Þriðjudagur 02.mars 2021

Aðalheiður lét fjarlægja eitur úr líkama sínum: „Það er ekkert útlit þess virði að missa heilsuna“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 26. febrúar 2020 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalheiður Ósk Þorsteinsdóttir var 28 ára þegar hún ákvað að fá sér brjóstapúða. Þetta var í september 2011 en í byrjun árs 2012 fór heilsu hennar verulega hrakandi. Næstu átta árin lifði Aðalheiður í líkama sem hún þekkti ekki. Líkama sem var stöðugt verkjaður og uppgefinn. Hún gat heldur ekki treyst á hausinn vegna heilaþoku og minnisleysis.

Loksins hitti hún á lækni sem hlustaði á hana. Í kjölfarið lét hún fjarlægja brjóstapúðana og þá kom í ljós að einn þeirra var sprunginn. Öll þessi ár hafi púðinn verið að eitra fyrir henni og gera hana veika. Það eru aðeins liðnir nokkrir dagar síðan Aðalheiður fór í aðgerðina og kveðst hún strax finna mikinn mun á líðan sinni.

Hún segir DV sögu sína í von um að vekja athygli á málinu.

„Tilgangurinn með því að stíga fram er bæði til að konur sem eru með þessi einkenni hlusti á líkamann og láti fjarlægja þessa púða, því þegar maður er orðinn svona illa haldinn af veikindum þá hefur maður engu að tapa. Og svo fyrir hinar stelpurnar sem eru að hugsa um að fá sér brjóstapúða, þá er ekkert útlit þess virði að missa heilsuna, bara ekki neitt,“ segir hún.

Þokukennd ár

„Árin síðan ég fékk mér þessa brjóstapúða eru í hálfgerðri þoku. Ég man ekkert hlutina eins og ég man fyrir 2011,“ segir Aðalheiður.

Í byrjun árs 2012 byrjuðu hinir ýmsu kvillar að koma upp, eins og heilaþoka, orkuleysi og húðútbrot. Hún lýsir fleiri einkennum sem hún hefur fundið fyrir síðastliðin átta ár.

„Ég hef fengið mjög sársaukafull þrálát útbrot um allan líkama sem húðlæknar hafa reynt að hjálpa mér að losna við með sterum og ljósameðferðum. Ég hef einnig fengið ofsakláða um allan líkamann, stundum hefur það verið svo slæmt að ég gat ekki sofið og hef þurft að nota sterkar ofnæmis- og kláðastillandi töflur,“ segir hún og lýsir sárum verkjum í brjóstunum, sérstaklega því vinstra.

„Önnur einkenni sem ég hef fundið fyrir eru hátíðnihljóð í eyrum, vöðvakippir, liðverkir, bólgur og verkir um allan líkama,  hausverkur sem hefur magnast með árunum og verið hluti af daglegu lífi, hjartsláttartruflanir sem eiga sér engar skýringar – þrátt fyrir rannsóknir. Heilaþoka og minnisleysi sem hefur versnað svo mikið að ég fór í rannsóknir og heilaskanna til að útiloka æxli og blæðingar, síþreyta og orkuleysi og vandamál með maga – sem lýsa sér sem óþol fyrir hinum ýmsu matvælum,“ segir hún.

„Ég þarf varla að taka það fram hvaða áhrif þetta hefur haft á andlega heilsu. Hvað þá þegar læknar hrista hausinn yfir manni og öllu þessu röfli eða ímyndun,“ segir Aðalheiður.

Fyrir nokkrum árum grunaði Aðalheiði að það væri ekki allt með felldu.

Leitaði til lýtalæknis

Fyrir um tveimur til þremur árum síðan grunaði Aðalheiði að það væri ekki allt með felldu varðandi brjóstapúðana.

„Ég fór til lýtalæknisins sem setti púðana í brjóstin á mér á sínum tíma, því vinstra brjóstið var alltaf allt öðruvísi en hitt. Það var hart, ég var með sting í því og alls konar óþægindi. Sá læknir sagði að það væri ekkert að brjóstinu á mér og þau litu bara vel út. Ég var ótrúlega þreytt á þessu og ákvað að leita álits hjá öðrum lækni sem er frekar virtur í þessum bransa. Hann segir það nákvæmlega sama og hinn læknirinn, og ég varð bara ógeðslega svekkt. Nennti ekki að spá í þetta, fannst ekki að hlustað væri á mig og var bara veik,“ segir hún.

Greind með vefjagigt

Aðalheiður leitaði margsinnis til læknis en enginn læknir tengdi einkennin saman. Frekar var hvert einkenni meðhöndlað fyrir sig.

„Það var alltaf verið að reyna að finna bara eitthvað. Eins og ég reykti og það var talið vera orsök höfuðverkja sem ég var stöðugt með. En höfuðverkurinn hafði aldrei verið eins slæmur eins og árin eftir að ég hætti að reykja. Að vera sífellt verkjuð með hátíðnihljóð í eyrum var bara orðinn partur af því að vera til,“ segir hún.

„Síðasta vor var þetta allt skrifað á vefjagigt. Ég var fegin að fá eitthvað nafn á þetta og vita hvað væri að mér. Ég fékk lyf sem síðan virkuðu ekkert. Ég reyki ekki, drekk ekki og nota engin fíkniefni eða önnur efni, og ég hef aldrei verið við jafn slæma heilsu.“

Aðalheiður fór í aðgerð síðastliðinn föstudag.

Sá færsluna

Loksins birti til hjá Aðalheiði þegar hún sá Facebook-færslu hjá íslenskri konu sem hafði veikst vegna brjóstapúða.

„Ég las færsluna og tengdi við svo ótrúlega margt sem hún sagði. Í kjölfarið fór ég að kynna mér þetta frekar og lesa mér til um hvaða læknar á Íslandi eru að hlusta á konur sem líður svona. Því það eru alls ekki allir læknar sem hlusta á konur á Íslandi, segja að við séum móðursjúkar og ímyndunarveikar. Ég kynnti mér þetta mjög vel og endaði hjá lækni sem loksins hlustaði á mig. Hann sagði að það væri augljóst að það væri eitthvað ekki í lagi í vinstra brjóstinu. Hann sagði að ég væri komin með kapsúlu sem þyrfti að fjarlægja og að púðarnir væru komnir á tíma. Hann grunaði að púðinn vinstra megin væri sprunginn og þess vegna væri brjóstið svona hart. Sem var svo rétt, hann var í klessu. Hann var ógeðslegur eins og sjá má á mynd sem ég tók,“ segir Aðalheiður.

Brjóstapúðarnir og örvefurinn sem þurfti að fjarlægja.

Aðalheiði var mjög létt eftir þessa læknisheimsókn. „Mér fannst loksins vera hlustað á mig. Mér fannst hann vera mannlegur, manneskja að tala við aðra manneskju. Mér fannst ég geta treyst honum, en þessi aðgerð sem ég fór í var ekki bara að skera og taka út púða. En púðarnir voru undir vöðva þannig það þurfti að hreinsa allan örvefinn í burtu. Það er áhættumeiri aðgerð,“ segir Aðalheiður.

„Þetta er heilsufarslega búið að vera ótrúlega flókin, leiðinleg og löng leið, og svo núna er ég í bata eftir þessa aðgerð. Svo er ég líka reið að enginn hefur hlustað á mig allan þennan tíma. Ég er ung kona og heilsan mín er á við áttræða manneskju, það er ekkert eðlilegt við það. Ég er mjög ósátt að það hafi ekki verið hlustað á mig.“

Dýr aðgerð

Aðgerðakostnaður kemur úr vasa Aðalheiðar. Hún átti fyrst tíma í aðgerð í byrjun febrúar en endaði með að afpanta aðgerðina því hún hafði ekki efni á henni. En síðan áttaði hún sig á því að hún hafði engra annarra kosta völ en að láta fjarlægja púðana.

„Þar síðustu helgi var vinstra brjóstið mjög heitt og aumt, mikill þrýstingur inn í því. Ég sendi lækninum póst á mánudeginum og fékk tíma í aðgerð á föstudaginn síðastliðinn,“ segir Aðalheiður.

„Aðgerðakostnaður kemur úr mínum vasa og þetta eru peningar sem ég á ekki til. Ég er einstæð fjögurra barna móðir og ligg ekki á einhverjum hundrað þúsund köllum, en ég get ekki verið heilsulaus lengur.“

Að ráðum lögfræðinga sinna getur Aðalheiður ekki birt nöfn né aðrar upplýsingar tengdar málinu.

Gallaður púði eða læknamistök

„Púðarnir er núna hjá lækninum, við erum komin í samband við söluaðila á Íslandi og sendum púðana til Bandaríkjanna þar sem þeir verða rannsakaðir. Þá mun koma í ljós hvort vinstri púðinn hafi hreinlega verið gallaður eða hvort að læknirinn sem setti púðana í á sínum tíma hafi rekið áhald eða eitthvað slíkt í púðann sem hafi valdið þessu rofi,“ segir Aðalheiður.

Þrátt fyrir að púðinn hafi verið rofinn hjá Aðalheiði hafa margar konur orðið veikar vegna brjóstapúða þó svo þeir haldist heilir. Það eru til stórir erlendir Facebook-hópar fyrir konur með BII (Breast implant illness). Það er einnig til íslenskur hópur, BII Ísland. Hér að neðan má sjá einkenni BII.

Aðalheiður er meðlimur í erlendum Facebook-hóp fyrir konur í bata eftir BII. Hún telur sig heppna því margar konurnar í hópnum hafa komið mun verr út úr þessu.

„Ég veit ekki hverjar afleiðingarnar verða fyrir minn líkama til langtíma, en að sjá myndir af þessum konum er skelfilegt. Þær eru margar búnar að missa brjóstin og ónýtar, andlega og líkamlega. Sumar hafa þurft að fara í brjóstnám og sumar eru orðnir svo miklir sjúklingar að þær eru inni á spítala,“ segir hún.

Jákvæð fyrir framtíðinni

Aðalheiður lítur framtíðina björtum augum. Það er ekki einu sinni liðin vika frá aðgerð og hún er laus við mjög slæman verk frá herðablaði upp í háls. Verkur sem háði henni mikið daglega.

„Bólgur í líkamanum eru strax farnar að hjaðna, bringan á mér var alltaf köld en er loksins heit, ég er komin með tilfinningu í geirvörturnar aftur. Þannig ég er bara bjartsýn,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Dæmdir til að borga upp feitan yfirdrátt – Bensinn og loftpessurnar dugðu skammt

Dæmdir til að borga upp feitan yfirdrátt – Bensinn og loftpessurnar dugðu skammt
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Vill ráða Arteta sem knattspyrnustjóra Barcelona

Vill ráða Arteta sem knattspyrnustjóra Barcelona
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Zlatan meiddur og mætir ekki aftur á Old Trafford

Zlatan meiddur og mætir ekki aftur á Old Trafford
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Segir að Real Madrid hafi ekki efni á Salah í sumar

Segir að Real Madrid hafi ekki efni á Salah í sumar
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Hún er 28 ára og hann er 58 ára – „Ástin okkar er eins og hver önnur ást“

Hún er 28 ára og hann er 58 ára – „Ástin okkar er eins og hver önnur ást“
Eyjan
Fyrir 11 klukkutímum

Hannes hjólar í lögreglustjóra – „Eitthvað að embættismönnum, sem er ekki hægt að hringja í án þess að þeir hlaupi með það í fjölmiðla“

Hannes hjólar í lögreglustjóra – „Eitthvað að embættismönnum, sem er ekki hægt að hringja í án þess að þeir hlaupi með það í fjölmiðla“
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Líkur á að Luke Shaw verði ákærður fyrir ummæli sín í gær

Líkur á að Luke Shaw verði ákærður fyrir ummæli sín í gær
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Myndbandsgalli kom upp um stórkostleg photoshop-mistök Kendall Jenner

Myndbandsgalli kom upp um stórkostleg photoshop-mistök Kendall Jenner

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.