fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024

Kristjana Rúna minnist brjóstagjafarinnar með hryllingi: „Þetta var kvöl sem ég mun aldrei gleyma“

Amare
Þriðjudaginn 13. nóvember 2018 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég gekk með mitt fyrsta barn árið 2011 og 2012 þá hugsaði ég ekki mikið út í brjóstagjöfina, og þar sem hún var ekki til umræðu hafði ég engar áhyggjur af henni.

Ég fór á fæðingarnámskeið með barnsföður mínum og reyndi að undirbúa mig sem mest fyrir fæðinguna og að vera með allt tilbúið fyrir barnið eftir níu mánuði af tilhlökkun að verða þriggja manna fjölskylda.

Það var farið yfir „allt” í mæðraskoðuninni, en það var aldrei minnst á brjóstagjöfina, ekki einu sinni, á þessum tíma var ekki talað um þetta, ég vona að það sé búið að breytast í dag.

Nú ætla ég að reyna draga upp minningarnar sem fylgdu brjóstagjöfinni hjá mér. Því ver og miður eru þær ekki góðar.

Kristjana Rúna með syni sínum

Vildi ekki halda á syni sínum eftir fæðinguna

Þetta byrjar svo að ég upplifi mikið áfall í fæðingunni sjálfri, hún endaði í bráðakeisara með 20 mínútna glugga til að koma syni mínum lifandi í heiminn eftir 30 klukkutíma við að reyna að fæða hann.

Ég var orðin mjög veikburða, með hita og ælandi. Satt að segja var ég mjög illa á mig komin þegar ég lá á skurðarborðinu, átti erfitt með að anda og var illa áttuð. Ég man eftir einni rödd sem kallaði nafnið mitt reglulega til að fá viðbrögð frá mér, röddin hans ómar enn í hausnum á mér þegar ég rifja upp þessa minningu.

Ég skalf svo skelfilega mikið eftir þetta allt að ég gat ekki haldið á syni mínum í langan tíma eftir fæðinguna og í minningunni vildi ég það ekki heldur. Fyrst um sinn hvarf ég alveg inn í mig, uppgefin og verkjuð vildi ég bara fá að vera í friði, ég upplifði svo mikinn ótta um líf sonar míns og mitt eigið að ég var í panikki allan tímann, þetta var áfall sem skildi eftir sig djúp ör.

Af hverju segi ég frá þessari erfiðu reynslu í fæðingunni þegar ég ætla að tala um brjóstagjöf?

Af því að ég trúi því að andleg heilsa móður geti líka haft mikil áhrif á hvernig brjóstagjöfin á eftir að ganga.

Ég fæddi stóran og fallegan strák (18 merkur) sem kom í heiminn svangur, um leið og ég gat þá setti ég hann á brjóstið en hann grét svo sárt, því það kom ekki dropi frá mér. Hann fékk því ábót frá fyrsta degi.

Ég fór eftir því sem mér var sagt, að leggja hann reglulega á til örva framleiðsluna.

Í um tvo mánuði var þetta full reynt, geðheilsan mín var komin í þrot, ég var með blæðandi sár, sýkingu og með verki inn í brjóstin. Reyndi mexikó hatta, allskonar krem, sársaukinn við að gefa barninu mínu að borða var svo mikil að ég grét í hvert skipti, þetta var kvöl sem ég mun aldrei gleyma, það kom aldrei nógu mikið af mjólk.

Hugsanirnar mínar voru á þessa leið:

Ég var misheppnuð móðir því ég get ekki gefið brjóst, eitthvað sem á að koma náttúrulega var ekki að virka hjá mér, ég var hrædd um að tengjast ekki barninu mínu og bestu fæðuna fyrir son minn gat ég ekki veitt honum.

Hversu skelfilegt fyrir nýbakaða móður að upplifa sig sem misheppnaða. Þetta er tíminn fyrir tengslamyndun og til þess að dást að þessari fallegu nýju sál, en í staðin var þetta kvöl og pína sem ég naut alls alls ekki.

Mig kveið fyrir næstu gjöf og varð pirruð þegar hann grét, þetta var allt saman orðið of mikið.

Það sáu þetta ekki margir, enda passaði ég það vel að engin myndi taka eftir því hvernig ég væri orðin en ég gat þó ekki falið tárin fyrir nánasta fólkinu í kringum mig.

Ég vissi að þetta væri ekki eðlileg líðan og leitaði eftir hjálp í ungbarnaeftirlitinu, ég var greind með fæðingarþunglyndi. Ég þurfti þó að hringja oft og minna á mig áður en aðstoðin barst. Þarna bjó ég í Keflavík. Fæðingarþunglyndi getur verið stórhættulegt og því mikilvægt að bregðast hratt við.

Andleg heilsa hafði áhrif á brjóstagjöfina

Eftir að ég gafst upp og byrjaði að gefa barninu mínu pela með þurrmjólk fór allt að breytast, loksins kom það sem ég þráði svo heitt, tengingin!

Ég setti mig í sömu stellingar eins og ég væri að gefa brjóst nema ég hélt á pelanum og naut þess svo innilega.

Ég sá mest eftir að hafa ekki gefist upp fyrr og hætt þessari vitleysu sem var í gangi. Það var systir mín sem gaf mér þau hughreystandi orð um að það væri ekkert að því ef þetta gengi ekki upp.

Þessi orð breyttu öllu og Guð hvað ég er þakklát fyrir það að einhver gat sagt þetta við mig, það var bæði ótrúlega gott að geta gefist upp og sárt að fá ekki að upplifa góða brjóstagjöf.

Ég trúi því að andlega heilsan mín sem var í molum eftir fæðinguna gerði þessa reynslu enn verri, ég var óörugg, langt niðri og mig vantaði aðstoð.

Trúir því að hægt sé að koma í veg fyrir þetta

Ég trúi því líka að það sé hægt að einhverju leyti að koma í veg fyrir þessar hörmulegu tilfinningar sem mæður fara í gegnum þegar miklir erfiðleikar koma upp í brjóstagjöfinni.

Ræða um þessa hluti í mæðraskoðuninni væri fyrsta skrefið, tala um hvað getur farið úrskeiðis, hvert er hægt að leita þegar það gerist og segja okkur hreint út að ekki allar mæður geta gefið brjóst (ég veit ekki hvort það sé byrjað í dag).

Sannleikurinn er sá að það geta þetta ekki allar af einhverri ástæðu og það er líka bara allt í lagi. Það þarf að forðast að láta þær fara of langt í að reyna og taka tillit til andlegu heilsu móðurinnar, hefði ég fengið að vita að brjóstagjöf gengi ekki alltaf upp áður en barnið kom þá er ég nokkuð viss um að ég hafði ekki farið svona langt niður, þó vissuleg sé erfitt að geta ekki. Ég reyndi allt og ég reyndi of lengi á kostnað heilsu minnar.

Skömmin á ekki að liggja á mæðrunum

Sleppa því algjörlega að koma inn samviskubiti hjá okkur ef þetta gengur ekki og líka að virða þær óskir ef mæður hreinlega velja að sleppa þessu frá byrjun.

Strákurinn minn er enn þá mjög stór og flottur strákur, þrátt fyrir að hafa fengið þurrmjólk en ekki brjóstamjólk, hversu heppin er ég að það hafi og sé möguleiki.

Við erum ekki verri mæður fyrir vikið og skömmin á ekki liggja á okkar herðum, það er ekkert sem ég hefði getað gert öðruvísi til að láta brjóstagjöfina ganga upp, ég meira að segja gekk of langt.

Ég fann ekki mikið fyrir fordómum út af pelagjöf, það voru aðallega eldri konur sem létu mig alveg vita hvað þeim fannst um þetta. Konur sem voru fastar í öðrum tíma og voru með úreltar skoðanir.

Það er í lagi þó þetta gangi ekki upp

Desember 2014 kom annar drengur, þarna var ég undirbúin og vissi hvað ég var að fara út í, brjóstagjöfin gekk betur að því leyti að ég slapp við sár og verki, eina var að mjólkurframleiðslan var ekki nógu mikil og þar finnst mér andlega heilsan spila líka inn í þar sem mikið hafði gengið á fyrir fæðingu og eftir hana. En ég fékk að upplifa tenginguna í gegnum brjóstagjöf sem ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa eftir fyrri reynslu. En þurrmjólkin varð hans aðal fæða frá þriggja mánaða.

Við erum allskonar, við erum ólíkar, það er ekkert eitt sem er réttara en annað, virðum hvort annað og okkar ákvarðanir.

Ef það er einhver ný móðir sem er að ströggla við brjóstagjöf, mundu að það er allt í lagi að hætta að reyna, það er allt í lagi þó þetta gangi ekki upp hjá þér, andlega heilsan þín er mikilvægari og þú ert ekki minni móðir fyrir vikið, eina sem skiptir máli er að bæði móðir og barni líði vel.

 Færslan er skrifuð af Kristjönu Rúnu og birtist upphaflega á Amare.is 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Ten Hag neitaði að svara spurningum frá þremur miðlum

Ten Hag neitaði að svara spurningum frá þremur miðlum
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Lét sig hverfa ein og berfætt á Ítalíu – „Þegar ég skoða myndir af mér á þessum tíma þá sést alveg greinilega að ég er mjög veik“

Lét sig hverfa ein og berfætt á Ítalíu – „Þegar ég skoða myndir af mér á þessum tíma þá sést alveg greinilega að ég er mjög veik“
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Nýr veruleiki blasir við Láru eftir aflimanir – „Stundum getur útlitið orðið of svart, stundum er ekki hægt að snúa til baka“

Nýr veruleiki blasir við Láru eftir aflimanir – „Stundum getur útlitið orðið of svart, stundum er ekki hægt að snúa til baka“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik
Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Telur að þetta hafi aftrað Strákunum okkar á stórmótum – „Til háborinnar skammar“

Telur að þetta hafi aftrað Strákunum okkar á stórmótum – „Til háborinnar skammar“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Barnaskólakennari drap manninn sinn og gróf líkið úti í garði

Barnaskólakennari drap manninn sinn og gróf líkið úti í garði
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Leicester aftur í úrvalsdeildina eftir slæmt tap Leeds

Leicester aftur í úrvalsdeildina eftir slæmt tap Leeds
Pressan
Fyrir 17 klukkutímum

Keypti sjö líftryggingar fyrir eiginkonuna og svo dó hún á dularfullan hátt

Keypti sjö líftryggingar fyrir eiginkonuna og svo dó hún á dularfullan hátt
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Allt klappað og klárt – Arne Slot tekur við Liverpool

Allt klappað og klárt – Arne Slot tekur við Liverpool