Eignir Alexöndru Andresen metnar á 156 milljarða króna
Hin norska Alexandra Andresen, 19 ára atvinnuknapi, er yngsti milljarðamæringur heims samkvæmt Forbes-tímaritinu. Auðæfi hennar eru metin á 1,2 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 156 milljarða íslenskra króna. Spurningin sem brennur á vörum flestra er hvernig í ósköpunum hún fór að því að eignast alla þessa peninga.
Svarið er í raun einfalt. Faðir Alexöndru, Johan F. Andresen, auðgaðist gríðarlega á fjárfestingarfélagi sínu, Ferd Holding. Árið 2007 flutti hann 80 prósent af hlutafé félagsins yfir á dætur sínar, þær Alexöndru og Katharinu sem er einu ári eldri. Einstaklingar sem ekki hafa náð átján ára aldri eru ekki gjaldgengir á lista Forbes, en í fyrra, þegar Alexandra varð 18 ára, komst hún á lista yfir ríkustu Norðmennina.
Ferd Holding átti meðal annars stærsta tóbaksfyrirtæki Noregs og hagnaðist það mikið á tóbaksiðnaðinum. Um var að ræða fjölskyldufyrirtæki sem á rætur sínar að rekja langt aftur. Fyrirtækið var selt árið 2005 fyrir 500 milljónir dala og notaði Johan peningana sem hann fékk til að fjárfesta í vogunarsjóðum og fasteignum svo dæmi séu tekin.
Alexandra er búsett á hestabúgarði í Þýskalandi þar sem hún er atvinnuknapi. Kærasti hennar er hinn 24 ára Joachim Tollefsen sem er atvinnumaður í blönduðum bardagalistum, MMA. Systir Alexöndru er einnig á lista Forbes en í þriðja sæti er annar Norðmaður, Gustav Magnar Witzoe.
Kerry Dolan, aðstoðarritstjóri Forbes, segir í samtali við breska blaðið Telegraph að vissulega hafi öll umrædd ungmenni erft auðæfi sín. En það veki vissulega athygli að þrjú efstu sætin skipi ungmenni frá Noregi.