fbpx
Sunnudagur 23.júní 2024
Fókus

„Mér finnst við venjuleg fjölskylda“

Ásta Rún Valgerðardóttir sendir frá sér fyrstu barnabók sína „Fjölskyldan mín“ – Hún vill með sögunni auka líkurnar á að fordómaleysi barna viðhaldist fram á fullorðinsár

Kristín Clausen
Laugardaginn 21. október 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér finnst við svo venjuleg fjölskylda að stundum gleymi ég því að öðrum þykir það ekki.“ Þetta segir Ásta Rún Valgerðardóttir sem er höfundur barnabókarinnar „Fjölskyldan mín“ sem kom út í vikunni. Ásta er gift Guðrúnu Dóru Bjarnadóttur. Saman eiga þær soninn Bjarna Frey en líffræðilegur faðir hans er sæðisgjafi. Þá er annað barn þeirra hjóna væntanlegt í heiminn snemma á næsta ári. Ásta, sem er sálfræðingur á Landspítalanum, telur afar mikilvægt að börn fái þau skilaboð frá umhverfi sínu að fjölskylduform þeirra sé samþykkt og eðlilegur hluti af samfélaginu. Eitt af markmiðum bókarinnar er að auka fjölbreytileikann í íslenskum barnabókum svo að flest börn geti speglað sig í þeim sögum sem lesnar eru fyrir þau. Þá vill Ásta með bókinni auka líkurnar á því að umburðarlyndi og fordómaleysi, sem svo oft einkennir ung börn, haldist fram á fullorðinsár.

Aðalsöguhetja bókarinnar er Friðjón, fimm ára strákur sem á tvær mæður. Sagan gerist á fjölskyldudegi í leikskólanum hans þar sem allir krakkarnir, með aðstoð kennara, teikna og ræða um fjölskyldurnar sínar. Þar kemur í ljós að fjölskyldur barnanna eru mjög ólíkar. Til dæmis á eitt barnið foreldra sem eru skildir. Þá á annað barn gæludýr. Friðjón lærir því heilmikið um ólík fjölskylduform með því að hlusta á krakkana ræða um fjölskyldurnar sínar.

Finnst vanta meiri breidd í íslenskar barnabókmenntir

Ásta byrjaði fyrst að leita að barnabókum, þar sem samkynhneigð kemur við sögu, þegar hún gekk með son sinn árið 2014. „Úrvalið var sama og ekkert. Sérstaklega fyrir börn á leikskólaaldri. Svo eftir að Bjarni varð eldri fannst mér leiðinlegt að í þeim bókum sem ég las fyrir hann var yfirleitt sama fjölskylduformið. Mamma, pabbi og barn,“ segir Ásta og bætir við að það sé mikilvægt fyrir börn að þeim finnist þau hluti af stóra samhenginu. Þá fannst Ástu vanta barnabók, í söguformi, sem gæti hjálpað foreldrum, kennurum og öðrum að ræða um mismunandi fjölskyldur á þægilegan hátt. „Sonur okkar, sem er þriggja ára, bendir stundum á myndirnar í bókunum sem við erum að lesa fyrir hann og spyr hvort þessi eða hinn karakterinn í bókinni sé líka mamma. Því hef ég stundum gripið til þess ráðs að lesa „mamma og mamma“ í stað „mamma og pabbi.“

Ásta kveðst sjálf aldrei hafa fundið fyrir fordómum á Íslandi vegna samkynhneigðar sinnar. „Við erum svo ótrúlega venjuleg fjölskylda. Stundum gleymi ég því alveg að sumum finnst það ekki.“ Þó kveðst Ásta hafa fengið að heyra, aðallega frá fólki af eldri kynslóðinni, að það vorkenni syni þeirra Guðrúnar að eiga ekki pabba. „Bjarni hefur einu sinni spurt okkur hvar pabbi hans sé og við sögðum að hann ætti ekki pabba heldur tvær mömmur. Hann sætti sig alveg við það svar og hefur ekki spurt síðan. Það sama á við um vini hans á leikskólanum. Krökkunum á leikskólanum hans þykir heldur ekkert athugavert við að Bjarni eigi tvær mömmur. Enda ætti engum að finnast það verri kostur að eiga tvær mömmur heldur en mömmu og pabba. Hvað þá tvo pabba, eða stjúpforeldra. Svo eru auðvitað börn sem eiga eitt foreldri. Fjölskyldur eru alls konar og við eigum að fagna fjölbreytileikanum. Það eina sem skiptir máli í þessu samhengi að barnið sé elskað og því líði vel.“

Eini dagurinn á leikskólaárinu sem hjónin, Ásta og Gunna, fá aðstoð með í leikskólanum er Bóndadagurinn. En þá er karlkyns fjölskyldumeðlimum boðið í kaffi á deild leikskólabarnanna þar sem þeim gefst færi á að halda upp á daginn. „Flest börnin bjóða pöbbum sínum en Bjarni býður afa sínum. Þeir eru báðir mjög sáttir við það fyrirkomulag enda mjög nánir og góðir félagar.“

Sögupersónurnar heita eftir leikskólastarfsfólkinu

Eftir að hafa lengi velt því fyrir sér að skrifa bók, eins og hún myndi vilja að börnin hennar gætu lesið, lét Ásta slag standa í upphafi árs 2017. „Við Gunna setjumst yfirleitt niður um áramótin, setjum okkur markmið og ákveðum hvað við ætlum að gera á nýja árinu. Gunna vissi að ég hafði lengi velt þessu fyrir mér. Þegar hún spurði hvort mig langaði ekki að setja þetta á „To Do“-listann fyrir árið þá ákvað ég að hefjast handa.“ Nokkrum vikum síðar var allt komið á fullt, textinn kominn á blað og Ásta komin með útgefanda.

Bjarni er hæstánægður með söguna sem mamma hans skrifaði. Hann ásamt ótal fagaðilum hafa fengið að hlusta á og lesa bókina. Allar sögupersónurnar í bókinni, að frátalinni aðalsöguhetjunni, eru nefndar eftir starfsfólki á leikskóla Bjarna. „Fólkið sem vinnur á leikskólanum hans Bjarna hefur reynst honum, sem og öðrum börnum í leikskólanum, ótrúlega vel. Ég vildi með þessu móti sýna þeim örlítinn þakklætisvott.“ Nafn Friðjóns kom þó úr allt annarri átt en maðurinn sem bjó í íbúðinni, sem Ásta og fjölskylda hennar búa í, á undan þeim hét Friðjón. „Nafnið hans stóð heillengi á dyrabjöllunni okkar eftir að við fluttum inn. Svo eftir að ég byrjaði að móta persónunar í bókinni kom aldrei neitt annað til greina en að nefna strákinn Friðjón.“

Ásta segir að ferlið, að skrifa og gefa út bók, hafi verið mun auðveldara en hún hélt í upphafi. Hún kveðst einstaklega ánægð með það hvernig Lára Garðarsdóttir, sem er menntaður teiknari og kvikari, glæddi söguna lífi með myndskreytingum sínum. „Ég fékk líka styrk frá samfélagssjóði Valitor sem þýðir að bókin verður gefin á alla leikskóla í landinu.“ Það eitt og sér er mikill sigur fyrir Ástu en draumurinn var að öll börn á Íslandi hefðu aðgang að bókinni. „Helst hefði ég viljað gefa hana á hvert einasta heimili. En það er kannski ekki raunhæft. Það sem skiptir mig öllu máli er að börn í alls konar fjölskyldum fái innsýn í alls konar fjölskylduform.“

Á morgun, laugardaginn 21. október, á milli klukkan 14 og 16, verður útgáfuhóf vegna bókarinnar „Fjölskyldan mín“ haldið í sal Samtakanna ’78. Börn eru sérstaklega velkomin í útgáfuhófið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Ben Affleck opnar sig um samband hans og Jennifer Lopez – „Fokking sturlað“

Ben Affleck opnar sig um samband hans og Jennifer Lopez – „Fokking sturlað“
Fókus
Í gær

Eiginkona Kanye West ber að ofan á almannafæri – Aðeins með límband sem huldi lítið

Eiginkona Kanye West ber að ofan á almannafæri – Aðeins með límband sem huldi lítið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Simma heitt í hamsi þegar talið barst að Svövu – „Hún er tekin þarna í viðtal í geðshræringu“

Simma heitt í hamsi þegar talið barst að Svövu – „Hún er tekin þarna í viðtal í geðshræringu“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Maríanna segir að hún sé ekki grey þó það hafi verið haldið framhjá henni – „Ég er bara kona sem valdi rangan maka“

Maríanna segir að hún sé ekki grey þó það hafi verið haldið framhjá henni – „Ég er bara kona sem valdi rangan maka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Óvæntur ávinningur af kynlífi sem sjaldan er rætt um

Óvæntur ávinningur af kynlífi sem sjaldan er rætt um
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vandamálin sem klámstjarnan glímir við í einkalífinu – „Ég hætti við stefnumótið og talaði aldrei aftur við hann“

Vandamálin sem klámstjarnan glímir við í einkalífinu – „Ég hætti við stefnumótið og talaði aldrei aftur við hann“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ferðabloggari segir að þetta sé það heimskulegasta sem þú getur gert á Íslandi

Ferðabloggari segir að þetta sé það heimskulegasta sem þú getur gert á Íslandi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Birtu fangamyndina af Justin Timberlake

Birtu fangamyndina af Justin Timberlake