fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

„Við vorum ekki búnir undir frægðina“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 20. maí 2019 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breska poppsveitin Duran Duran var lengi vel vinsælasta hljómsveitin hér á landi og aðdáendurnir einhverjir þeir staðföstustu. Hún var stofnuð árið 1978 og varð fljótlega heimsþekkt. Duran Duran hefur gengið í gegnum miklar mannabreytingar í gegnum tíðina en um aldamótin komu upprunalegu meðlimir sveitarinnar aftur saman og hafa starfað sleitulaust síðan þá. Munu þeir troða upp í Laugardalshöllinni þann 25. júní næstkomandi. DV ræddi við Roger Taylor, trymbil Duran Duran, um tónlistina, sögu sveitarinnar, frægðina og fleira.

 

„Ég þekki Björk“

Duran Duran kom hingað til lands árið 2005 og hélt tónleika í Egilshöll. Roger Taylor man vel eftir þeim tónleikum. Hann segir:

„Ég hef mikið hugsað um þá. Þetta var frábært kvöld og heimsókn. Þá var ekki langt síðan við komum saman aftur og það var mikið að gera hjá okkur. Því miður höfðum við ekki mikinn tíma til að skoða okkur um. Við stoppuðum hérna í aðeins tvær nætur. En ég man að þetta er heillandi staður og eftirminnilegur.“

Þekkir þú íslenska tónlist?

„Ég þekki Björk,“ segir Roger eftir smá hik og hlær.

Hverju megum við eiga von frá ykkur núna?

„Við höfum gefið út nokkrar plötur síðan við komum síðast. Tónlistarsafnið hefur því stækkað og tónleikarnir verða sífellt fullgerðari, ef svo má segja. Við elskum samt að spila gömlu lögin, hittarana frá því snemma á níunda áratugnum. Við hlökkum mikið til að koma.“

 

Flóttinn frá Birmingham

Duran Duran-liðar koma frá borginni Birmingham, í Miðlöndunum í Englandi. Borgin var lengi vel grámygluleg iðnaðarborg, en tónlistarlífið hefur alltaf verið blómlegt. Til að mynda þá er Birmingham fæðingarstaður þungarokksins. Hljómsveitirnar Black Sabbath og Judas Priest komu þaðan, einnig Robert Plant og John Bonham úr rokksveitinni Led Zeppelin, og ELO.

„Ég er alinn upp í verkamannastétt. Birmingham var miðpunktur bílaiðnaðarins í Bretlandi og faðir minn starfaði hjá Rover-verksmiðjunum. Allir í minni fjölskyldu, marga ættliði aftur, unnu með höndunum. Sem trommari geri ég það nú upp að vissu marki líka,“ segir Roger og hlær. „Þetta var verkafólk en faðir minn elskaði tónlist og smitaði mig af þeim áhuga. Þegar hann kom heim á kvöldin kenndi hann mér á klassískan gítar, spænskan gítar og hvað sem hann gat komið höndum yfir. Ég kenndi mér sjálfur að spila á trommurnar þegar ég var tólf ára og varð sá fyrsti í minni fjölskyldu til að sleppa úr hinu hefðbundna verkamannalífi. Faðir minn hafði mikla trú á sjálfkennslu, að maður gæti lært nánast hvað sem er ef maður læsi nógu mikið og æfði sig. Ég á honum og hans heimssýn mikið að þakka.“

Hafði harða rokkið áhrif á þig?

„Ég fór og sá flest þessi bönd sem unglingur og þau gerðu það að verkum að við höfðum trú á að það væri hægt að komast burt og „meika ’ða.“ Við fórum allt aðra leið og vorum að einhverju leyti undir áhrifum frá pönkbylgjunni. En þessi eldri og þyngri bönd gáfu okkur trúna.“

 

Planið leit vel út á blaði

Roger segir að Duran Duran hafi ekki tekið sig af neinni léttúð í upphafi. Þeir voru með áætlun um að sigra heiminn, jafn vel áður en ein einasta nóta var komin niður á blað.

„Við vorum aðeins rétt byrjaðir, John (Taylor) var nýbúinn að skipta úr gítar yfir í bassa, Nick (Rhoads) var nýbúinn að kaupa sér hljómborð. Við vorum ekki enn komnir með söngvara. Við vissum í raun ekkert hvað við vorum að gera, en við ætluðum að spila í Madison Square Garden í New York innan tveggja ára. Það var brjáluð hugmynd því við vorum ekki einu sinni komnir með umboðsmann. Tímaramminn stóðst ekki alveg, en við spiluðum í Madison Square Garden árið 1983, fimm árum eftir að hljómsveitin var stofnuð. Og við gerðum það af krafti viljans eintómum.“

Á þessum tíma varð Duran Duran eitt stærsta band heimsins, hljómsveitin seldi milljónir platna, spilaði um allan heim og var mikill frumkvöðull í myndbandagerð. Gula pressan og paparassar hundeltu þá og fjölluðu um hverja hreyfingu.

Voruð þið búnir undir frægðina?

„Nei,“ segir Roger og flissar. „Við vorum ekki búnir undir frægðina. Þessi áætlun okkar leit mjög vel út á blaði og ég hafði viljað vera í stóru rokk- eða poppbandi síðan ég var tólf ára. En þegar þetta raungerðist vorum við ekki undirbúnir. Við vorum rúmlega tvítugir, með milljónir inni á bankareikningum, ekkert einkalíf. Við vorum líka allir frægir, ólíkt mörgum öðrum böndum þar sem einn eða tveir verða stórstjörnur. Ég myndi ekki vilja fara aftur í tímann og breyta neinu því þetta kom okkur á þann stað sem við erum á í dag. En, nei, við vorum langt því frá undirbúnir. Við gátum ekki gengið úti á götu án þess að ljósmyndari væri að elta okkur.“

Eins og oft vill verða þá fylgir töluvert partíhald lífinu á tónleikaferðalögum. Roger segir að það hafi alveg átt við um Duran Duran.

„Já, kannski misstum við stjórnina nokkrum sinnum,“ segir Roger og hlær dátt. „Ef þú tekur nokkra tvítuga gutta, dælir peningum inn á reikningana þeirra og sendir þá í kringum hnöttinn þá mun alltaf eitthvað misjafnt gerast. Við vorum hömlulausir á þessum tíma, fullir af krafti og sköpunargleði. Vegna frægðarinnar þá bólgnaði sjálfsálitið líka. Á tónleikaferðalagi er mikið af dauðum tíma. Maður er á sviði í klukkutíma og þarf einhvern veginn að fylla tímann. Alltaf á nýju hóteli og í nýrri borg. Hvað gerir maður þá? Jú, maður djammar. Hjá okkur var þetta sennilega ansi villt um tíma.“

 

Vildi venjulegt líf

Árið 1986 sagði Roger Taylor skilið við Duran Duran. Þá var hljómsveitin á hápunkti frægðarinnar. Árið áður áttu þeor lagið A View to a Kill úr samnefndri James Bond kvikmynd og spiluðu á styrktartónleikunum Live Aid sem einn og hálfur milljarður manns fylgdist með í sjónvarpi.

„Ég þurfti að stíga til hliðar um tíma. Á þessum tíma var allt orðið svolítið brjálað. Við vorum fyrsta hljómsveitin sem var í blöðunum á hverjum degi. Ritstjórar gulu pressunnar ákváðu að þeir vildu að poppstjörnur yrðu hluti af daglegri umfjöllun. Allt sem við gerðum eða sögðum komst í fréttirnar og það var of mikið fyrir mig. Ég ætlaði aðeins að taka mér pásu í stuttan tíma, en það varð að mörgum árum. Ég vildi venjulegt líf, þótt það sé kannski ekki hægt eftir að hafa verið í Duran Duran.“

Roger flutti á búgarð í Englandi og eignaðist börn og buru. Hann hugsaði líf sitt upp á nýtt en skildi þó ekki alveg við tónlistina. Á tíunda áratugnum hreifst hann af danstónlistinni sem tröllreið öllu á þeim tíma. Hann fór að semja að nýju og gerðist plötusnúður um tíma. Duran Duran hélt áfram störfum en gekk í gegnum mannabreytingar.

„Í kringum aldamótin hringdi John í mig og sagði að upprunalega bandið væri að koma aftur saman og hvort ég vildi ekki vera með. Ég hélt að Duran Duran væri búin að vera á þessum tímapunkti. Ég var því hikandi þegar hann hringdi og þurfti að liggja á þessu yfir nótt. Síðan hringdi ég til baka og sló til.“

Var dýnamíkin sú sama í bandinu þegar þú komst til baka?

„Nákvæmlega sú sama,“ segir Roger og hlær. „Samt höfðum við allir verið að gera mismunandi hluti á meðan við vorum í sundur. Fólk reynir að breyta sér en í grunninn erum við öll þau sem við erum. Eitt af því sem gerir dýnamíkina í bandinu svo góða er hversu ólíkir við erum. Það heldur okkur skapandi.“

Er það sveipað jafn miklum ljóma í dag að túra um heiminn?

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá held ég að það hafi aldrei verið sveipað miklum ljóma. Við erum annaðhvort á tónleikastaðnum, á hóteli eða flugvelli. Það koma þó dagar þar sem við eigum frí og getum skoðað okkur um. Í dag erum við líka mun rólegri og yfirvegaðri en við vorum áður fyrr og einbeitum okkur að tónleikunum sjálfum.“

 

Ekkert fimm ára plan

Margar eldri hljómsveitir hætta að gefa út nýtt efni á einhverjum tímapunkti. Þær endurnýja sig ekki og spila aðeins eldra efni. Það er ekki hægt að segja um Duran Duran sem gefur sífellt út nýjar plötur þótt hljómsveitin flytji einnig eldra efni í bland á tónleikum. Síðan Roger gekk aftur til liðs við sveitina hefur Duran Duran gefið út fjórar plötur og sú nýjasta, Paper Gods frá árinu 2015, náði töluverðum vinsældum.

„Við erum að vinna að nýrri plötu núna,“ segir Roger. „Hún kemur sennilega út á næsta ári. Á síðustu plötunni fórum við vel inn í elektróníkina en á þeirri næstu förum við nær rótum okkar á níunda áratugnum. Við erum ekki bundnir af neinu og getum farið í hvaða átt sem við viljum í lagasmíðinni. Það er bara eitthvað sem gerist af sjálfu sér. Við ræðum ekkert sérstaklega hvaða stefnu við ætlum að taka.“

Er yngra fólk móttækilegt fyrir tónlistinni ykkar?

„Já, við sjáum töluvert af yngra fólki á tónleikaferðalögum okkar. Í dag er tónlistarneysla orðin svo breytt. Áður fyrr var alltaf fyrirfram ákveðinn farvegur sem tónlistin varð að fara, í gegnum útgáfufyrirtæki, tónlistarpressuna og gagnrýnendur. Fólk las þetta og keypti plötur byggt á þeirri gagnrýni. Nú hlustar fólk á tónlistina á netinu, kynnist fleiru og lætur ekki aðra stjórna því hvað það hlustar á. Ungt fólk í dag nálgast tónlistina okkar án fyrirframgefinna skoðana.“

Hefur þinn trommustíll breyst?

„Já, mjög svo. Ég sé þetta þegar ég horfi á gömul myndbönd af sjálfum mér. Ég var alinn upp á pönki og allt snerist um kraft og hraða. Í dag er ég orðinn mun mildari og fágaðri í hreyfingum, með meira grúví en áður.“

Býstu við að hljómsveitin haldi áfram í mörg ár til viðbótar?

„Ég hreinlega veit það ekki. Við ræðum það aldrei og reynum að lifa í núinu, eins og sagt er. Núna erum við að einbeita okkur að nýju plötunni og lagasmíð fyrir hana. Svo förum við á tónleikaferðalag eftir útgáfu hennar. Við hugsum ekki lengra fram í tímann en það. Það er ekkert fimm ára plan.“

Roger segir að meðlimir Duran Duran séu góðir vinir, frekar en hljómsveitarfélagar, en þó eyði þeir ekki öllum frítíma sínum saman. Í dag hafa þeir meiri skilning hver á öðrum og setji ekki óþarfa pressu á sig. En það var ekki alltaf svo.

„Áður fyrr vissum við ekki hvernig við áttum að tala saman. Það safnaðist sífellt upp kergja og að lokum funkeruðum við ekki sem heild. Við ólumst upp í Birmingham á sjöunda og áttunda áratugnum og lærðum því ekki að ræða hlutina. Í dag er miklu betri skilningur á milli okkar og virkilega góð og lífseig vinátta.“

 

Duran Duran kemur til Íslands og heldur tónleika í Laugardalshöllinni þann 25. júní næstkomandi. Búast má við miklu sjónarspili frá poppurunum sem hafa plægt akurinn í fjörutíu ár, selt hundrað milljónir platna og unnið ótal verðlaun á ferlinum Hægt er að nálgast miða á tónleikana hjá tix.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar