
Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan.
Söngvakeppnin árið 2023 var fyrsta stóra skref Siggu inn í bransann. Hún tók þátt með laginu Gleyma þér og dansa (Dancing Lonely) eftir Klöru Elías, Ölmu Goodman, David Mørup og James Gladius Wong.
„Ég verð að gefa Söngvakeppninni og Eurovision pláss í sögunni minni af því að það var alltaf Eurovision-partí heima. Ég hef alltaf elskað þetta og hef alltaf hugsað: „Ég ætla að vera þarna.“ Ég tók þátt í öllum söngvakeppnum sem ég gat í skóla.“
Sigga rifjar upp þegar hún var fjórtán ára gömul og stofnaði hóp sem hét „Charles“ þar sem hún söng og sex stelpur dönsuðu, hópurinn var fyrir miklum áhrifum af Beyoncé.


Hún vissi alveg hvert hana langaði að fara og vissi því strax svarið þegar Klara Elías heyrði í henni fyrir Söngvakeppnina árið 2023.
„Ég kúkaði í brækurnar þegar hún sendi á mig,“ segir hún. „Þá byrjaði það ferli og það má segja að það hafi breytt lífi mínu.“
Sigga komst áfram í úrslitaþáttinn en það var hún Diljá sem sigraði með laginu Power. Ári seinna tók Sigga aftur þátt, í þetta sinn með laginu Um allan alheiminn (Into the atmosphere), og rataði aftur í úrslit en Hera Björk fór út fyrir hönd Íslands með lagið Scared of Heights.
Aðspurð hvað standi upp úr varðandi þátttöku hennar í Söngvakeppninni segir Sigga að allt ferlið hafi verið skemmtilegt en skemmtilegast hafi verið að flytja lögin uppi á sviði eftir margra vikna undirbúning og æfingar. Hún segir tilfinninguna engu lík.
„En ég elska líka undirbúningsvinnuna sko. Ég elska að vera á æfingu. Það er svo mikið af töfrum sem gerast í æfingaherberginu,“ segir Sigga. Ýmsar ákvarðanir eru teknar á æfingum, eins og varðandi dansspor og nótur.
„Ég ætlaði ekki til dæmis að taka flaututóninn í Um allan alheiminn. Það kom bara frá vinkonu minni, Brynhildi, sem kom að horfa á æfinguna hjá mér.“
Vinkona hennar hvatti hana til að taka flaututóninn sem endaði með að vera aðalpunkturinn í laginu og vakti athygli út fyrir landsteina.
„Ég er svo ógeðslega glöð að hafa gert það því að það var bókstaflega bara augnablikið í atriðinu. Ég fór þarna upp á stallinn og gerði flaututóninn.“
Það er margt spennandi fram undan hjá Siggu Ózk. Hún er að leika í nýjum þáttum, Ljúfa líf, sem fara í loftið næsta haust. Hún er einnig að vinna í plötu, sem er stútfull af sumarsmellum og er stefnan að hún komi út í maí 2026.
Fylgdu Siggu Ózk á Instagram og TikTok. Hlustaðu á tónlistina hennar á Spotify.