fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

Hestamannamótið 1962 var þjóðarskömm

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 6. apríl 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á hestamannamótum er oft glatt á hjalla og kemur það fyrir að vín sé haft um hönd. Áður fyrr var það lenska að knaparnir sjálfir væru drukknir og pískuðu hrossin ótæpilega. Á hestamannamótinu á Þingvöllum sumarið 1962 logaði allt svæðið í ölæði og lögreglan réð vart við ástandið. Í Alþýðublaðinu var sagt að uppákoman hefði verið þjóðarskömm.

 

Setti mótið
Steinþór Gestsson á Hæli.

Slagsmál á hestamannamótum algeng

Landsmót hestamanna sumarið 1962 var sett klukkan tíu, laugardagsmorguninn 14. júlí. Var það haldið á Skógarhólum í Þingvallasveit. Steinþór Gestsson, bóndi á Hæli, setti mótið og greindi frá því í ávarpi að hrossaræktinni færi ört fram. Hestarnir væru að fríkka og batna og áhuginn fyrir ræktun yxi í landinu. Sæist það best á fjölgun í hestamannafélögunum. Voru þau orðin 24 og meðlimirnir 1.700.

Nokkur rigning var en mótsgestir glaðir og snemma góðglaðir. Keppt var um daginn og verðlaun veitt. Er það vart frásögu færandi en um kvöldið var haldinn dansleikur á hlaupabrautinni og þá færðist fjör í leikinn. Á laugardagskvöldinu var áætlað að um 6.000 manns hafi verið á svæðinu.

Nokkuð af ungmennum kom á dansleikinn frá Reykjavík og vildu hestamenn meina að þau hefðu staðið fyrir þeim ólátum sem hér verður gerð grein fyrir. Í frásögnum blaðanna kemur þó fram að fullorðnir hafi tekið þátt í óspektunum og læðist að sá grunur að sá þáttur sé vanmetinn í frásögnum. Iðulega gerðist það að hestamenn mættu á mót búnir að fá sér í aðra tána og stigu drukknir á bak. Slagsmál á hestamannamótum voru ekki óalgeng þó að sjaldnast hafi þau endað með jafn miklum látum og þetta umrædda sumar.

Brjálaðist í bílnum

Samkvæmt Tímanum þann 17. júlí tók drykkjuskapurinn að færast í aukana um klukkan fjögur á laugardeginum. Þar segir:

„Forráðamenn landsmótsins verða að sjálfsögðu ekki sakaðir um, að gestir kunnu ekki magamál sitt á brennivíni, en segja má að dansinn hafi verið óþarfur og lögregluliðið fámennara en þörf krafði.“

Alls voru fimmtán lögregluþjónar á svæðinu. Ellefu á Skógarhólum, tveir við Valhöll og tveir á bifhjólum á Uxahryggjaleið innan við mótstaðinn. Þrjá bíla hafði lögreglan á mótsstaðnum, þar af einn sem tók þrjátíu manns. Höfðu þeir varla undan við að handtaka fólk og leysa úr slagsmálum.

Strax klukkan fjögur hóf lögreglan að smala fylliröftum saman. Sumir af þeim voru ósjálfbjarga menn sem höfðu lagst fyrir úti um holt og móa í rigningunni. Voru þeir handteknu um 100 talsins og ljóst að lögreglubílarnir dugðu ekki til. Ákveðið var að nota rútu frá BSÍ til að ferja flesta til Reykjavíkur. Það reyndist þó ekki auðvelt því að af þessum 100 voru 50 svo illir viðskiptis að lögreglan varð að flytja þá í járnum. Einn ungur maður sleppti sér gjörsamlega og reyndi í „hreinu brjálæði að komast út úr bílnum“ að sögn Alþýðublaðsins. „Setti hann undir sig hausinn og hljóp á rúður í bílnum og braut margar áður en hægt var að hemja hann.“

Handtekinn
Óeirðaseggur færður í járnum til Reykjavíkur.

Kona rotuð

Þegar leið á nóttina voru slagsmál í hverju horni. Alls þurftu um 70 manns að leita sér læknishjálpar á hjálparstöð skáta í Skógarhólum. Margir voru blóðugir og bláir eftir áflogin. Meðal alvarlegustu atvikanna var að kona ein var kýld í höfuðið svo hún rotaðist. Komst hún ekki til meðvitundar fyrr en eftir hálfa klukkustund. Var árásarmaður hennar meðal þeirra handteknu. Annað alvarlegt atvik kom upp eftir slagsmál þar sem maður var fluttur til Reykjavíkur með gapandi sár á kinn. Slys urðu einnig á mótinu sjálfu. Féll til að mynda maður að nafni Bragi Agnarsson af baki og handleggsbrotnaði.

Fimmtán manna lið skáta hafði vart undan við að hlúa að gestunum en skátarnir sáu einnig um að stýra umferðinni í rigningunni sem jókst í sífellu. Í Vísi þann 16. júlí stóð:

„Slæm veðurskilyrði virtust ekki hafa mikil áhrif á veislugestina, sem veifuðu flöskum, börðust og sungu allt til morguns.“

Ekla lögreglunnar var slík að skátarnir voru kallaðir til að sinna löggæslu. Var ástandið svo slæmt og lögreglan svo vanbúin að handjárnin kláruðust. Þurfti að senda eftir fleiri járnum í skyndingu til Reykjavíkur. Sverrir Guðmundsson lögregluvarðstjóri, sem stýrði aðgerðunum, sagði við Morgunblaðið, að það væri almennt álit lögregluþjónanna að þeir hefðu aldrei lent í að þurfa að fjarlægja svo marga af sveitaskemmtun, sem oft væru þó slæmar. Vildi Sverrir meina að dansleikurinn hafi verið auglýstur of vel og það hafi valdið því að fólk hafi flykkst að úr Reykjavík. Hafi sumir þeirra verið svo ölvaðir að þeir komust ekki einu sinni inn á svæðið um eftirmiðdegi. Innan um ungmennin hafi leynst góðkunningjar lögreglunnar og ógæfumenn úr borginni. Sumir þeirra auralausir og allslausir.

Drulla
Fylliraftar ráfuðu um ósjálfbjarga og lögðust í móa.

Riðu niður tjöld

Skúli Sveinsson varðstjóri sá um löggæsluna við Valhöll. Greindi hann frá því að þar hafi einnig fjölmörg mál komið upp. Um miðjan laugardaginn þurfti að senda níu menn með lögreglubíl til Reykjavíkur. Flestir af þeim unglingar að sögn Skúla.

Mótsgestir gerðu einnig mikil spjöll á eignum. Drukknir knapar riðu niður tvö af mótstjöldunum. Þá var maðurinn einn handtekinn þar sem hann reyndi að klippa niður hestagirðinguna. Ætlaði hann að hleypa stóðinu út sér til skemmtunar.

Mótsgestir tóku sér tak á sunnudeginum, ábyggilega margir timbraðir og sárir eftir hamagang næturinnar. Ró færðist þó ekki yfir svæðið fyrr en klukkan átta um morguninn og því ábyggilega flestir vansvefta þótt þeir hafi ekki tekið beinan þátt í óspektunum. Lítið var um drykkjuskap það sem eftir lifði móts og góður bragur á öllum þorra manna samkvæmt lýsingum Tímans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Rannsóknar-Ríkharð með kenningu um það hvernig komst upp um brot Búa og Ísaks – Fengu báðir þungan dóm

Rannsóknar-Ríkharð með kenningu um það hvernig komst upp um brot Búa og Ísaks – Fengu báðir þungan dóm
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Allt vitlaust um borð í flugvél – Lét yfirmann sinn heyra það vegna sæta á fyrsta farrými sem ungir menn voru í

Allt vitlaust um borð í flugvél – Lét yfirmann sinn heyra það vegna sæta á fyrsta farrými sem ungir menn voru í
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Ofurparið birtir ótrúlegt myndband – Nakin í sleik í sturtu

Ofurparið birtir ótrúlegt myndband – Nakin í sleik í sturtu
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“