekki á þangað erindi.
„Aðkoma þeirra að þessu hafði ekki beint með þessar deilur að gera en auðvitað passa þeir á hverjum degi að tæki og tól séu ekki tekin af svæðinu,“ segir Magnús.
Fjárfesting vegna fyrsta áfanga kísilvers United Silicon nemur um tólf milljörðum króna en sú upphæð inniheldur kaup á ljósbogaofni sem kom hingað til lands í júlí í fyrra. Fyrirtækið vill flytja inn og reka þrjá sambærilega ofna til viðbótar á næstu tíu árum. Framleiðsla fyrirtækisins á að hefjast 15. júlí næstkomandi en þar er stefnt að 22.900 tonnum á ári. Fyrsta farmi fyrirtækisins af hráefni fyrir kísilverið var landað í Helguvík síðasta mánudag. Um var að ræða um sex þúsund tonn af steintegundinni kvarsi sem er notuð við kísilmálmvinnslu.
„Svona ágreiningur kemur oft upp við verklok. Þeir áttu að skila verkinu á miðvikudag, sem þeir gerðu ekki. Það var þó ekki óvænt en við erum búnir að sætta okkur við það núna,“ segir Magnús. Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.