fbpx
Fimmtudagur 13.júní 2024

Tímavélin: Vinnumaður í Bárðardal kæfði verðandi barnsmóður sína

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 17. febrúar 2019 18:00

Svartá í Bárðardal Lík Guðfinnu fannst í grynningunum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haustið 1891 fannst lík Guðfinnu Jónsdóttur við Svartárvatn í Bárðardal. Guðfinna var þunguð eftir Jón Sigurðsson, vinnumann á öðrum bæ, og hafði fengið fararleyfi til þess að hitta hann þremur dögum áður. Grunur lék að Jón hefði myrt Guðfinnu og játaði hann ódæðið eftir rannsókn málsins. Jón var einn af síðustu Íslendingunum sem voru dæmdir til dauða en síðar náðaður af kongungi.

Þunguð eftir yngri mann

Guðfinna Jónsdóttir var 33 ára gömul, vinnukona á bænum Svartárkoti í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu. Vorið 1891 varð hún þunguð eftir mun yngri mann,  hinn 21 árs gamla Jón Sigurðsson, vinnumann á bænum Mýri í sömu sveit, en þau voru ekki trúlofuð. Höfðu þau verið vinnuhjú í Svartárkoti í tvö ár frá vorinu 1889 til 1891.

Þann 12. september, þegar meðgangan var nærri hálfnuð, kom Jón að Svartárkoti og vitjaði Guðfinnu. Hann gisti á bænum um nóttina og húsfólk sá að hann talaði einslega við hana í baðstofunni um morguninn áður en hann hélt á brott. Guðfinna var ákaflega glöð í bragði og sagði heimilisfólkinu að Jón hefði verið óvanalega hlýlegur við hana í heimsókninni.

Þennan sama dag ræddi Guðfinna við húsmóðurina og bað um fararleyfi um daginn. Húsmóðirin var treg til, en þá var slæmt veður og mikið hvassviðri. Hún lét þó tilleiðast og Guðfinna bjó sig samstundis til fararinnar, skipti um föt og batt klút um höfuð sér.

Undarleg hegðun

Jón hafði farið frá Svartárkoti og inn að Víðikeri þar sem réttir voru í gangi. Átti sumt af fénu að fara á bæ handan við Skjálfandafljót og bauðst hann til þess að reka það. En hann sagðist fyrst þurfa að sækja tvær kindur sem hann sagðist hafa séð við Svartá.

Reið hann greitt í burtu einn síns liðs og hitti samferðamenn sína í rekstrinum klukkutíma síðar við fljótið. Engar kindur var hann hins vegar með, en var augsýnilega blautur. Um leið og hann mætti þeim tók hann eina kind úr hópnum og óð með hana út í fljótið. Tóku samferðamenn hans sérstaklega eftir þessu undarlega athæfi. Þegar á leiðarenda var komið reið Jón umsvifalaust heim til sín að Mýri.

Benedikt Sveinsson
Sýslumaður sem sá um rannsókn málsins.

Líkið á grúfu

Um kvöldið tók heimilisfólkið í Svartárkoti eftir því að Guðfinna hafði ekki skilað sér heim úr leyfinu. Þótt hún væri í sambandi við mann á öðrum bæ fannst fólkinu undarlegt að hún hefði gist annars staðar en heima hjá sér án þess að láta vita. Önnur vinnukona á bænum og góð vinkona Guðfinnu hafði illan grun um að eitthvað hefði komið fyrir hana og hélt snemma af stað næsta morgun til að leita hennar.

Vinkonan kom hins vegar tómhent heim um kvöldið og hafði Guðfinna þá ekki skilað sér. Var þá safnað í þrettán manna sveit til að leita hennar morguninn eftir. Leitin bar hins vegar sama árangur.

Þann 16. september fannst Guðfinna loksins, látin í Svartá. Líkið lá á grúfu á grynningunum og flaut ekki yfir það. Var hún þegar færð í Svartárkot og húsbóndinn útvegaði kistu fyrir hana.

Þótti fólki þetta fráfall ansi grunsamlegt og töldu sumir að um morð væri að ræða. Riðið var að Héðinshöfða á Tjörnesi þar sem Benedikt Sveinsson, sýslumaður í Þingeyjarsýslum, bjó, og honum skýrt frá málavöxtum. Benedikt sendi erindi til amtmanns og reið svo að Svartárkoti. Þorgrímur Johnsen, héraðslæknir á Akureyri, var sóttur til þess að kryfja lík Guðfinnu þann 24. september.

Viðstaddur krufninguna

Grunur féll snemma á Jón, ástmann Guðfinnu. En aðrir fjárleitarmenn voru yfirheyrðir af Benedikt á undan Jóni. Benedikt og Þorgrímur ákváðu að best væri að Jón yrði viðstaddur krufninguna. Var því krufningunni frestað þar til Jón hafði verið sóttur.

Þegar Jón kom að Svartárkoti hafði lík Guðfinnu verið þvegið og lagt á fjalir. Þorgrímur byrjaði að skera og varð Jóni auðsýnilega brugðið við þessa sjón. Hann reyndi þó að halda stillingu sinni. Var höfuð hennar, brjósthol og kviður opnaður og eftir það sagði Þorgrímur að hún hefði dáið köfnunardauða. Ekkert vatn var í lungunum og því hefði hún verið kæfð áður en hún endaði í ánni. Var Jóni síðan sleppt.

Kæfði hana með vettlingi

Benedikt reið þangað sem líkið hafði fundist. Hann spígsporaði um og fann spor eftir karlmannsskó örlítið ofar við ána. Var lögun sporsins nokkuð einkennileg og skar Benedikt það út úr jarðveginum til að taka með sér.

Það var á þessum tímapunkti sem Benedikt sendi skrifara sinn að Mýri til að handtaka Jón til að mæla þann skó er hann hafði klæðst umræddan dag. Passaði skórinn eins og flís við rass og var Jón færður í varðhald á Húsavík í kjölfarið.

Ekki leið langur tími uns Jón viðurkenndi að hafa myrt verðandi barnsmóður sína. Hafði það gerst á þessum klukkutíma sem hann brá sér frá fjárrekstrinum. Athæfið undarlega var til að reyna að fela útganginn á honum fyrir félögunum.

Jón viðurkenndi að hafa beðið Guðfinnu að koma á þennan stað. Þegar hún heilsaði honum gekk hann beint að henni, yfirbugaði hana og stakk vettlingnum sínum ofan í kokið á henni. Síðan lokaði hann fyrir nef og munn með höndinni þar til hún gaf upp andann. Fleygði hann þá líkinu í ána og reið aftur af stað.

Í yfirheyrslu kom fram að Guðfinna hefði gengið mjög á eftir Jóni, en hann orðið henni afhuga. Ástæðuna fyrir morðinu sagði hann vera að þau hefði verið „ólík í lund“ og hann var hræddur um að foreldrum hans myndi ekki hugnast ráðahagurinn. Þegar hann hafi beðið hana að slíta sambandinu hafi hún verið ófús til þess og tekið af honum hjúskaparloforð. Sagðist hann þó aldrei hafa sagst ætla að giftast henni. Taldi hann að eina ráðið til að losna við Guðfinnu væri að drepa hana. Viðurkenndi hann að hafa ákveðið þetta þremur vikum áður en hann lét til skarar skríða.

Stokkhúsið
Alræmt fangelsi í Kaupmannahöfn þar sem Íslendingar voru oft sendir.

Dæmdur til dauða en náðaður

Var málið talið fullrannsakað. Þann 12. október þetta sama ár var réttað yfir Jóni og hann fundinn sekur um morðið. Var hann dæmdur til dauða og sá dómur staðfestur af Hæstarétti tveimur árum síðar.

Athugið: Í helgarblaði DV var ranglega sagt frá því að Jón hefði tekið eigið líf í fangaklefa í Kaupmannahöfn, það er áður en átti að taka hann af lífi. Beðist er velvirðingar á þeim leiðu mistökum sem byggðu á röngum fréttaflutningi í dagblöðum frá árinu 1893. Var sagt að Jón hefði molað á sér höfuðið í klefanum og heilasletturnar farið út um allt.

Vökulir lesendur helgarblaðsins bentu blaðamanni á að Jón var vistaður í hegningarhúsinu eftir dóminn en ekki sendur til Kaupmannahafnar. Árið 1904 var hann náðaður og honum sleppt úr haldi. Ástæðan var heilsuleysi og góð hegðun í fangelsinu. Jafn framt væri hann undir eftirliti, eða nokkurs konar skilorði, í einhvern tíma.

Jón fluttist til Húsavíkur og lést árið 1947. Var hann uppnefndur Jón morðingi og stundum Jón morri þegar hann bjó þar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Segir frá kjaftasögu sem gengur úr Vesturbænum – Áhugaverð ástæða þess að Óskar Hrafn tekur ekki við liðinu

Segir frá kjaftasögu sem gengur úr Vesturbænum – Áhugaverð ástæða þess að Óskar Hrafn tekur ekki við liðinu
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Bílastæðasjóður Reykjavíkurborgar tekur fleiri götur til sín

Bílastæðasjóður Reykjavíkurborgar tekur fleiri götur til sín
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Loka samfélagsmiðlum næsta mánuðinn

Loka samfélagsmiðlum næsta mánuðinn
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Kompany vill kaupa varnarmann Liverpool í sumar

Kompany vill kaupa varnarmann Liverpool í sumar
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Kveiktu bál og köstuðu fötum yngri barna í eldinn – „Honum er brugðið en bar sig vel“

Kveiktu bál og köstuðu fötum yngri barna í eldinn – „Honum er brugðið en bar sig vel“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Hausverkur Southgate – Lykilmaður veikur í dag og æfði ekki

Hausverkur Southgate – Lykilmaður veikur í dag og æfði ekki
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Ætlaði að smána karlinn í röðinni en það kom í bakið á henni

Ætlaði að smána karlinn í röðinni en það kom í bakið á henni
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Þrír enskir Íslandsvinir hittust og ræddu um tapleikinn – „Þetta skiptir ekki miklu máli er það?“

Þrír enskir Íslandsvinir hittust og ræddu um tapleikinn – „Þetta skiptir ekki miklu máli er það?“