fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Hangir saman á 12 skrúfum

Sævar Freyr, forstjóri 365, slasaðist illa við sprang í Vestmannaeyjum – Gekk alltaf í sama íþróttagallanum – Kom á óvart að verða launamaður

Ritstjórn DV
Föstudaginn 5. febrúar 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, var einn af yngstu forstjórum landsins þegar hann tók að stýra Símanum aðeins 36 ára gamall. Hann vann sig upp frá grunni og hafði starfað í 18 ár hjá Símanum þegar honum var sagt upp fyrir tveimur árum, vegna sameiningar Símans og Skipta. Ekki leið þó á löngu þar til hann var kominn í brúna hjá 365. Það hvarflaði aldrei að honum að þetta yrði hans starfsframi – að vera forstjóri. Hann ætlaði sér alltaf að öðlast þekkingu á einhverju sviði og stofna fyrirtæki. Sævar er mikill fjölskyldumaður og setur fjölskylduna alltaf í fyrsta sæti, en sjálfur kemur hann frá efnalitlu heimili. Í sumar mölbraut hann á sér fótinn við sprang í Vestmannaeyjum og er enn að jafna sig. Hann losnaði nýlega við hækjurnar en haltrar þegar hann gengur. Blaðamaður settist niður með Sævari og ræddi meðal annars um slysið, starfsframann, breytingar á nýjum vinnustað og fjölskylduna sem skiptir hann öllu máli.

Þar sem blaðamaður situr, blár af kulda, í móttöku 365 og reynir að blása lífi í hálfdofnar hendurnar, án árangurs, sér hann hvar Sævar kemur gangandi niður stiga. Hann er haltur og það rifjast upp fréttir af því að forstjórinn hafi farið illa út úr sprangi síðasta sumar. Sævar tekur í ískalda hönd blaðamanns og kynnir sig. Brosir og hefur orð á krókloppinni hendinni. Blaðamaður hefur hins vegar áhyggjur af fætinum á forstjóranum – og því hvort hann ofreyni sig nokkuð í stiganum. „Ég slasaði mig aðeins í sumar,“ segir hann strax, líkt og hann lesi hugsanir. „En þetta er einmitt það sem ég á að gera, vera duglegur að ganga og nota fótinn,“ útskýrir hann á meðan við göngum aftur upp stigann og blaðamaður andar léttar. Skrifstofan er á þriðju hæð, svo þetta er smá ganga.

Allt í öllu á Skaganum

Sævar er fæddur og uppalinn á Akranesi og fer ekkert leynt með það hvað honum finnst frábært að vera Skagamaður. „Allt í mínu lífi hefur snúist um Akranes. Ég hreinlega elska Akranes og allt við Akranes. Konan mín er líka frá Akranesi og við ákváðum að flytja aftur heim eftir smá viðdvöl í borginni til að vera nálægt foreldrum okkar. Við vildum leyfa börnunum okkar að alast þarna upp. Þetta er svo gott samfélag og fólk stendur saman,“ segir Sævar einlægur um heimabæinn sinn sem hann hefur lagt sig fram um að gera sem mest fyrir. Það má eiginlega segja að hann sé allt í öllu á Skaganum.

„Það sem ég hef hvað mest gaman af er að taka þátt í félagsskap sem heitir Club ’71. Það er hópur Skagamanna á Akranesi sem eru allir fæddir árið 1971. Við stöndum fyrir ýmsum uppákomum. Síðustu sex ár höfum við til dæmis staðið fyrir þorrablóti sem sækja orðið um 700 manns. Það er mikið lagt í skemmtiatriðin og þetta er orðinn stærsti viðburðurinn sem haldinn er á Akranesi ár hvert,“ segir Sævar. Hann verður sposkur á svip þegar hann ræðir um félagsskapinn, en meðlimir hans hafa augljóslega gaman af lífinu. „Þetta er hálfgert hrekkjalómafélag,“ bætir hann við.
Hagnaðurinn af þorrablótinu er yfirleitt um þrjár milljónir en sá peningur skiptist á milli íþróttafélaganna sem vinna á kvöldinu sjálfu, sem og björgunarsveitarinnar. Þannig lætur félagsskapurinn gott af sér leiða á sama tíma og hann heldur uppi skemmtilegu félagslífi.

En Sævar lætur það ekki duga. Hann er einnig í stjórn knattspyrnufélags ÍA, sem og í stjórn Hollvinasamtaka sjúkrahússins á Akranesi. Síðasta stóra verkefni samtakanna var að safna fyrir tölvusneiðmyndatæki sem kostaði um 40 milljónir. „Við kláruðum það og afhentum fyrri hluta árs 2015. Þetta er það mikið undirstöðutæki fyrir sjúkrahúsið að við hefðum líklega þurft að loka hálfu sjúkrahúsinu ef þetta tæki hefði ekki komið til,“ útskýrir hann.

„Hann spurði hvort það væri möguleiki á því að ég væri vitlaus“

Kemur af efnalitlu heimili

Sævar var mjög rólegt barn. Svo rólegt að faðir hans hafði áhyggjur af honum á tímabili. „Hann spurði hvort það væri möguleiki á því að ég væri vitlaus. En móðir mín, sem er leikskólakennari, sagði að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því, drengurinn væri bráðgreindur. Að hennar mati að minnsta kosti.“

En þrátt fyrir rólegt lundarfarið var Sævar mjög vinnusamur og jafnframt duglegur að leggja pening til hliðar. „Ein mín fyrsta vinna var að bera út DV og ég safnaði mér fyrir mínu fyrsta reiðhjóli. Það var hefð hjá mér þegar ég fékk útborgað að taka hluta af peningunum og kaupa mér ís, svo fór restin í að safna mér fyrir reiðhjóli,“ segir Sævar og hlær, en þá var hann varla orðinn tíu ára.

Hann kemur af efnalitlu heimili og lærði snemma að standa á eigin fótum. „Ég man mjög vel eftir því að á ákveðnum tíma höfðu foreldrar okkar til dæmis ekki efni á því að leyfa okkur að fara í skólaferðalög. Það var því einhvern veginn bara mjög eðlilegt að ég ynni og safnaði mér fyrir mínu eigin hjóli.“

Alltaf í sama íþróttagallanum

Foreldrar Sævars lögðu mikla áherslu á vinnusemi og heiðarleika í uppeldinu og að það skipti máli að leggja hart að sér. Hann segir það hafa mótað sig mun meira heldur en þá staðreynd að fjölskyldan hafði lítið á milli handanna og þurfti stundum að neita sér um hluti sem öðrum þóttu sjálfsagðir.

„Ég man auðvitað alveg eftir erfiðum augnablikum, eins og þegar lá fyrir að ég kæmist ekki í ferðalög með skólafélögunum,“ viðurkennir Sævar. En þótt efnin væru lítil upplifði fjölskyldan sem betur fer aldrei skort. „Ég borðaði reyndar aðeins meira slátur en mig langar að muna og ég get ekki enn borðað slátur í dag,“ segir hann og skellir upp úr. „Við fengum heldur ekki páskaegg. Það var frekar bökuð kaka á páskadag og það þótti alveg frábært.“

Sævar upplifði þó aldrei öfundsýki í garð félaga sinna sem fengu meira en hann. Segist hann einfaldlega ekki vera þannig gerður. Það er samt eitt atvik sem situr í honum, þar sem hann fann fyrir því á eigin skinni að fjölskyldan hafði lítið á milli handanna.

„Ég var að detta í unglingsárin og var svo heppinn að vinna íþróttagalla í happdrætti hjá knattspyrnudeild ÍA. Svo gekk ég bara í íþróttagallanum nánast alla daga því mér þótti svo vænt um hann. Á þessum tíma var ég aðeins farinn að veita hinu kyninu athygli og vildi auðvitað að stelpurnar sæju mig líka. Svo einhvern tíma í frímínútum komu nokkrar stelpur til mín, sem eru mjög góðar vinkonur mínar í dag, og spurðu hvort ég skipti aldrei um föt. Ég svaraði því þannig að ég ætti tvo íþróttagalla. Þetta var mín leið til að líta vel út. Ég átti ekki mikið af fötum og þarna rann það svolítið upp fyrir mér. Þetta með skólaferðalögin sat ekki í mér, ekki nema rétt augnablikið þegar ég fékk fréttirnar um að ég gæti ekki farið með. En þetta sat í mér.“

„Ég man auðvitað alveg eftir erfiðum augnablikum, eins og þegar lá fyrir að ég kæmist ekki í ferðalög með skólafélögunum“

Aldrei með forstjórann í kollinum

Á unglingsárunum vann Sævar meðal annars fyrir sér í Bíóhöllinni og sá að sjálfsögðu allar bíómyndir sem komu í sýningu. Hann segir það hafa verið góðan bakgrunn þegar hann kom inn í 365 að hafa haft svona mikinn áhuga á kvikmyndum. Á meðan flestir jafnaldrar Sævars unnu svo fyrir sér í vinnuskólanum á sumrin stofnaði hann útimarkað á torginu á Akranesi ásamt bróður sínum þar sem þeir seldu ávexti. „Þetta þótti mjög nýmóðins þá og var ágætis aukapeningur fyrir okkur. Við seldum til dæmis pistasíuhnetur sem var fyrirbæri sem varla þekktist á þeim tíma. Svo pöntuðum við ávexti sem sáust almennt ekki í matvöruverslunum á Akranesi,“ segir Sævar en þeir bræðurnir fengu vörurnar frá innflutningsfyrirtæki í Reykjavík.

En hvernig sá ungur Skagamaður á uppleið fyrir sér framtíðina? Dreymdi hann alltaf um að verða forstjóri?
„Ég get alveg sagt að ég átti alls ekki von á því að þetta yrði minn starfsframi. Ég var aldrei með slíkt í kollinum. Það sem hefur komið mér mest á óvart er að ég sé búinn að vera launamaður alla mína tíð. Þegar ég var að stofna útimarkaðinn, þá sá ég fyrir mér að ég myndi stofna fyrirtæki í framtíðinni. Það yrði minn veruleiki. Ekki endilega stór fyrirtæki, frekar lítið. En það sem hefur reynst mér vel í gegnum tíðina er hæfni í að vinna með fólki og hæfni í mannlegum samskiptum. Ef ég væri í atvinnuviðtali þá myndi ég segja að það væri minn stærsti kostur. Ég legg mikla áherslu á samvinnu og liðsvinnu. Það skiptir miklu máli að liðsheildin sé ekki of einsleit svo ólík sjónarmið heyrist þegar þarf að kryfja stór mál til mergjar og velta upp ólíkum sjónarmiðum. Þannig fæst besta niðurstaðan.“

Síðasta sumar slasaðist Sævar illa við sprang í Vestmannaeyjum. Hann haltrar en er nýlega laus við hækjurnar.
Mölbraut fótinn Síðasta sumar slasaðist Sævar illa við sprang í Vestmannaeyjum. Hann haltrar en er nýlega laus við hækjurnar.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Borða alltaf kvöldmat saman

Sævar og konan hans eru búin að vera saman frá því hún var 16 ára og hann 17, en leiðir þeirra lágu fyrst saman í hæfileikakeppni sem haldin var á Akranesi. En ekki hvar? „Ég tók þátt í keppninni með hljómsveitinni Guð minn góður, þar sem ég var söngvari. Það er eina skiptið sem ég hef sungið og ég á ekki að gera meira af því,“ segir Sævar og hlær. Söngurinn er ekki hans sterkasta hlið og það þarf vart að taka fram að hljómsveitin náði ekki langt í hæfileikakeppninni. Enda annað sem stóð upp úr frá þessu kvöldi. „Á dansleik eftir keppnina náði ég að fanga athygli hennar. Ég hafði tekið eftir henni nokkrum dögum áður,“ segir hann og brosir. Saman eiga þau hjónin þrjú börn; 20 ára gamlan son, sem stundar nám í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, og tvær stelpur, 12 og 14 ára.

Sævar er mikill fjölskyldumaður og á hans heimili er lögð áhersla á að fjölskyldan setjist saman niður eftir daginn og borði kvöldmat. „Það er alveg heilagt og sjaldan sem það bregst. Mér finnst það skipta miklu máli að við ræðum saman um það sem er að gerast hjá fjölskyldunni. Það eru alveg ótrúleg forréttindi að vera kominn með börn á þann aldur að maður geti átt vitræn samtöl við þau.“
Þrátt fyrir að konan sjái oftast um hversdagsmatinn er eldamennska mjög stórt áhugamál hjá Sævari. Hann nýtur þess að elda góðan mat, bæði fyrir fjölskyldu og vini. Er það ein af hans leiðum til að leggja rækt við vináttu- og fjölskyldubönd.

„Fjölskyldan og vinirnir er það sem skilur eitthvað eftir sig“

Fannst hann orðinn góður sprangari

Aðspurður hvort fjölskyldan eigi sér einhver sameiginleg áhugamál segir Sævar þau hjónin reyna eftir fremsta megni að fylgja eftir áhugamálum barnanna. Það skipti mestu máli. En sjálfur er hann forfallinn áhugamaður um golf og er að reyna að smita aðra fjölskyldumeðlimi af þeim áhuga – með þokkalegum árangri.

„Við búum við hliðina á golfvellinum á Akranesi og mér er að takast að draga fjölskylduna með í að spila golf. Mér hefur reyndar mistekist að ná elsta stráknum með, en hver veit nema hann komi síðar. Þetta hefur hins vegar gengið ágætlega með hina fjölskyldumeðlimina. Reyndar setti slysið sem ég lenti í síðasta sumar strik í reikninginn. Ég er búinn að vera alveg bæklaður síðan í júní í fyrra,“ segir Sævar sem slasaðist illa við sprang.

Hann var staddur í Vestmannaeyjum þar sem dóttir hans tók þátt í fótboltamóti og hún var mjög spennt fyrir því að fá að prófa að spranga. Sjálfur var Sævar ekki alveg ókunnur íþróttinni. Hann hafði nefnilega fengið að prófa ári áður. „Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum tók á móti mér og tveimur öðrum gestum og kenndi okkur að spranga. Mér fannst ég því vera orðinn svo rosalega klár að ég ákvað að fara ekki í barnastærðina, heldur hæðina þar fyrir ofan,“ segir Sævar, en fjölskyldan fór að spranga eftir fótboltamótið ásamt vinafólki. „Ég var búinn að fara nokkrar ferðir sem höfðu gengið vel, en var byrjaður að þreytast. Svo kom ég að klettunum í eitt skipti og náði ekki að stöðva mig, þannig að ég komst í sjálfheldu og hékk í lausu lofti í reipinu. Ég náði ekki að komast að klettunum og eina leiðin niður var að fara niður reipið. Ég hafði ekki vit á því að nota fæturna á leiðinni niður – hélt að handaflið myndi duga,“ útskýrir Sævar. En það dugði ekki til. Eftir að hafa reynt að fikra sig niður reipið missti hann takið. „Ég reyndi að grípa aftur í reipið og braut tvo fingur við það. Þessi fingur fór alveg í 90 gráður,“ segir hann, réttir fram höndina og togar í baugfingurinn.

„Það sem hefur komið mér mest á óvart er að ég sé búinn að vera launamaður alla mína tíð“

Fóturinn splundraðist

„Í fallinu lenti ég ansi illa. Þau sem voru með mér sáu hvernig fóturinn gekk allur til. Það brotnuðu báðar pípurnar í sundur og beinið fyrir neðan vinstra hnéð splundraðist í 50 til 60 búta.“ Sævar tekur fram símann og sýnir blaðamanni röntgenmynd sem hann á af fætinum eftir að búið var að tjasla honum saman með skrúfum og járnplötum. Þetta er mikið víraverk sem Sævar kemur til með að vera með í fætinum um ókomna tíð, ef allt gengur vel. „Þetta eru tólf naglar og skrúfur og tvær plötur sem halda þessu saman.“

Fallið var líklega ekki mikið meira en tveir metrar, en Sævar lenti mjög illa með fyrrgreindum afleiðingum. Hann segist ekki hafa náð að leiða hugann að ástandinu á sjálfum sér þar sem hann lá mölbrotinn á jörðinni eftir fallið. Hann hafði bara áhyggjur af því að dætur hans þyrftu að horfa upp á þetta. „Ég upplifði aldrei sársauka heldur fór í lostástand og skalf allur. Þetta var óstjórnlegur skjálfti sem ég réði illa við. Mér leið svo illa yfir því að dætur mínar væru að horfa á mig svona. Þær brugðust við á mismunandi hátt. Önnur grét og fór að klettunum. Hún átti mjög erfitt með þetta. En þessi eldri vildi hlýja mér og hélt undir höfuðið á mér.“

Hér má sjá járnvirkið í fæti Sævars. Um er að ræða tólf skrúfur og nagla og tvær járnplötur sem halda fætinum saman.
Fóturinn Hér má sjá járnvirkið í fæti Sævars. Um er að ræða tólf skrúfur og nagla og tvær járnplötur sem halda fætinum saman.

Veit ekki hvort hann jafnar sig alveg

Sævar var svo fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur daginn eftir þar sem hann gekkst undir aðgerð á Landspítalanum. Í kjölfarið tók svo við ströng endurhæfing sem stendur enn yfir.
„Ég er búinn að leggja mjög hart að mér og er nú laus við hækjurnar. Nú eru komnir átta mánuðir síðan þetta gerðist og draumurinn er að ég nái að koma mér í stand til að geta eitthvað spilað golf í sumar,“ segir Sævar en hann veit í raun ekki á þessu stigi hvort það er raunhæft. Hann veit yfir höfuð ekki hvort hann verður nokkurn tíma góður í fætinum. En brotið var það slæmt að líklegt er að afleiðingar þess komi til með að há honum í nokkurn tíma. „Ég er samt svo bjartsýnn að eðlisfari að ég trúi því að þetta eigi eftir að verða gott. Vinnusemin við að koma mér í stand mun skila sér á endanum.“

En bölvar hann aldrei þeirri vitleysu í sér að hafa ætlað að spranga eins og fagmaður, eftir eitt prufuskipti? „Ég lít mjög sjaldan í baksýnisspegilinn. Ég einbeiti mér frekar að því hvað er fram undan. Reyni að njóta þess sem er að fara að gerast. Ég hef gert alveg nóg af mistökum í gegnum tíðina en ég einbeiti mér að núinu og horfi frekar fram í tímann.“

„Þetta eru tólf naglar og skrúfur og tvær plötur sem halda þessu saman“

Fékk stöðuhækkun annað hvert ár

Það má eiginlega segja að Sævar hafi lifað hratt. Hann byrjaði ungur að vinna fyrir sér, stofnaði snemma fjölskyldu og varð einn af yngstu forstjórum landsins. Hann er því vanur því að vera ungi maðurinn í hópnum.
„Í öllu sem ég hef gert hef ég alltaf verið yngstur, en nú er ég að átta mig á því að ég er að byrja að vera innan um fullt af fólki sem er yngra en ég. Ég var ekki nema 36 ára þegar ég var ráðinn forstjóri hjá Símanum og gegndi því starfi í sex ár. Svo er ég búinn að vera hér hjá 365 í eitt og hálft ár. Ég telst líklega ekki vera í ungliðahreyfingunni lengur,“ segir hann kíminn.

Eftir að Sævar hafði lokið viðskiptafræðinámi við Háskóla Íslands á sínum tíma starfaði hann í nokkra mánuði hjá litlu hugbúnaðarfyrirtæki áður en hann fór til Símans.
„Ég var fyrst ráðinn til Símans sem viðskiptastjóri stærri fyrirtækja en svo gegndi ég meira og minna öllum mögulegum og ómögulegum störfum innan fyrirtækisins. Held að ég hafi kynnst öllum deildum. Þeir spurðu mig í atvinnuviðtalinu hvort ég sæi þetta starf fyrir mér sem framtíðarstarf og ég sagðist alveg vera tilbúinn að vinna þarna í svona tvö ár. Á þessum árum var það að horfa mjög langt fram í tímann. Ég var nýkvæntur, nýbúinn að eignast barn og átti alltaf von á því að fara í framhaldsnám. Ég fór hins vegar aldrei í meira nám því ég fékk stöðuhækkanir á eins og hálfs til tveggja ára fresti,“ segir Sævar og það er því óhætt að segja að hann hafi unnið sig á toppinn alveg eftir bókinni.

„Þetta var frábær tími hjá Símanum. Ég kynntist svo mikið af frábæru fólki og það var yndislegt að vinna þar. Það var mikill heiður þegar mér var treyst fyrir því verkefni að stýra fyrirtækinu. Undir minni stjórn tókst til að mynda að tvöfalda EBITDA-afkomu fyrirtækisins og ég er mjög stoltur af því.“

Þegar Sævar var forstjóri Símans voru miklar breytingar að eiga sér stað á fjarskiptamarkaði og samkeppnin alltaf að aukast. Hann segir það hins vegar hafa haft jákvæð áhrif á fyrirtækið og starfsandann. Umhverfið hafi verið svo lifandi og spennandi.

„Ég upplifði aldrei sársauka heldur fór í lostástand og skalf allur“

Sá betur hvað skipti máli í lífinu

Í febrúar árið 2014 var Sævar svo látinn taka pokann sinn sem forstjóri í kjölfar sameiningar Símans og Skipta – eftir 18 ár sem starfsmaður Símans. „Það var bara starf eftir fyrir einn. Ég sagði á þeim tíma að þessi ákvörðun hefði verið tekin fyrir mig. En svona er bara lífið.“

Aðspurður hvort hann hafi verið sár yfir því að vera látinn fara segir Sævar það ekki hafa verið tilfinninguna sem sat eftir. „Ég var frekar bara stoltur af þessum tíma. Mér leið vel með það sem ég hafði gert. Það sem skiptir máli í lífinu eru fjölskylda og vinir, þótt auðvitað leggi ég metnað minn í vinnuna. Vinnusemin er mér í blóð borin. Vinnan er samt bara það sem maður þarf að gera til að hitt sé ánægjulegt. Fjölskyldan og vinirnir er það sem skilur eitthvað eftir sig. Kannski varð þessi uppsögn til þess að kenna mér það enn betur hvað skiptir máli í lífinu. Einhverjir segja að þegar maður vinni svona lengi á sama stað, þá verði vinnustaðurinn önnur fjölskylda manns, en það er samt ekki þannig í raun og veru,“ segir Sævar og brosir. Hann talar frá hjartanu. Segist alltaf gera það. Hann geti einfaldlega ekki annað.

Sársaukafullar breytingar

En Sævar var ekki lengi atvinnulaus því aðeins nokkrum mánuðum eftir uppsögnina var hann ráðinn til 365. Síðan hann tók við starfi forstjóra hafa verið töluverðar mannabreytingar og uppsagnir, en hann segir slíkt einfaldlega hafa verið nauðsynlegt til að bæta reksturinn. Aðspurður hvort þeirri breytingahrinu sé lokið svarar hann: „Þetta er starfsemi sem er töluvert mikið á hreyfingu. Það þarf að vinna hratt og hugsa hratt. Við fórum af stað inn í tímabil þar sem þurfti að fækka fólki og það má segja að með síðustu breytingum hafi verið lögð lokahönd á slíka vinnu. Það er auðvitað aldrei hægt að segja að þessu sé lokið, en það er ekkert fram undan hjá okkur núna. Þetta snýst líka um að við þurfum að þróast áfram sem fyrirtæki. Það eru áherslubreytingar og við þurfum að höfða til fólks heima í stofu. Við erum búin að taka töluvert til í rekstrinum þannig að afkoman hefur batnað. Að því leytinu til getum við sagt að þessu sé lokið. Stundum þarf einfaldlega að gera sársaukafullar breytingar til að hægt sé að þróa fyrirtæki áfram.“

Að sögn Sævars er 365 skemmtilegur og lifandi vinnustaður. Þar sé mikil dýnamík í menningunni og mikið frumkvöðlastarf hafi verið unnið í gegnum tíðina. „Starfsemin er mjög fjölbreytt og fyrirtækið stútfullt af hæfileikaríku fólki sem er tilbúið að leggja mikið á sig til að ná árangri.“

„Kannski varð þessi uppsögn til þess að kenna mér það enn betur hvað skiptir máli í lífinu“

Voru ekki tilbúin

Sævar bendir á að fyrirtækið þurfti sífellt að vera að sanna tilverurétt sinn í harðri samkeppni, bæði í afþreyingu og fjarskiptum. Aðkoma RÚV að auglýsingamarkaði geri þeim og öðrum til að mynda erfiðara fyrir.
Þá sé neyslumynstur fólks, til dæmis í sjónvarpsáhorfi, að taka miklum breytingum. Meðal annars með tilkomu notendastýrðs sjónvarps eins og Netflix. Þessum breytingum þurfi að mæta með fjölbreyttari valmöguleikum í þjónustu sem verið sé að leggja áherslu á núna.

„Við höfum lært mikið á því sem við vorum að gera á síðasta ári. Við sameinuðumst Tal og þetta fyrirtæki fór í fyrsta skipti að bjóða upp á alhliða fjarskiptaþjónustu. En þegar við byrjuðum þá vorum ekki alveg tilbúin í þennan slag. Aðalástæðan var sú að tæknin var staðsett í tveimur fyrirtækjum sem voru að sameinast og því var þjónustustigið ekki nógu gott. Við erum búin að leggja gríðarlega mikla vinnu í að laga alla þjónustuferla og tæknivinnu. Við höfum hlustað á óskir og þarfir viðskiptavina okkar og höfum stórbætt þjónustustigið sem nú er á pari við það sem best gerist.“

Sævar segir aðalvandamálið hafa verið að þjónustuleiðirnar hafi verið of flóknar. Það hafi skyggt á mjög hagkvæma þjónustu. En það er búið að færa til betri vegar með breytingum sem kynntar voru í vikunni. „Með því að hlusta á þarfir markaðarins þróuðust þessar nýju leiðir. Viðskiptavinurinn vill ekki þurfa að hafa áhyggjur af því hversu mikið hann talar í símann eða hversu mikið gagnamagn er notað. Mikil þörf er að einfalda flókinn heim fjarskipta og fá hagstæð kjör og teljum við okkur vera að mæta því.“

Sævar telur komu Netflix til Íslands ekki beint ógna þeirri þjónustu sem 365 býður upp á. Áhrif Netflix séu líklega löngu komin fram, enda hafi fjölmargir nýtt sér þjónustuna eftir krókaleiðum þrátt fyrir að hún hafi ekki verið í boði hér á landi.
„Netflix er klárlega samkeppni og mun hafa áhrif til frambúðar, en við sjáum þá sem viðbót á markaðinn. Netflix gerir vel það sem þeir gera en sérstaða okkar liggur í því að við viljum veita fólki aðgang að góðu íslensku efni, ásamt því að gera samninga við fyrirtæki eins og HBO, sem framleiðir hágæða efni og ætlar sér ekki að láta sitt efni flæða til Netflix og slíkra aðila.“

„Að vinna með Jóni Gnarr er ekkert öðruvísi en að vinna með kröfuhörðum verkfræðingi“

Jón Gnarr reif upp sköpunargleðina

En það voru ekki bara uppsagnir sem fylgdu breytingunum eftir að Sævar tók við sem forstjóri 365. Það kom líka nýtt fólk inn í fyrirtækið og ráðning Jóns Gnarr sem ritstjóra innlendrar dagskrár vakti töluverða athygli.
Sævar segist ekki hafa þekkt Jón neitt áður en hann kom inn í fyrirtækið, en hann taldi ráðningu hans skref í rétta átt. „Við vorum komin á þann tímapunkt að við töldum að við þyrftum að efla sköpunargleðina í fyrirtækinu. Ég vissi varla hvað „creativity“ var áður en ég kynntist Jóni Gnarr,“ segir Sævar og skellir upp úr. „Hann kom með sköpunargleði og gáfur inn í fyrirtækið sem við þurftum á að halda til að rífa þetta upp. Hann er til dæmis búinn að setja í gang handritadeild.“ Sævar tekur þó fram að áhrifa Jóns Gnarr á dagskrána fari ekki að gæta fyrr en með haustinu, enda taki tíma að undirbúa efni.

En hvernig er að vinna með Jóni Gnarr? Sævar brosir við þessa spurningu. „Það sem ég hef lært í gegnum tíðina er að hvort sem um er að ræða verkfræðinga eða skapandi fólk, þá þarf maður að tryggja að allir fái að njóta sín út frá sínum hæfileikum. Að vinna með Jóni Gnarr er ekkert öðruvísi en að vinna með kröfuhörðum verkfræðingi. Maður þarf að hugsa hvernig maður hjálpar fólki að ná árangri í því starfi sem það tekur sér fyrir hendur, og það er mitt hlutverk fyrst og fremst.“

Sævar verður hugsi þegar hann hefur lokið því að svara spurningunni. „Var þetta kannski alltof pólitískt svar hjá mér?“ spyr hann og hlær. Blaðamaður getur heldur ekki varist hlátri, en svarar engu að síður játandi. Þetta hafi verið ansi pólitískt. „Þetta kemur samt héðan,“ segir Sævar einlægur og bendir í hjartastað. „Það kemur allt héðan,“ bætir hann við og brosir.

Sævar setur fjölskylduna alltaf í fyrsta sæti, enda séu það fjölskylda og vinir sem skilji mest eftir sig. Ekki vinnan.
Mikill fjölskyldumaður Sævar setur fjölskylduna alltaf í fyrsta sæti, enda séu það fjölskylda og vinir sem skilji mest eftir sig. Ekki vinnan.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Í gær

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda