fbpx
Föstudagur 22.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Seth Sharp vill efla raftónlistarmenningu á Íslandi: „Við viljum ekkert VIP-kjaftæði“

Tómas Valgeirsson
Föstudaginn 24. ágúst 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríski leikarinn og tónlistarmaðurinn Seth Sharp hyggst skapa ákveðna „rave“ stemningu á laugardaginn í Iðnó með hópnum Plur Iceland. Um er að ræða svokallaða EDM-hátíð sem leggur áherslu á rafræna danstónlist. Seth er einn af þremur meðlimum hópsins ásamt þeim Júníusi Þorsteinssyni og Hirti Andra Hjartarsyni. „Plur er alþjóðlegt lífsstílshugtak fyrir rave-menningu og er þetta skammstöfun fyrir Peace, Love, Unity, Respect,“ segir Seth og tekur fram að markmiðið með hópnum sé að koma EDM almennilega til Íslands í von um að styrkja hana.

Strákarnir á bak við Plur Iceland.

Seth segir hvatann að samsetningu hópsins, fyrir utan sameiginlegan tónlistarsmekk, hafa orðið til á skemmtistaðnum Glaumbar. „Þegar ég aðstoðaði við reksturinn á Glaumbar tókst okkur að skapa andrúmsloft sem mig langaði til þess að endurskapa með klúbbi. Ég vildi huggulegt andrúmsloft þar sem allir væru velkomnir, sama hvaða stétt eða bakgrunni viðkomandi tilheyrði. Við viljum ekkert VIP-kjaftæði,“ segir Seth. „Með Plur Iceland vildi ég einhvern veginn binda saman þessi hugtök um frið, ást, sameiningu og virðingu. Ég er svolítill hippi í mér, en þetta eru gildin sem ég trúi almennt á.“

Klikkaði draumurinn sem varð að veruleika

Seth hefur aldeilis farið um víðan völl. Hann hefur komið að fjöldamörgum tónlistarsýningum, leiksýningum og sjónvarpsþáttum. Einnig hefur hann sinnt störfum sem raddþjálfari, þar á meðal fyrir popphljómsveitina Scissor Sisters. Þar að auki var hann yngsta manneskjan í Connecticut-fylki í Bandaríkjunum til þess að stýra sínum eigin útvarpsþætti sem plötusnúður, en þá var hann aðeins þrettán ára gamall. Seth hefur jafnframt hlotið verðlaun frá NAACP, hagsmunasamtökum þeldökkra í Bandaríkjunum, fyrir afrek sín í tónlistinni.

Að sögn tónlistarmannsins var hann haldinn þráhyggju fyrir Íslandi í æsku, sem hófst einn daginn þegar hann las um landið í alfræðiorðabók. Einnig spilar sú staðreynd inn í að hann hrífst gífurlega af kulda. „Ég ákvað að ég þyrfti að flytja þangað einhvern daginn, enda ákveður maður hina klikkuðustu hluti þegar maður er krakki,“ segir Seth. „Málið er einfaldlega þannig að ég elska kulda og ein ástæðan fyrir því að ég flutti til Íslands var sú að mig langaði til þess að vera í miklum kulda. Ég hefði í rauninni flust á norðurskautið ef móðir mín hefði ekki mælt gegn því.“

Lítill heimur minnkaði

Seth segir að fjölskylda hans hafi alið hann upp á jákvæðum gildum og leit hann mikið upp til aðgerðasinna sem börðust fyrir mannréttindum og afnámi aðskilnaðar á milli svartra og hvítra, til að mynda Martins Luthers King og Rosu Parks. Hann rifjar upp undrunarsvip sinn þegar hann komst að því að hann væri skyldur öðru þeirra.

„Fjölskylda mín hefur alltaf verið á fullu í mannréttindabaráttu. Þegar ég var í gagnfræðaskóla fékk ég tækifæri til þess að hitta Rosu Parks, eitt af átrúnaðargoðum mínum. Mér hafði alltaf fundist hún æðisleg og svo kom í ljós í miðju spjalli að hún væri á leiðinni á eitthvert ættarmót þá helgi. Ég man ekki hvernig umræðan kom upp, en sjálfur var ég á leiðinni á ættarmót og spurði hana: „Bíddu, hvar eiginlega?“ Þá nefndi hún staðsetninguna og kom þá í ljós að hún og amma mín voru frænkur,“ segir Seth og bætir við: „Og ég hélt að Ísland væri lítill heimur!”

Rosa Parks er þekktust fyrir að neita að standa upp fyrir hvítum manni í strætisvagni í bænum Montgomery í Alabama-fylki þann 1. desember árið 1955. Á þeim tíma voru fremstu bekkirnir í strætisvögnum í Montgomery ætlaðir hvítum.

Sonur forsetans gríðarlegur áhrifavaldur

Seth tekur fram að Rosa Parks og Martin Luther King hafi verið þeir áhrifavaldar sem hvöttu hann og fjölskyldu hans til þess að vera opin gagnvart öllu fólki. „Þau kenndu okkur að fólk í réttindastöðu ætti að nota þá aðstöðu til þess að hjálpa öðrum og opna dyr fyrir öðrum, frekar en að halla sér aftur og njóta hennar sjálf,“ segir Seth.

Bætir hann þá við að annar frægur einstaklingur hafi eflt þetta hugarfar. „Móðir mín starfaði eitt sinn sem leikhússtýra í búðum fyrir forréttindalaus börn. Aðstoðarmaður hennar þar var enginn annar en John F. Kennedy yngri, sonur forsetans,“ segir hann.

„Hann var önnur fígúra sem ég kynntist sem hafði gríðarleg áhrif á mig. Hér var maður sem fólk sá sem einhvern „Bandaríkjaprins,“ með allan þennan pening, og konur flykktust að honum. Hins vegar hann eyddi hann sumrum sínum sem aðstoðarmaður mömmu minnar, í fátæklegum búðum sem kenndu börnum leiklist. Þetta þótti mér alveg magnað og finnst að fleiri ættu að taka sér svona hugarfar til fyrirmyndar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Kynning
Fyrir 1 klukkutíma

EM Sendir: Persónulega og hjálpsama sendibílaþjónustan

EM Sendir: Persónulega og hjálpsama sendibílaþjónustan
Eyjan
Fyrir 1 klukkutíma

Kostar 1,4 milljarða að malbika 35 kílómetra í Reykjavík í sumar

Kostar 1,4 milljarða að malbika 35 kílómetra í Reykjavík í sumar
433
Fyrir 3 klukkutímum

Ísland hefur aldrei fengið mark á sig gegn Andorra

Ísland hefur aldrei fengið mark á sig gegn Andorra
Matur
Fyrir 3 klukkutímum

John Legend fær sér óvenjulegan morgunmat: Eiginkonan fékk áfall í fyrstu

John Legend fær sér óvenjulegan morgunmat: Eiginkonan fékk áfall í fyrstu
433
Fyrir 4 klukkutímum

Pochettino reynir aftur og nú hefur verðmiðinn lækkað

Pochettino reynir aftur og nú hefur verðmiðinn lækkað
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Svona dílar Camilla Rut við gagnrýni: „Það var erfitt þá en ég er þakklát fyrir það í dag“

Svona dílar Camilla Rut við gagnrýni: „Það var erfitt þá en ég er þakklát fyrir það í dag“